Pétur K. Maack fæddist á Ránargötu 30 í Reykjavík 1. janúar 1946. Hann andaðist aðfararnótt 14. október 2015.

Foreldrar hans voru hjónin Karl P. Maack húsgagnasmiður, f. 15.2. 1918, d. 5.11. 2005, og Þóra Maack húsmóðir, f. 31.10. 1919, d. 1.3. 1994. Bræður Péturs eru Runólfur Maack verkfræðingur, f. 15.11. 1949, og Gunnar Maack viðskiptafræðingur, f. 14.3. 1954, d. 8.7. 1994.

Eiginkona Péturs er Sóley Ingólfsdóttir sérkennari, f. 21. júlí 1949, dóttir Ingólfs Péturssonar hótelstjóra f. 6.8. 1924, d. 16.7. 2001, og Arnfríðar Jóhönnu Guðmundsdóttur, 29.4. 1927. Dætur Péturs og Sóleyjar eru: 1) Valgerður Maack markaðshagfræðingur, f. 12.6. 1973, kvænt Hauki Jónssyni, f. 14.10. 1972, þau eiga þrjár dætur; Sóleyju Friðriku, f. 2000, Svölu Kristínu, f. 2003, og Franzisku f. 2007, 2) Andrea Maack, myndlistarmaður og framkvæmdastjóri, f. 26.7. 1977, maki Gísli Þór Sverrisson, f. 4.10. 1972, 3) Heiðrún Maack læknir, f. 27.4. 1982, kvænt Jónasi Albert Þórðarsyni, f. 5.8. 1982, þau eiga þrjú börn; Bergrúnu Lilju, f. 2009, Pétur Geir, f. 2011, og Júlíönu, f. 2015.
Pétur ólst upp í Vesturbænum. Hann lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar 1961 og stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1965. Pétur lauk fyrrihlutaprófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands 1968, meistaraprófi í vélaverkfræði frá Danmarks Tekniske Højskole í Danmörku og doktorsprófi í rekstarverkfræði árið 1975. Hann var dósent við Háskóla Íslands á árunum 1975-86 og sinnti prófessorsstöðu við sama skóla til 1997.
Pétur tók í framhaldinu við starfi framkvæmdastjóra flugöryggissviðs hjá Flugmálastjórn Íslands og starfaði þar í um áratug, til ársins 2007. Síðustu ár starfsævi sinnar gegndi hann embætti flugmálastjóra, frá 1. janúar árið 2007 til 1. júlí árið 2013. Pétur var virtur á alþjóðavettvangi fyrir störf sín að flugmálum og sat í stjórn flugöryggisstofunar Evrópu EASA fyrir hönd Íslands og í framkvæmdastjórn JAA sem fulltrúi Norðurlandaríkjanna.
Pétur var um árabil formaður Verkfræðingafélags Íslands. Pétur var sæmdur heiðursmerki Verkfræðingafélags Íslands árið 2000, sem m.a. er veitt fyrir vel unnin störf á sviði verkfræði og vísinda. Þá var hann einnig meðal fyrstu heiðursfélaga í Gæðastjórnunarfélagi Íslands árið 1999. Hann tók þátt í margvíslegum félagsstörfum tengdum starfi og áhugamálum, sat m.a í stjórn Skíðaráðs Reykjavíkur, vélaverkfræðideildar VFÍ og starfaði í Gæðastjórnunarfélaginu og fagráði Staðlaráðs. Stundaði leikfimi, skíði og fótbolta allt sitt líf ásamt því að ferðast vítt og breytt um landið. Eitt af helstu áhugamálum Péturs var ljósmyndum og eftir hann liggur einstakt safn ljósmynda. Hann hafði mikinn áhuga á skógrækt og ræktaði upp fallegan skóg við sumarhús fjölskyldunnar í Grímsnesi.
Pétur verður jarðsunginn frá Neskirkju í dag, 22. október 2015, klukkan 13.

Það koma upp augnablik í lífinu þar sem maður fær hugboð sem ekki er hægt að útskýra.
Haustið 2014 fann ég sterkt fyrir einu slíku þar sem ég er stödd á Íslandi og förinni er heitið út á land að taka myndir af stöðum sem ég hafði ekki heimsótt síðan ég var barn með mömmu, pabba og systrum mínum. Við ferðuðumst mjög mikið þegar ég var lítil, en eftir að ég varð fullorðin fannst mér á einhvern hátt að ég væri búin að sjá þessa staði og þyrfti ekkert að koma þangað aftur. Ég sagði pabba hvert ég væri að fara, hann kom með ýmsar ráðleggingar og sýndi mér þá verkefni sem hann var að vinna í, að skanna og flokka allar þær þúsundir slides-mynda sem hann hefur tekið í gegnum tíðina. Við skoðuðum þessar myndir oft þegar ég var lítil, kölluðum það bíókvöld, þetta voru langskemmtilegustu kvöldin og höfð til sérstakra tækifæra. Þegar ég kem aftur út til Mílanó eftir ferðina út á land, var áætlunin að vera áfram úti, en það var eitthvert afl sem togaði það fast í mig að ég komst ég ekki út úr þessari ferð. Tengingunni við náttúruna sem ég vissi ekki að ég hefði saknað svona mikið. Ég komst heldur ekki út úr myndunum hans pabba, ég vildi vita meira um þær, hvar þær voru teknar, hvað var hann að hugsa, fara inn í þær og kafa dýpra. Ég tók ákvörðun um að koma aftur heim, eyða vetrinum úti á landi, fara yfir og vinna með myndirnar hans pabba og vera nær honum þennan vetur. Það kom svo í ljós núna 14.október 2015 að þetta er besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu.
Það er erfitt að lýsa pabba, hann hafði svo margrar hliðar, hliðar sem hann sá stundum ekki sjálfur og hliðar sem fáir fengu að sjá. En allir sem þekkt hafa pabba í gengnum tíðina þekkja þann heilsteyptan karakter sem hann hafði að geyma. Fræðimaðurinn, námsmaðurinn sem átti auðvelt með tölur, skarpa rökhugsun og bráðgáfaður. Fyndinn og skemmtilegur, húmorinn er eitt af því sem ég dýrkaði mest við pabba. Hann hlustaði, vildi læra allt, hann var góður við alla, gerði engan greinamun milli fólks, hann gaf öllum tækifæri. Laus við alla sýndarmennsku, mikill íþróttamaður með endalausa orku, kenndi mér aga og sýndi mér að ég gæti staðið á eigin fótum og gert allt sem ég vildi.
Ég þekkti bara pabba minn. Okkar samband verður ekki tíundað hér í fáum orðum, það er ekki hægt, ég er hann og hann er ég, þegar pabba var illt, var mér illt, ég fann það, þó að ég væri hinum megin við Atlantshafið. Þegar hann var glaður var ég glöð og þó að hann sé farinn, er hann ekki farinn, hann er í mér og ég er heppin að hafa pabba minn með mér alltaf hver sem ég fer og hvað sem ég geri.
Mér þótti vænt um að geta talað við pabba um myndirnar hans síðasta árið, þær eru svo miklu meira en myndir, þær eru úthugsaðar, pabbi var með sinn eigin stíl og lagði mikið upp úr listrænu ígildi þeirra. Það tímabil sem mér fannst skemmtilegast var þegar pabbi ferðaðist með pabba sínum (afa Kalla), bræðrum, frændum og vinum um allt landið við öðruvísi aðstæður en yfirfullu rúturnar af túristum sem þekja landið í dag.

Þarna var landið þeirra leikvöllur, þeir ferðuðust á jeppum yfir fjöll og firnindi með nesti sem amma Þóra hafði smurt fyrir vikur, einir með óspilltri náttúrunni. Þær myndir sem teknar voru á þessu tímabili eru einstakar og helst langaði mig að geta hoppað inn í þær. Hann sagði mér sögur af því þegar hann og pabbi hans fóru m.a að ganga Vestfirðina einir í tíu daga, skildir eftir með vistir og enga leið að hafa samband ef eitthvað kæmi fyrir. Afa skrikaði fótur og litlu munaði að illa færi og eftir það breyttist hugsunin, þeir urðu að fara varlega og hugsa um hvert einasta skref sem þeir tóku. Mig langaði að geta sýnt þessar myndir og fer að setja þær inn á mína samfélagsmiðla (#peturmaack). Það kom fljótt í ljós að myndirnar hans pabba voru mun vinsælli en mínar og lækin hafa aldrei verið fleiri. Hann hafði gaman af þessu, gaf þessu ekki mikinn gaum í fyrstu, en var síðan farinn að skipta sér af, eins og honum var einum lagði og fór að benda mér á hvaða myndir gætu passað inn í þemað, hvað hann var að hugsa þegar hann tók myndirnar og hann skildi strax eftir hverju að ég væri að falast, hann var einfaldlega alltof klár og fljótur að að skilja allt, meira að segja nútíma samfélagsmiðla.
Elsku pabbi minn þú varst alltaf ofboðslega hraustur, hraustari en allir, lifðir heilbrigðu lífi og varst m.a byrjaður að hlaupa og hjóla á áttunda áratugnum áður en það komst í tísku. Því fannst þér og okkur öllum sem standa þér næst einstaklega ósanngjarnt þegar þú greinist með krabbamein fyrir tæpum sex árum. En eitt stærsta afrek þitt sem kemur ekki fram í glæstri ferilskrá þinni, er að þú bjóst þér til tíma, með reglusemi, heilbrigðum líkama og þrjósku. Þú bættir við fimm góðum árum þar sem þú hélst áfram að vinna, ferðaðist erlendis og hérlendis eftir að þér var sagt að það væru 5 % líkur að þú myndi lifa í fimm ár í viðbót og auðvitað þurftir þú að trompa það (líkt og í brids í spilaklúbbnum þínum) og bættir við ári.
Það er erfitt að horfa upp á einhvern sem manni þykir mest vænt um verða veikur en ég er svo óendanlega stolt af því hvernig þú og mamma unnu með þau spil sem ykkur voru gefin. Þið hafa verið óaðskiljanleg alveg frá því að þið kynntust fyrst og því er mamma hálf í dag. Ég lofaði þér að ég mundi alltaf passa upp á hana og systur mínar, en þú baðst okkur bara um að vera góð við hvort annað. Ég og mamma sátum með þér síðustu daganna uppi á spítala og leiddum þig í Skógarsel, uppáhaldsstaðinn þinn, létum þig vita að að pabbi þinn og besti vinur þinn væri að bíða eftir þér, þá brostir þú og sagði bless. Ég sakna þín svo mikið en ég get ekki verið reið, þú áttir svo fallega, viðburðaríka og ósnerta ævi. Ég vildi að ég gæti talað við þig aðeins lengur, haldið aðeins lengur í höndina á þér en ég finn þig inni í mér og þannig ferð þú aldrei frá mér.
Þín dóttir

Andrea.