Lostæti Beikon og aðrar afurðir svína eru vinsæll matur.
Lostæti Beikon og aðrar afurðir svína eru vinsæll matur.
Kristján Jónsson kjon@mbl.
Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Fólk hefur oft verið varað við því að borða of mikið af kjöti og nú hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO tekið af skarið í nýrri skýrslu: unnar kjötvörur eins og beikon, pylsur og flesk eru öflugir krabbameinsvaldar eins og sígarettur, abest og arsenik. En hættustigið er mismunandi, tekið er fram að beikonsamloka sé ekki jafn hættuleg og sígaretta. Einna mest er hættan á að unna kjötið valdi krabbameini í meltingarfærunum, þ.ám. ristlinum.

Unnið kjöt er kjötvara sem hefur verið breytt til þess að auka geymsluþol eða breyta bragðinu, með því að reykja það, salta eða bæta við rotvarnaefnum. Hugsanlegt er að það sé þessi viðbót sem valdi krabbameinshættunni. Einnig geta orðið til krabbameinsvaldandi efnasambönd þegar kjöt er grillað.

Ekki eru allir sáttir við niðurstöðuna, kjötframleiðendur eru margir fokvondir, að sögn Guardian. Og fleiri fordæma skýrsluna, segja að í henni séu miklar oftúlkanir. Robert Pickard, fyrrverandi prófessor, sem á sæti í opinberri nefnd um kjötneyslu, segir að eftir sem áður sé mikilvægast að verjast krabbameini með því að hætta að reykja, forðast offitu og drekka í hófi. Skýrslan er gefin út af IARC, deild WHO sem fjallar um krabbamein. Þar segir einnig að sterkar vísbendingar séu um óhollustu rauðs kjöts. Það geti „sennilega valdið krabbameini í fólki“.

50 grömm á dag varasöm?

En tekið er fram að rautt kjöt sé einnig hollur matur sé þess neytt í hófi. Að sögn BBC vill Krabbameinsfélag Bretlands því ráðleggja fólki að draga úr neyslu á kjöti fremur en að hætta alveg að neyta þess. Sérfræðingar IARC segja að neyti fólk 50 gramma af unnu kjöti (t.d. tveggja beikonsneiða) á dag auki það hættuna á ristilkrabba um 18%. „Fyrir einstakling er hættan á að fá ristilkrabba með því að borða unnið kjöt eftir sem áður lítil en áhættan eykst í takti við aukið magn af kjötinu,“ segir dr. Kurt Straif, yfirmaður hjá IARC.