Guðbjörg Gunnarsdóttir
Guðbjörg Gunnarsdóttir
Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu og liðsmaður norska meistaraliðsins Lilleström, rifbeinsbrotnaði í viðureign Slóveníu og Íslands í undankeppni EM í gær.
Guðbjörg Gunnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu og liðsmaður norska meistaraliðsins Lilleström, rifbeinsbrotnaði í viðureign Slóveníu og Íslands í undankeppni EM í gær. Hætt er við að Guðbjörg verði frá keppni um tíma af þessum sökum og gæti orðið af þremur stórum leikjum sem framundan eru hjá Lilleström.

Lilleström mætir þýska liðinu Frankfurt í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu 11. nóvember og aftur viku síðar. Þá leikur Lilleström til úrslita um norska bikarinn 21. nóvember gegn Avaldsnes.

Guðbjörg fór til skoðunar á sjúkrahúsi í Lendava í gærkvöldi. „Við vildum vera viss um að ekki hafi orðið innvortis blæðingar við höggið. Það verður allt að vera á hreinu áður en við höldum áfram ferð okkar heim,“ sagði Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari við Morgunblaðið en hann taldi víst að Guðbjörg væri brotin. iben@mbl.is