Gleði Dagný Brynjarsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og stöllur höfðu ærna ástæðu til þess að fagna í gær enda skoruðu þær sex mörk gegn Slóvenum.
Gleði Dagný Brynjarsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og stöllur höfðu ærna ástæðu til þess að fagna í gær enda skoruðu þær sex mörk gegn Slóvenum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Íslenska landsliðið í knattspyrnu kvenna stefnir hraðbyri að takmarki sínu að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu sumarið 2017.
Fótbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Íslenska landsliðið í knattspyrnu kvenna stefnir hraðbyri að takmarki sínu að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu sumarið 2017. Eftir stórsigur, 6:0, á Slóvenum ytra í gærkvöldi situr íslenska landsliðið á toppi síns riðils með fullt hús stiga eftir þrjá leiki og markatöluna 12:0. Allt hefur gengið upp til þess og sex stig úr tveimur erfiðum leikjum á síðustu dögum í ríkjum fyrrverandi Júgóslavíu var í samræmi við þær kröfur sem Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari og leikmenn gerðu til sín fyrir ferðina.

„Undirbúningurinn var góður og leikmenn fóru eftir því sem lagt var upp með. Þess vegna var sigurinn svo öruggur sem raun ber vitni,“ sagði Freyr glaður í bragði í samtali við Morgunblaðið í leikslok.

Íslenska liðið hóf leikinn með mikilli pressu. Greinilegt var að dagskipunin var að skora snemma. Liðið fékk nokkrar álitlegar sóknir áður en Dagný Brynjarsdóttir braut ísinn á 15. mínútu. Nokkru áður hafði slóvenska liðið þó átt góða sókn þar sem Guðbjörg Gunnarsdóttir markvörður þurfti í tvígang að taka þá honum stóra sínum til þess að bægja hættu frá marki sínu.

Harpa Þorsteinsdóttir tvöfaldaði forskot íslenska liðsins fimm mínútum eftir mark Dagnýjar.

Sex mínútum eftir mark Hörpu meiddist Hólmfríður Magnúsdóttir og varð að fara af leikvelli í sínum 100. landsleik en hún lagði upp fyrsta mark Íslands.

Íslenska liðið réð áfram lögum og lofum fram að hálfleik án þess þó að bæta við fleiri mörkum þrátt fyrir áskjósanleg færi.

Leikmenn slóvenska liðsins færðu sig upp á skaftið í byrjun síðari hálfleiks. Það var ekki síst hin góðkunna Mateja Zver sem olli usla í vörn íslenska liðsins. Kristina Erman var nærri því búin að minnka muninn í 1:2 á 51. mínútu eftir sendingu frá Zver. Segja má að Erman hafi verið klaufi að skora ekki þar sem hún var ein á markteigshorni en skot hennar fór rétt fram hjá marki Íslands.

Mark Hörpu á 65. mínútu létti mjög pressunni af íslenska liðinu og í framhaldinu komu tvö íslensk mörk til viðbótar á næstu 15 mínútum og þar með var alveg ljóst hvort liðið bæri sigur úr býtum.

Zver átti skot í stöng íslenska marksins á 85. mínútu en aðeins mínútu síðar bætti Dagný við sjötta marki Íslands. Harpa gat bætt við sjöunda markinu þremur mínútum síðar og sínu þriðja í leiknum en markvörður Slóvena varði spyrnu hennar. Yfirburðir íslenska liðsins voru algjörir í þessum leik.

„Þessi leikur var svipaður og við reiknuðum með. Við skoðuðum upptökur af leikjum Slóvena og vissum að við vorum mikið betri,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

„Við leystum þetta verkefni mjög vel, jafnt í vörn sem sókn og unnum stóran sigur. Mörkin hefðu getað orðið fleiri en það er nú svo að það fara alltaf einhver færi forgörðum í hverjum leik. En okkur tókst að laga markatöluna. Hún er góð eftir leikina þrjá,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir.

0:1 Dagný Brynjarsdóttir 15. fékk boltann frá Hólmfríði, lék framhjá varnarmanni og markverðinum og renndi boltanum í markið af stuttu færi.

0:2 Harpa Þorsteinsdóttir 20. stakk varnarmenn af eftir sendingu Margrétar og skoraði af öryggi framhjá markverðinum.

0:3 Harpa Þorsteinsdóttir 65. fékk boltann á frá Söndru Maríu ur innkasti, sneri af sér varnarmann og skoraði með föstu skoti með vinstri fæti.

0:4 Margrét Lára Viðarsdóttir 70. tók aukaspyrnu rétt utan teigs. Skot hennar fór í Mateja Zver og þaðan í markið.

0:5 Sandra María Jessen 80. skorar með skoti í stöng og inn með vinstri fæti frá vítateigslínu eftir sendingu Hörpu

0:6 Dagný Brynjarsdóttir 86. skoraði með föstu skoti úr miðjum vítaeignum eftir snarpa sókn og sendingu Gunnhildar.

Kos (Slóveníu) 30. (brot), Benak (Slóveníu) 69. (brot).

Slóvenía – Ísland0:6

Lendava, undankeppni EM, 1.riðill, mánudaginn 26. október 2015.

Skilyrði: Hægviðri, 15 gráðu hiti. Völlurinn laus í sér.

Skot: Slóvenía 7 (3) – Ísland 14 (10).

Horn: Slóvenía 2 – Ísland 2.

Slóvenía : (4-3-3) Mark : Sonja Cevnik. Vörn : Barbara Kralj (M.Sevsek 89.), Evelina Kos, Manja Benak, Kristina Erman. Miðja : Dominika Conc (L. Kos 74.), Anisa Rola, Mateja Zver. Sókn : Urska Zganec (K. Erzen 61.), Lara Prasnikar, Tjasa Tibaut.

Ísland : (4-3-3) Mark :Guðbjörg Gunnarsdóttir (Sandra Sigurðardóttir 77.). Vörn : Rakel Hönnudóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Anna Björk Kristjánsdóttir, Hallbera Guðný Gísladóttir. Miðja : Sara Björk Gunnarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir (Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 73.). Sókn : Fanndís Friðriksdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir (Sandra María Jessen 30.).

Dómari: Esther Azzopardi, Möltu.

Áhorfendur: Innan við 100.