Í seinna stríði lærði drottningin bifvélavirkjun og ók bílum fyrir herinn.
Í seinna stríði lærði drottningin bifvélavirkjun og ók bílum fyrir herinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir skemmstu var því fagnað að Elísabet II. Englandsdrottning náði þeim áfanga að verða sá meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar sem lengst hefur setið á valastóli.
Fyrir skemmstu var því fagnað að Elísabet II. Englandsdrottning náði þeim áfanga að verða sá meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar sem lengst hefur setið á valastóli. Af því tilefni er upplagt að taka hús á drottningunni sem, þegar að er gáð, er með lúmskan bílaáhuga.

Eins og lesendur geta sér eflaust til um þá þarf kóngafólk yfirleitt ekki að setjast á bak við stýri. Heilt teymi einkabílstjóra er í viðbragðsstöðu á öllum tímum sólarhringsins til að skutla drottningu, og helst ekki farið á milli staða án lögreglufylgdar sem tryggir að spana má hratt og örugglega í gegnum þunga umferð Lundúnaborgar. Þrátt fyrir að standa þessi þjónusta til boða á Elísabet það til að setjast í ökumannssætið endrum og sinnum, að því er virðist bara ánægjunnar vegna.

Hefur drottningin það fyrir sið þegar hún gistir í Windsor-kastala að aka sjálf til messu í grænum Jagúar-skutbíl, með lífvörð í farþegasætinu. Er ekki langt síðan það rataði í fréttirnar að Elísabet þurfti að sveigja út af veginum á hallarlóðinni og upp á vandlega snyrtar grasflatirnar við kastalann því að par með barnavagn vappaði þar um í mestu makindum, og veitti því enga athygli að sjálfur þjóðhöfðinginn þurfti að nota veginn.

Liðtæk í viðgerðum

Ef Jagúarinn skyldi bila þá yrði sennilega meira gagn í drottningunni en lífverðinum því á stríðsárunum hlaut hún þjálfun sem bifvélavirki og lærði að aka herflutningabílum. Segir sagan að á þeim tíma hafi Elísabetu þótt fátt skemmtilegra en að óhreinka hendurnar á bílvél.

Elísabet hefur haldið tryggð við bresku bílamerkin og á einum stað er því haldið fram að hún hafi jafnvel átt fleiri Land Rover jeppa en corgi-hunda. Telst sérfræðingum til að alls hafi drottningin átt 30 bíla frá Land Rover í gegnum tíðina, enda hentugir bílar til að aka um stórar landareignir á fasanaveiðum. Drottningin eignaðist einn Land Rover til viðbótar í sumar, sérsmíðaðan og þann eina sinnar tegundar. Bíllinn heitir einfaldlega Range Rover State Review, er með blendings-dísilvél og dökkvínrauður á lit. Má opna þakið og getur drottningin staðið þar upprétt, haldið fast í handfang og veifað til almennings.

Konunglegir Bentleyar

Aðalbíll drottningar er hins vegar frá Bentley kominn og var afhentur árið 2002. Voru framleiddir tveir bílar af gerðinni Bentley State Limousine, í hinum hefðbundna vínrauða lit, og byggjast á Bentley Arnage í grunninn, en eru þó lengri, breiðari og hærri. Umhverfis aftursætin eru þak og hliðar þakin gleri svo að vel sést bæði inn og út úr bílnum og undir húddinu er 400 ha vél sem skilar 835 Nm togi. Minni má krafturinn varla vera enda bifreiðin eflaust níðþung, brynvarin í hólf og gólf. Skrautgripir voru sérsmíðaðir á húddið fyrir drottningu. Annar þeirra sýnir heilagan Georg vega drekann, en hinn er af ljóni sem stendur upp á afturlappirnar.

Í konunglega bílaflotanum má líka, samkvæmt heimasíðu krúnunnar, finna þrjá Rolls-Royce-bíla, þrjá Daimlera og nokkrar Volkswagen-bifreiðar. Elsti bíll drottingar er Rolls-Royce Phantom IV sem smíðaður var árið 1950. Þrátt fyrir að vera orðinn rúmlega aldargamall er bíllinn enn í góðu ástandi og notaður reglulega, og meðal annars hefð að drottningin fari á gamla Rollsinum á Ascot-veðreiðarnar. ai@mbl.is