Guðmundur Friðjónsson rithöfundur fæddist á Sílalæk í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu 24.10. 1869. Foreldrar hans voru Friðjón Jónsson, bóndi á Sílalæk og á Sandi, og k.h., Sigurbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja, af Sílalækjarætt.

Guðmundur Friðjónsson rithöfundur fæddist á Sílalæk í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu 24.10. 1869. Foreldrar hans voru Friðjón Jónsson, bóndi á Sílalæk og á Sandi, og k.h., Sigurbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja, af Sílalækjarætt.

Meðal systkina Guðmundar má nefna Sigurjón, skáld, alþingismann og oddvita á Litlu-Laugum, föður Halldóru skólastjóra, móður Kristínar Halldórsdóttur, fyrrv. alþingiskonu, og Halldórs, yfirlæknis á Kristnesi, og föður Arnórs skólastjóra, Braga, fyrrv. alþingismanns og ráðherra; Unnar, móður Inga Tryggvasonar, fyrrv. formanns Stéttarsambands bænda; Erling alþingismann og Áslaugu, móður Karls Ísfelds rithöfundar.

Eiginkona Guðmundar frá Sandi var Guðrún Lilja Oddsdóttir en meðal barna þeirra voru Heiðrekur Guðmundsson, skáld og verslunarmaður á Akureyri, Bjartmar, skáld og alþingismaður og hreppstjóri á Sandi, og Þóroddur, rithöfundur og fyrrv. skólastjóri.

Guðmundur var í Möðruvallaskóla 1891-93. Hann gerðist umsvifamikill rithöfundur með bústörfnum, tók þátt í umræðum og deilum um ýmis hitamál síns tíma með blaða- og tímaritsgreinum og fór gjarnan í fyrirlestraferðir um ýmis þjóðmál og hugsjónir.

Fyrsta kvæðabók Guðmundar, Úr heimahögum, kom út árið 1902 en hann hafði áður birt smásögur, ljóð og sagnaþætti í Eimreiðinni. Hann ritaði smáþætti og sögur og orti kvæði í ýmis tímarit. Safn af dýrasögum eftir hann kom út 1924, Undir beru lofti, og aðra bók með dýrasögum, Úti á víðavangi, sendi hann frá sér 1938.

Ólöf í Ási er eina skáldsaga hans sem kom út 1907. Hún vakti nokkrar deilur og þótti jafnvel ósiðleg. En hann var óneitanlega í hópi þekktari skálda á sinni tíð, virtur menningarfrömuður á meðal Þingeyinga og umdeildur fyrir skoðanir sínar og beinskeyttan ritstíl og framsögn.

Guðmundur lést 26.6. 1944.