Ragnar Önundarson
Ragnar Önundarson
Eftir Ragnar Önundarson: "„Hvernig getum við metið banka á sama hátt og fyrirtæki í samkeppni í þessu ljósi? Á þjóðin að meta það hátt sem tekið er af henni sjálfri?“"
Á undanförnum vikum hefur verið unnið undir miklum þrýstingi að samkomulagi milli þrotabúa gömlu bankanna og Seðlabankans. Afnám gjaldeyrishafta er lokaáfangi fjárhagslegrar endurskipulagningar landsins eftir áfallið 2008. Stjórnvöld ættu að gera nákvæmlega grein fyrir málinu opinberlega, áður en til óafturkallanlegra skuldbindinga kemur, eins og heitið hefur verið. Þetta er risavaxið hagsmunamál almennings sem verður undir smásjá næst þegar kosið verður til Alþingis.

Risavaxið hagsmunamál

Gjaldeyrishöftin þarf að afnema að mestu. Ekki til að afla nýrra „jöklabréfa“ eins og nú er stefnan, heldur til að hleypa fé út úr landinu. Hagkerfið hefur rétt úr kútnum og sparifjármyndun er og þarf að haldast mikil. Hætt er við nýrri bólumyndun ef sívaxandi lífeyrissparnaður getur ekki leitað út fyrir landsteinana og þarf að ávaxtast eingöngu innanlands. Sú stærð þarf að vera sveigjanleg til að hjá nýju bóluástandi verði komist og líklega mun hærri en nú er gert ráð fyrir. Stöðugleikaskatturinn, sem Alþingi samþykkti með lögum, var kynntur þann 8. júní 2015. Í stað skattsins stendur slitabúum gömlu bankanna af einhverjum ástæðum til boða að greiða svonefnt stöðugleikaframlag, sem á að uppfylla svokölluð stöðugleikaskilyrði. Það á að vera jafngilt skattinum í þeim skilningi að það standi með sama hætti vörð um hagsmuni heimila og fyrirtækja. Stöðugleikaskatturinn, 39%, átti að skila 850 ma.kr. til ríkissjóðs, en þó skyldi unnt að fá afslátt til að lækka skattinn, sem þá yrði alls um 690 ma.kr., gegn bindingu erlends gjaldeyris í landinu, sem er þá lántaka í stað skatts. Seðlabankinn metur hins vegar stöðugleikaframlagið samkvæmt tillögum slitabúanna aðeins 334 ma.kr. Þetta vekur áleitna spurningu um hvernig slíkt framlag geti verið jafngilt áðurnefndum fjárhæðum.

Draumsýn eða veruleiki ?

Afnám gjaldeyrishafta gæti verið draumsýn sem ekki fær staðist, án enn meiri yfirtöku á gjaldeyriseignum en 690-850 ma.kr., kannski vel yfir 1.000 ma. Ástæðan er sú að bólukrónur sem geta ógnað greiðslujöfnuði er ekki einungis að finna í sjóðum þrotabúa föllnu bankanna heldur í djúpum vösum auðfíkla bólunnar og augljóslega í krónueignum lífeyrissjóðanna. Það er útilokað að einhverjir þeirra ráðgjafa sem komið hafa að málum hafi ekki séð þetta. Þeir gætu hafa lent í þeirri aðstöðu að þegja um staðreyndir sem ekki eiga upp á pallborðið. Ráðherrar hafa ítrekað sagt að skref til afnáms hafta séu á næsta leiti, en skrefin hafa látið á sér standa. Af máli forsætisráðherra á Alþingi nýlega, þegar hann svaraði fyrirspurnum um stöðu mála, sýndist mér stefna í átök við kröfuhafana, fyrst stöðugleikaframlög og stöðugleikaskattur eiga að vera jafngild. Hann tiltók og taldi upp eignir, því miður án talna, og sagði framlög frá slitabúum föllnu bankanna í beinhörðu fé verða aðeins hluta af þeim framlögum sem búin leggja fram og því ekki rétt að horfa eingöngu til þess. Einnig verði um að ræða afhendingu ýmissa eigna, framsal krafna, innlán, skilyrt skuldabréf og hlutdeild ríkisins í söluandvirði nýju bankanna. „Þannig að það er mjög villandi, og raunar bara rangt, að tala um stöðugleikaframlagið eins og það sé eingöngu þessi tiltekna peningaupphæð,“ sagði ráðherrann sem nefndi engar tölur og ræddi því miður ekki um gæði þessara eigna. Þar sem ætlunin er að taka alls konar eignir sem greiðslu þarf að gera nákvæmlega grein fyrir gæðum þeirra eigna. Jafnvel þarf að áskilja frekari greiðslur frá kröfuhöfum, reynist eignirnar minna virði þegar á reynir, og jafnvel halda eftir reiðufé því til tryggingar. Munum að allt sem getur farið úrskeiðis mun fara úrskeiðis.

Verðmæti fákeppnisbanka

Fjármálaráðherra var í viðtali á „Gömlu gufunni“ 21. október. Rætt var um nýjasta útspil slitastjórnar Glitnis, að afhenda ríkssjóði Íslandsbanka upp í stöðugleikaframlög. Fram kom að verðmæti Landsbankans og Íslandsbanka gæti verið um 400 milljarðar. Verðmæti fyrirtækja fer eftir hagnaði þeirra. Athuga ber í þessu sambandi að fákeppnisfyrirtæki skammta sér hagnaðinn úr hendi almennings. Hvernig getum við metið banka á sama hátt og fyrirtæki í samkeppni í þessu ljósi? Á þjóðin að meta það hátt sem tekið er af henni sjálfri?

Mun guð blessa Ísland?

Óveðursský hafa verið að hrannast upp á himni efnahagsmálanna að undanförnu. Enn þurfum við að standa í lappirnar, þó að bankakerfið sé ekki í húfi núna. Viðskiptajöfnuðurinn er að versna m.v. sama tíma í fyrra. Við höfum skert útflutningstekjur af makríl og leyft gengi krónunnar að styrkjast, sem rýrir viðskiptajöfnuðinn. Við höfum líka hækkað launin of mikið, einu sinni enn. Verðbólga og vísitala eru á uppleið og við blasir enn ein kollsteypan. Halda forystumenn ríkisstjórnarflokkanna að þessi þróun muni færa þeim traust kjósenda á ný? Uppi eru hugmyndir um að erlendu kröfuhafarnir fái gríðarlegar fjárhæðir frá þjóðinni umfram það sem 39% stöðugleikaskattur léti þeim eftir. Af hverju? Ekki hefur verið skýrt frá því. Við megum ekki gefa eftir þá stöðu sem Neyðarlögin færðu okkur. Við eigum ekki að láta sendimenn „hrægamma“ skelfa okkur til að skerða þá stöðu sem „íslenska leiðin“ skapaði. Ef til ágreiningsmála kemur verða þau afgreidd fyrir íslenskum dómstólum. Það er til nóg af bönkum í hinum stóra heimi og við munum bara afla okkur trausts og virðingar með einurð og stefnufestu. Hinn valkosturinn er að birtast umheiminum á ný sem algjörir vitleysingar í hagstjórn og fjármálum, sem ekki hafa lært neitt af sárri reynslu. Verður komist hjá því? Guð var beðinn að blessa Ísland fyrir sjö árum. Munum að hann hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir.

Höfundur er viðskiptafræðingur og fv. bankastjóri.