Bréfskák Daði Örn Jónsson notar tæknina, sendir leikina á netinu og er nýr Evrópumeistari í bréfskák.
Bréfskák Daði Örn Jónsson notar tæknina, sendir leikina á netinu og er nýr Evrópumeistari í bréfskák. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Daði Örn Jónsson tryggði sér um helgina sigur á Evrópumeistaramóti einstaklinga í bréfskák. Þetta er besti árangur íslensks bréfskákmanns og jafnframt einn besti árangur sem íslenskur skákmaður hefur náð.
Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Daði Örn Jónsson tryggði sér um helgina sigur á Evrópumeistaramóti einstaklinga í bréfskák. Þetta er besti árangur íslensks bréfskákmanns og jafnframt einn besti árangur sem íslenskur skákmaður hefur náð. Mótið hefur staðið yfir í tæp tvö ár og því er ekki lokið en titillinn veitir Daða þátttökurétt í svokölluðu kandídatamóti heimsmeistarakeppninnar, sem er þegar hafið, og tveir efstu í því móti fara á sjálft heimsmeistaramótið.

„Lengsta skákin hjá mér tók um eitt og hálft ár,“ segir Daði, en menn hafa 50 daga fyrir hverja 10 leiki. „Þetta getur tekið langan tíma,“ segir Daði, sem lauk keppni í byrjun júní og fékk 10,5 vinninga af 16 mögulegum, vann fimm skákir og gerði 11 jafntefli. Tveir skákmenn eru með 9,5 vinninga og hafa þeir einnig lokið keppni. Daði segir að til þess að sigra megi menn helst ekki tapa skák, en þrír efstu á mótinu eru taplausir.

Daði var fjórði stigahæsti maður mótsins með 2.519 Eló-stig. Hann segir að út frá því hafi sigurinn komið á óvart. „Það eru þarna mjög öflugir menn og þar á meðal Spánverji, sem varð Evrópumeistari á tveimur undangengnum mótum, en hann og rússneskur skákmaður gerðu jafntefli um helgina og þar með geta þeir ekki náð mér.“

Bréfskák hentar vel

Bréfskák nýtur töluverðra vinsælda, en Daði byrjaði ekki að tefla hana fyrr en 2013 eftir að hafa verið skákáhugamaður um árabil. Hann segir að bréfskák hafi hentað sér betur, því auðveldara sé að stunda hana með vinnu. Menn geti tekið sér þann tíma sem best henti, leikið þegar þeir vilja, farið í frí á milli leikja og svo framvegis. Samskiptin séu mjög örugg og öll deilumál í bréfskák hafi horfið með tölvuvæðingunni.

„Skák er skemmtileg, hvort sem um er að ræða hefðbundna skák eða bréfskák,“ segir Daði. Hann bendir á að þetta séu mjög ólík form og ekki sé víst að góður bréfskákmaður sé góður í hefðbundinni skák og öfugt, þó meiri líkur séu á því að sterkur skákmaður verði góður bréfskákmaður. „Bréfskákin líkist meira skákrannsóknum og menn hafa tíma til þess að liggja yfir hverjum einasta leik. Slæmir afleikir eiga því að vera mjög sjaldgæfir, en eitt af því skemmtilega við venjulega skák er að þar getur eiginlega allt gerst. Þar geta mjög sterkir skákmenn leikið af sér og tapað fyrir veikari skákmönnum.“

Allar skákir byrja á sama tíma

Félag íslenskra bréfskákmanna var stofnað 1991. Á heimsíðu félagsins kemur fram að elstu óstaðfestu heimildir um bréfskák séu frá 9. öld. „Fyrstu staðfestu bréfskákirnar fóru fram árið 1804 þegar Þjóðverjinn Friedrich Wilhelm von Mauvillon atti kappi við ónefndan andstæðing í þremur skákum,“ segir þar og bent á að talið sé að Þorvaldur Jónsson (1837–1916), héraðslæknir á Ísafirði, hafi orðið fyrstur Íslendinga til að tefla bréfskák rétt fyrir aldamótin 1900.

Fram á níunda áratug liðinnar aldar voru leikir í bréfskák skrifaðir á póstkort eða sem bréf og sendir með pósti, en nú orðið er teflt í gegnum internetið. Í venjulegu skákmóti er fyrst tefld 1. umferð, síðan 2. umferð og svo framvegis, en í bréfskák fara allar skákir mótsins af stað á sama tíma. Þannig hófst Evrópumótið 15. desember 2013 og því lýkur fljótlega, en nú eru fimm skákir eftir.