Eyþór Örn Baldursson og Jón Sigurður Gunnarsson náðu sér illa á strik sem síðustu fulltrúar Íslands á heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum í Glasgow í gær.
Eyþór Örn Baldursson og Jón Sigurður Gunnarsson náðu sér illa á strik sem síðustu fulltrúar Íslands á heimsmeistaramótinu í áhaldafimleikum í Glasgow í gær. Jón Sigurður hlaut samtals 67,263 í einkunn í fjölþrautinni en Eyþór Örn 65,232, og höfnuðu þeir báðir á meðal neðstu manna.

„Konungur“ fimleikanna, Japaninn Kohei Uchimura, fór með bestu einkunn inn í úrslitin eins og búast mátti við, eða 90,564 stig. Uchimura er ríkjandi Ólympíu- og heimsmeistari og hefur fyrir löngu skráð sig í sögubækurnar, meðal annars sem sá eini sem orðið hefur fimm sinnum heimsmeistari í fjölþraut. Uchimura sýndi reyndar að hann er mannlegur, þegar hann lenti illa í gólfæfingum. Hann er staðráðinn í að vinna sinn sjötta heimsmeistaratitil í fjölþrautinni á föstudagskvöld, en í forgangi er að skáka Kínverjum og fagna sigri í liðakeppninni.

Nú hefjast úrslit á HM en íslenska landsliðið hefur lokið keppni á mótinu. Ísland átti þrjá fulltrúa í keppni kvenna þar sem Irina Sazonova náði bestum árangri, eða 98. sæti, og tryggði Íslandi sæti í sérstakri undankeppni Ólympíuleika í fyrsta sinn. sindris@mbl.is