Björgun Viðskipta- og efnahagsráðherra heimsótti björgunarstöðina.
Björgun Viðskipta- og efnahagsráðherra heimsótti björgunarstöðina. — Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið
Líkurnar á því að íslenska alþjóðabjörgunarsveitin verði send til Afganistan eða Pakistan fara minnkandi eftir því sem tíminn líður, og í raun þykir það mjög ólíklegt að sveitin verði send til Afganistan jafnvel þótt neyðarkall berist frá afgönskum...
Líkurnar á því að íslenska alþjóðabjörgunarsveitin verði send til Afganistan eða Pakistan fara minnkandi eftir því sem tíminn líður, og í raun þykir það mjög ólíklegt að sveitin verði send til Afganistan jafnvel þótt neyðarkall berist frá afgönskum stjórnvöldum.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er venjan sú að alþjóðlegar björgunarsveitir fari ekki af stað nema formleg beiðni hafi borist frá stjórnvöldum þess lands er fyrir skaðanum varð. Ekkert slíkt kall hafði borist frá stjórnvöldum í löndunum tveimur þegar Morgunblaðið fór í prentun seint í gærkvöldi. Það staðfesti Ólöf Snæhólm Baldurdóttir, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Hún sagði íslensk yfirvöld hafa upplýst alþjóðabjörgunarsveitina um að hún yrði ekki send til Afganistan vegna ástands sem ríki í landinu. „Þetta byggir á mati Sameinuðu þjóðanna um að ekki þyki öruggt að vera í Afganistan,“ segir Ólöf en hún sagði að það kæmi þó til greina að sveitin yrði send til Pakistan.

Um miðjan gærdag var íslenska alþjóðabjörgunarsveitin komin í viðbragðsstöðu vegna jarðskjálftans, en viðbúnaðarstigið var lækkað niður í vöktun eftir því sem leið á kvöldið og ekkert kall hafði borist íslensku björgunarsveitinni eða öðrum alþjóðlegum björgunarsveitum undir hatti Sameinuðu þjóðanna.

Bjarni Benediktsson, viðskipta- og efnahagsráðherra, heimsótti björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð í gærdag þegar sveitin var í viðbragðsstöðu, en ríkisstjórnin samþykkti að sveitin yrði send út vegna atburðanna. ash@mbl.is