[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is „Ég elska Ísland,“ segir Austin Mitchell, fyrrverandi þingmaður Grimsby-kjördæmis á breska þinginu, þegar blaðamaður brýtur ísinn með hinni víðfrægu spurningu um hvernig honum líki landið.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

„Ég elska Ísland,“ segir Austin Mitchell, fyrrverandi þingmaður Grimsby-kjördæmis á breska þinginu, þegar blaðamaður brýtur ísinn með hinni víðfrægu spurningu um hvernig honum líki landið.

Mitchell tók við fálkaorðunni á Bessastöðum á fimmtudaginn var, fyrir störf sín í þágu bættra samskipta Bretlands og Íslands.

Mitchell, sem lét af þingmennsku á þessu ári eftir 38 ára samfleytta setu, stýrði meðal annars á sínum tíma sérstakri nefnd breska þingsins sem sá um samskipti ríkjanna.

Mitchell segist eiga góðar minningar frá landinu, en hann kom hingað fyrst árið 1971, í miðju þorskastríði, sem fréttamaður. „Síðan kom ég árið 1972, þá sem fréttamaður á BBC , en stofnunin hafði fengið þá hugmynd að láta sex togaraskipstjóra frá Bretlandi ræða við sex kollega sína frá Íslandi. Þetta reyndist vera mjög leiðinlegur þáttur, því enginn skildi neitt hvað fór fram!“ segir Mitchell brosandi. Síðan þá hafa hann og kona hans, Linda McDougall, margoft heimsótt land og þjóð.

Íslendingum óskað dauða

Mitchell segir það hafa verið forvitnilega reynslu fyrir sig sem þingmann Grimsby að tala fyrir bættum samskiptum við Ísland á árunum eftir þorskastríðin. „Þegar ég var fyrst kjörinn mátti lesa krot á veggjum, þar sem kallað var eftir „dauða íslensku bastarðanna!“ segir Mitchell. Margir hafi kennt Íslandi og niðurstöðu þorskastríðanna um atvinnuleysi á staðnum.

Hann rifjar upp að fyrsta verkefni sitt sem þingmanns í apríl 1977 hafi verið það að hitta Einar Ágústsson, þáverandi utanríkisráðherra, til þess að reyna að leysa úr löndunarbanni á íslenskan fisk, sem sett hafði verið á í Grimsby. „Það var fremur heimskulegt, nánast eins og að „skera af nefið til þess að angra andlitið“, segir Mitchell, og vísar í þekkt enskt orðatiltæki. Viðræður þeirra hafi leitt til þess að hægt var að greiða úr deilunni.

„Síðan þá hafa samskiptin batnað stöðugt, enda þurfum við í raun á hvort öðru að halda. Ísland þarfnast markaðarins og aðgangsins að Grimsby og Grimsby þarfnast fisksins. Bretland þarf náin tengsl við Ísland,“ segir Mitchell.

En sástu fyrir þér árið 1971 að þú myndir á endanum fá þann æðsta heiður sem íslenska þjóðin getur veitt? „Nei, það gerði ég ekki!“ segir Mitchell og hlær. „Þetta er mér mikill heiður, og kom mér mjög á óvart. Ég allavega sinnti þessu starfi ekki með það í huga að ég yrði heiðraður fyrir það, heldur vegna þess að þetta var verk sem þurfti að vinna, sérstaklega fyrir fólkið í Grimsby.“

Hryðjuverkalöggjöfin brjálæði

Talið berst að samskiptum Íslands og Bretlands og því bakslagi sem kom í þau haustið 2008. „Mér fannst þetta svo brjálæðislegt. Að nota löggjöf sem ætluð var til þess að stöðva peningaþvætti hryðjuverkasamtaka var ófyrirgefanlegt. Þegar ég hringdi í Darling og sagði honum að þetta væri heimskulegt sagði hann að þetta hefði verið eina löggjöfin sem var til sem hægt var að nota með svo skömmum fyrirvara. Hann hafði ekki gert nein ráð fyrir þeim illvilja sem myndi fylgja þeirri ráðstöfun, enda búið að brennimerkja Íslendinga sem hryðjuverkamenn,“ segir Mitchell.

Hann rifjar upp að hann hafi fengið sendan til sín lista með undirskriftum frá Íslandi. „Þar höfðu nánast allir á Íslandi mótmælt og sett niður tölvupóstföngin. Ég lagði það til þegar ég skilaði listanum til ríkisstjórnarinnar að hún gæti notað listann til þess að senda tölvupóst á öll póstföngin þar sem beðist væri afsökunar á þessu háttalagi, en því miður féllust þeir ekki á þá hugmynd,“ segir Mitchell og hlær við.

Glapræði að ganga í ESB

Mitchell er í hópi þeirra sem hafa verulegar efasemdir um veru Bretlands í Evrópusambandinu. Hann segist hafa varað Íslendinga við inngöngu, og eitt sinn haldið erindi um ástæðu þess, sem sé einföld. „Landið reiðir sig á fisk. Eina leiðin til þess að tryggja sjálfbærar veiðar er ef þjóðríkið ræður sinni eigin efnahagslögsögu.“ Mitchell segir að það yrði feigðarflan fyrir Íslendinga að gengju í ESB nema hægt yrði að tryggja undanþágu frá hinni sameiginlegu sjávarútvegsstefnu sambandsins. „Stefnan byggist á nýtingu á sameiginlegri auðlind, en fiskimiðin eiga ekki að vera það, þau eiga að vera ykkar eign. Nema þið fáið undanþágu, segjum í þúsund ár,“ bætir Mitchell við hlæjandi. „Þá mætti íhuga það.“

Hann segir að fiskveiðistefna ESB hafi stórskaðað breskan sjávarútveg. „Það hefði verið rökrétt eftir að Íslendingar lokuðu miðunum fyrir breskum skipum að Bretar gerðu hið sama við sín eigin fiskimið, því þau eru gjöful. En það var ekki hægt vegna sjávarútvegsstefnunnar.“

Kenndi sig við ýsu

Mitchell upplifði ýmislegt á þingmannsferlinum og árið 2002 skipti hann meira að segja um eftirnafn, og tók upp nafnið Haddock, sem þýðir ýsa á íslensku. „Þetta var kynningarátak fyrir breskan sjávarútveg, þar sem nokkrir þingmenn hugðust breyta nafninu sínu í uppáhaldsfiskinn sinn, eða þann fisk sem helst væri veiddur í kjördæminu,“ segir Mitchell. Hann bætir raunar við að hann hefði frekar viljað kenna sig við stórlúðuna (e. Halibut) en ekki fengið. „Svo þegar til kastanna kom var ég sá eini af þingmönnunum sem lét til skarar skríða!“ Hann gekkst þó við ýsunafninu, allt þangað til ritarar bresku þingtíðindanna Hansard spurðu hann hvort hann vildi vera nefndur Mr. Haddock þar. „Þá var komið gott!“