Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir
Sigríður Ingibjörg Stefánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sigríði Ingibjörgu Stefánsdóttur, Silju Sveinþórsdóttur og Þórdísi Þöll Þráinsdóttur: "Iðjuþjálfar eru stór hluti af endurhæfingarferli einstaklings."
Það kom Kristjáni Guðmundssyni á óvart hversu gagnleg iðjuþjálfun var honum í bataferli sínu eftir slys.

Kristján var rétt rúmlega tvítugur þegar hann varð fyrir alvarlegu vinnuslysi við löndun úr togara í Dalvíkurhöfn. Í kjölfar slyssins beið hans löng og ströng endurhæfing. Iðjuþjálfun var hluti af hans endurhæfingu. Höfundar höfðu samband við Kristján og báðu hann að lýsa upplifun sinni af iðjuþjálfuninni.

Kristján var á Kristnesi sem er endurhæfingardeild sjúkrahússins á Akureyri í fjóra mánuði. Þar fór hann á hverjum degi í iðjuþjálfun.

„Upphaflega hélt ég að iðjuþjálfun myndi bara hjálpa mér að láta tímann líða. Svo kom í ljós að hún gerði svo miklu meira en það og hjálpaði mér heilmikið.“

Í iðjuþjálfun lærði Kristján að nota ýmis hjálpartæki sem gerðu honum kleift að sinna daglegum athöfnum. Auk þess að læra nýjar aðferðir við framkvæmd athafna sem nýttust honum meðan á bataferlinu stóð.

„Sokkaífæra er hlutur sem flestir á mínum aldri vita yfir höfuð ekkert hvað er. Hvað þá hafa brúkað. Þetta hjálpartæki er snilld og hjálpaði mér mikið eins og svo mörg önnur.“

„Iðjuþjálfun hjálpaði mér við að bjarga mér sjálfur á einn eða annan hátt og gerði það að verkum að ég komst heim á tilsettum tíma. Því má með sanni segja að iðjuþjálfun sé einn af mikilvægari hlutum í mínu bataferli. Stórt hrós frá mér, iðjuþjálfar!“

Hinn 27. október er Alþjóðadagur iðjuþjálfunar. Dagurinn er haldinn árlega til að vekja athygli á faginu og þróun þess. Iðjuþjálfar starfa á ýmsum stöðum í samfélaginu okkar. Þeir eru til dæmis stór hluti af endurhæfingarferli einstaklings. Iðjuþjálfi fylgir einstaklingnum frá upphafi innlagnar og í gegnum allt ferlið þar til kemur að útskrift. Eftir útskrift veitir iðjuþjálfi einnig eftirfylgd þegar þörf er á.

Iðjuþjálfar vinna alla jafna eftir skjólstæðingsmiðaðri nálgun, sama á hvaða vettvangi það er. Nálgunin gengur út á að virkja skjólstæðinginn til þess að taka þátt í bataferli sínu upp að því marki sem hann sjálfur kýs. Öll erum við iðjuverur og höfum þörf fyrir að framkvæma og taka þátt í iðju. Virkni við iðju ýtir undir heilbrigði og vellíðan. Hún örvar okkur líkamlega, andlega og félagslega. Einstaklingur notar iðju til þess að tjá þarfir sínar og upplifa ánægju. Þannig nær hann árangri í þeim athöfnum sem skiptir hann máli.

Þjónusta iðjuþjálfa í endurhæfingu gengur út á að meta og leysa þann iðjuvanda sem skjólstæðingurinn kann að hafa. Iðjuvandi getur verið margvíslegur. Allt frá daglegum athöfnum sem þykja sjálfsagðar yfir í flóknari athafnir. Iðjuvandi getur verið bæði af líkamlegum og andlegum toga. Iðjuþjálfar skoða hvort og þá hvernig skerðing einstaklings hamlar honum í að takast á við daglegt líf. Iðjuþjálfinn og skjólstæðingurinn hafa það sameiginlega markmið að takast á við vandann og finna lausnir hjá honum sjálfum og í umhverfi hans.

Höfundar eru 4. árs iðjuþjálfunarfræðinemar.