Ný útfærsla Hyundai Santa Fe er nánast óbreytt að utan en með betri efnisnotkun er hann nú öruggari og ætti að fá betri útkomu í árekstrarprófunum EuroNCAP.
Ný útfærsla Hyundai Santa Fe er nánast óbreytt að utan en með betri efnisnotkun er hann nú öruggari og ætti að fá betri útkomu í árekstrarprófunum EuroNCAP. — Morgunblaðið/Tryggvi Þormóðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hyundai valdi heimalandið til að frumsýna andlitslyftingu Santa Fe-jepplingsins nýlega.

Hyundai valdi heimalandið til að frumsýna andlitslyftingu Santa Fe-jepplingsins nýlega. Helstu breytingarnar eru ekki sýnilegar utan frá en hann hefur nú fengið hágæða styrktarstál í bæði grind og ytra byrði til að bæta útkomu hans í árekstrarprófunum meðal annars. Einnig er öðrum öryggisþáttum gert hátt undir höfði; sjálfvirk neyðarhemlun, akreinavari með blindhornsnema og sjálfvirkur hraðastillir. Loks er komin fullkomin bakkmyndavél með möguleika á 360° myndavél sem valbúnað.

Gefur tilfinningu fyrir lúxus

Í grunnútfærslu sinni er Santa Fe ágætlega útbúinn og í Comfort útgáfunni sem flestir miða við er hann enn betur búinn. Blaðamaður hafði Premium-útfærsluna til prófunar sem er hlaðinn búnaði eins og rafdrifnum sætum með minni, leggur sjálfur í stæði og panorama sólþaki. Þá er hann einnig með átta tomma upplýsingjaskjá með leiðsögukerfi sem einhverra hluta vegna var þó ekki búið að virkja í prófunarbílnum. Ekki væsir um ökumann og farþega í upphituðum sætum í báðum röðum og framsæti eru einnig loftkæld. Plássið er alls staðar gott og einnig í farangursrými. Efnisvalið er einnig gott og þá sérstaklega í Premium-útfærslu sem gefur manni talsverða tilfinningu fyrir lúxus. Það er hins vegar tvennt sem hefði mátt hugsa betur að mati undirritaðs í innréttingu bílsins. Fyrir það fyrsta eru takkar fyrir akstursstillingar eins og spólvörn, akreinarvara, læsingu og fleira þannig staðsettir vinstra megin við stýri að þeir eru alveg í hvarfi. Þegar úr mörgum tökkum er að velja þarf því að taka athygli af akstrinum til að finna rétta takkann. Eins er það dálítið undarleg ráðstöfun að sjá ekki valið hitastig á upplýsingaskjá nema þegar verið er að stilla það, en þegar því er lokið detta tölurnar út án sjáanlegrar ástæðu. Þetta er nú einu sinni kallað upplýsingaskjár.

Togmikil dísilvél

Dísilbíllinn er meira en 100 kílóum þyngri en bensínbíllinn og það finnst aðeins í akstri. Hann er þó ekki þannig að hann virki of þungur að framan og þar af leiðandi undirstýrður en þyngdin háir honum aðeins í akstri og hann virkar aðeins stífur þegar reynt er á fjöðrunina. Annars er Santa Fe hörkuakstursbíll og dísilvélin þokkalega öflug. Hún virðist ekki finna mun þótt bíllinn sé fulllestaður og gefur einnig gott tog á lægri snúningi. Að vísu er hún frekar hávær þegar komið er ofarlega á snúningssviðið. Sjálfskiptingin er sex þrepa og er fljót að skipta bílnum en óhætt er að segja að eitt eða tvö þrep í viðbót hefðu hentað þessari vél betur. Santa Fe hefur einnig öflugar bremsur enda veitir ekki af til að stoppa þennan sem vegið getur 2,5 tonn með farþegum og öllu þeirra hafurtaski. Veghljóð í akstri er nokkurt en taka þarf til greina að Premium-útfærslan kemur á 19 tomma álfelgum.

Talsvert ódýrari en samkeppnisbíllinn

Grunnverð á nýjum Hyundai Santa Fe er 7.190.000 kr., sjálfskiptum í Classic útfærslu. Aðalsamkeppnin hér á landi við Santa Fe er án efa í nýjum Kia Sorento en þegar grunnútfærslur þeirra eru skoðaðar má sjá að búnaðarlisti þeirra er nánast sá sami með örfáum undantekningum. Grunnverð Kia Sorento Classic með samskonar vél og sjálfskiptingu er hálfri milljón hærra og það er dálítið mikill munur til að fá aðeins bakkskynjara í kaupbæti. Sami munur er á Premium-útfærslum en þar er búnaðarlistinn hér um bil eins enda eru þessir bílar reyndar náskyldir. Annar hugsanlegur keppinautur væri til dæmis Ford Explorer vegna möguleika á þriðju sætaröðinni en grunnverð hans er 10.290.000 kr. sem er talsvert frá verði kóresku keppinautanna.

njall@mbl.is