Stopp Verkfall SFR setur stórt strik í reikninginn við þinglýsingu skjala.
Stopp Verkfall SFR setur stórt strik í reikninginn við þinglýsingu skjala. — Morgunblaðið/Júlíus
Laufey Rún Ketilsdóttir laufey@mbl.
Laufey Rún Ketilsdóttir

laufey@mbl.is

„Við getum ekki tekið við nýjum erindum nema fallist sé á að veita undanþágu,“ segir Þuríður Árnadóttir, skrifstofustjóri Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, en almenn undanþága er eingöngu fyrir móttöku dánarvottorða og leyfi til útfara og líkbrennslu. Ástæða þessa er verkfall SFR sem nú stendur yfir og er ótímabundið.

Engin ný vegabréf afgreidd

Skrifstofur sýslumannsins sem eru í Skógarhlíð eru lokaðar fyrir afgreiðslu og símsvörun meðan á verkfalli stendur.

Á meðal þeirrar þjónustu sem nú liggur niðri hjá sýslumanni er meðal annars þinglýsing skjala, útgáfa vegabréfa og atvinnu- og tækifærisleyfa. Almenn undanþága er þó fyrir útgáfu vegabréfa vegna læknisfræðilegra ástæðna eins og aðgerða erlendis, en öll önnur tilvik þarf að bera undir undanþágunefnd. Fáar beiðnir hafi þó borist til nefndarinnar. Aukning gæti þó orðið á undanþágubeiðnum þar sem öll vegabréf sem hafa verið framlengd verða ekki lengur gild ferðaskilríki 24. nóvember eins og fram kemur í tilkynningu frá Þjóðskrá.

Bílasamningar í stað bílalána

„Helstu áhrifin eru að það er ekki hægt að fara í kaupsamninga og því skapast vandamál við afhendingu eigna,“ segir Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, um áhrif verkfalls. Ekki sé hægt að þinglýsa skuldabréfum til að fá lán úr bankanum svo hægt sé að inna greiðsluna af hendi. „Við getum þó enn tekið á móti tilboðum í eignir.“

Hjá bílaumboðum er hægt að beina kaupendum nýrra bifreiða í þann farveg að gera bílasamning en honum þarf ekki að þinglýsa. „Þá er viðkomandi skráður sem umráðamaður og fjármálafyrirtækið eigandi. Svo er hægt að breyta þessu yfir í bílalán þegar deilan leysist með litlum tilkostnaði,“ segir Þorvarður B. Magnússon, gjaldkeri í nýjum bílum hjá BL ehf., og bætir við að viðbrögðin við þessari leið hjá bílakaupendum hafi verið góð.

Engin lán greidd úr bönkum

Hjá Arion banka bíður talsverður fjöldi lána þinglýsingar, bæði ný lán og skilmálabreytingar. „Eðli málsins samkvæmt getum við ekki greitt okkar viðskiptavinum út umrædd lán fyrr en búið er að þinglýsa og því kemur þetta illa við þá og auðvitað alla sem eru að reyna að ljúka viðskiptum sem kalla á þinglýsingu skjala,“ segir í upplýsingum frá Arion banka um stöðuna sem upp er komin.

Íslandsbanki tekur í sama streng og segir mikið safnast upp því ekkert lát sé á lántökum þó að verkfallið standi yfir. Staðan sé því bagaleg þar sem tímaramminn sé óþekktur.