TR Bent var á það í Tíund að greiðslur frá TR hefðu hækkað meira hlutfallslega að raunvirði en laun og tengd hlunnindi á undanförnum árum
TR Bent var á það í Tíund að greiðslur frá TR hefðu hækkað meira hlutfallslega að raunvirði en laun og tengd hlunnindi á undanförnum árum — Morgunblaðið/ÞÖK
Talsverður hluti hækkunar bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) skýrist af fjölgun greiðsluþega hjá TR. Þannig fengu um 20% fleiri greiðslu frá TR í desember 2014 en í desember 2010.
Talsverður hluti hækkunar bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) skýrist af fjölgun greiðsluþega hjá TR. Þannig fengu um 20% fleiri greiðslu frá TR í desember 2014 en í desember 2010. Þetta kemur fram í skýringum TR á hækkun bótagreiðslna sem fjallað er um í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra.

Í Tíund kemur fram að tryggingabætur hafi hækkað meira en laun á tilteknu tímabili. Efni greinarinnar var rakið í Morgunblaðinu 22. október sl.

TR segir að fjárhæðir bóta hafi hækkað á árunum 2011-2014 auk þess sem frítekjumark atvinnutekna og lífeyrissjóðstekna ellilífeyrisþega hafi einnig hækkað. Það hafi leitt af sér auknar greiðslur frá TR og fjölgun í hópi lífeyrisþega sem fengu greiðslu frá TR.

„Í janúar 2014 lækkaði skerðingarhlutfall tekjutryggingar úr 45% í 38,35% og því fylgdi afleidd lækkun á skerðingarhlutfalli heimilisuppbótar, þetta hækkaði greiðslur TR talsvert á árinu 2014.

Annað dæmi um áhrif af breytingu er að lífeyrissjóðstekjur hættu að skerða grunnlífeyri í júlí 2013, slík skerðing var sett á 2009. Það leiddi bæði til aukinna greiðslna frá TR og fjölgunar lífeyrisþega.“

TR bendir á að tekjur utan TR, t.d. fjármagnstekjur og atvinnutekjur ellilífeyrisþega, hafi almennt lækkað frá 2010 til 2014. Það leiði almennt af sér hækkandi greiðslur frá TR og líka að einhverju leyti til fjölgunar í hópi greiðsluþega.

„Víxlverkunarsamkomulag á milli lífeyrissjóða og ríkisins tengt lífeyrissjóðstekjum öryrkja hefur einnig aukið greiðslur frá TR. Á árinu 2011 voru samþykktar reglur varðandi gagnkvæma víxlverkun bóta sem eru til hagsbóta fyrir örorkulífeyrisþega og kemur hluti Tryggingastofnunar til framkvæmda í uppgjöri. Samkomulagið felur í sér að almennar vísitöluhækkanir hafi ekki áhrif á útreikning bóta hjá örorkulífeyrisþegum og er miðað við vísitölu eins og hún var í janúar 2011. Samkomulagið gildir fyrir árin 2011, 2012 og 2013,“ segir í skýringum TR.

„Vegna þessa samkomulags breytist vægi lífeyrissjóðstekna gagnvart grunnlífeyri og fríktekjumark lífeyrissjóðstekna hækkar gagnvart tekjutryggingu og heimilisuppbót.“

TR bendir á að á árinu 2010 hafi fjárhæðir bóta frá TR verið óbreyttar frá fyrra ári, þar af leiðandi hækkuðu fjárhæðir bóta talsvert mikið á árinu 2011. „Þannig að miðað við árið 2010 þá lítur út fyrir að bætur lífeyrisþega hafi hækkað mikið frá 2010 til 2014, en ef Tíund hefði miðað við hækkun frá 2011 til 2014 þá hefði hækkunin ekki verið eins mikil og að miklu leyti vegna fjölgunar á greiðsluþegum m.a. vegna þess að lífeyrissjóðstekjur skerða ekki lengur grunnlífeyri,“ segir í skýringum TR.

Að lokum getur TR þess að mannfjöldi á aldrinum 18 ára og eldri hafi aukist um um það bil 4% frá árinu 2010 miðað við mannfjöldagögn frá Hagstofunni. Það skýri líka hluta af aukningu í fjölda lífeyrisþega á tímabilinu. gudni@mbl.is