Við Gullfoss Það var maður við mann á göngubrautinni við Gullfoss á sunnudaginn var.
Við Gullfoss Það var maður við mann á göngubrautinni við Gullfoss á sunnudaginn var.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Langar raðir mynduðust við Gullfoss og Geysi í fyrradag, síðasta sunnudag októbermánuðar. Samtals yfir 50 hópferðabifreiðar biðu á hlaðinu við Hótel Geysi og Gullfoss Kaffi og skipti fjöldi bílaleigubíla líklega hundruðum.
Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Langar raðir mynduðust við Gullfoss og Geysi í fyrradag, síðasta sunnudag októbermánuðar. Samtals yfir 50 hópferðabifreiðar biðu á hlaðinu við Hótel Geysi og Gullfoss Kaffi og skipti fjöldi bílaleigubíla líklega hundruðum. Ys og þys var á báðum stöðum og vakti athygli að veitingarýmið á Geysissvæðinu skyldi vera nær fullnýtt á þessum árstíma. Nýi veitingasalurinn á Geysi tekur 250 manns í sæti og er dag hvern hægt að afgreiða um þúsund matargesti þar, í söluskála og á veitingastað á Hótel Geysi.

Jón Harry Njarðarson, eigandi Hótels Gullfoss, segir aðsóknina að Gullfossi og Geysi hafa aukist mikið.

Gerbreyting á þremur árum

„Það hefur orðið gerbreyting á síðustu þremur árum. Það er orðin stanslaus umferð nánast alla daga ársins. Það er helst að umferðin sé lítil þegar Hellisheiðin lokast vegna ófærðar,“ segir Jón Harry og bendir á að umferðin í október sé orðin jafn mikil og í september fyrir nokkrum árum. Sumarið hafi lengst og haustið orðið að drjúgum tíma í gistingunni. Lokað er á hótelinu í mánuð frá og með miðjum desember.

Ný 20 herbergja álma verður opnuð á Hótel Gullfoss í janúar og verða þá alls 35 herbergi á hótelinu.

Skammt frá er unnið að stækkun Gullfoss Kaffis og er sú bygging sýnd á mynd hér efst til hægri.

Foreldrar Jóns Harrys í Brattholti hófu að bjóða upp á heimagistingu árið 1987. Sjö árum síðar, árið 1994, tók Jón Harry í notkun íbúðarhús sem hann byggði og leigði þar út nokkur gistirými. Reksturinn gekk vel og um aldamótin opnaði fjölskyldan Hótel Gullfoss.

Spurður um arðsemina af rekstrinum segir Jón Harry hana viðunandi. Gengið skipti miklu máli. „Það eru ýmsar hættur framundan. Það er ekkert fast í hendi í svona rekstri. Gengið er að breytast. Það er kannski helsti áhættuþátturinn. Krónan má ekki styrkjast meira. Þetta er mjög viðkvæmt. Það þyrfti að koma gengisfelling,“ segir hann.

Ragnar Jóhann Bogason, framkvæmdastjóri Hótels Selfoss, segir mun betri nýtingu á herbergjum en í fyrra. „Haustið er í raun miklu betra en í fyrra. Nýtingin hjá okkur í september er 69% en var 45% í fyrra. Við búumst við 50% nýtingu í október, nóvember og desember en nýtingin þessa mánuði var 35% í fyrra.“

Ný viðbygging Gullfoss Kaffis verður opnuð í nóvember. Ástdís Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri Gullfoss Kaffis, segir viðbygginguna fara undir verslun og veitingasal. Sætum í veitingasal muni fjölga um 200 í 600 til 700. Frekari framkvæmdir séu fyrirhugaðar á staðnum næsta vor og svo enn frekari stækkanir.

„Það má segja að við hlaupum ekki nógu hratt. Aðsóknin eykst stöðugt,“ segir Ástdís sem hefur ekki nákvæmar tölur um gestafjölda. Lauslega megi áætla að 70-80% erlendra ferðamanna á Íslandi skoði Gullfoss og Geysi, eða hér um bil milljón erlendir ferðamenn í ár.