Í Laugardalshöll Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi.
Í Laugardalshöll Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Það mun hafa áhrif á útkomu þingkosninganna vorið 2017 hvort Sjálfstæðisflokknum tekst að snúa við minnkandi fylgi hjá ungu fólki.
Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Það mun hafa áhrif á útkomu þingkosninganna vorið 2017 hvort Sjálfstæðisflokknum tekst að snúa við minnkandi fylgi hjá ungu fólki.

Þetta er mat Ólafs Þórs Gylfasonar, framkvæmdastjóra MMR, Markaðs- og miðlarannsókna.

„Þetta er augljós þróun. Það er í þessa átt sem sveiflan hefur verið. Unga fólkið hefur í stórum stíl verið að hverfa frá Sjálfstæðisflokknum og þá einkum og sér í lagi til Pírata. Samt eru Píratar líka að fá talsvert mikinn stuðning hjá elstu aldurshópunum. Það er aðeins Sjálfstæðisflokkurinn sem nýtur meira fylgis meðal 50 ára og eldri en Píratar,“ segir Ólafur Þór um stöðuna.

Samkvæmt könnun MMR frá miðjum þessum mánuði mælast Píratar nú með 46,3% fylgi meðal 18-29 ára kjósenda en Sjálfstæðisflokkur með 15,5% fylgi. Píratar mældust þá í heild með 34,1% fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn 21,6% fylgi.

Á hægri niðurleið

Samkvæmt íslensku kosningarannsókninni var fylgi Sjálfstæðisflokksins meðal 18-29 ára kjósenda 47% árið 1999, 30% árið 2003, 35% árið 2007 og 25% árið 2009. Eins og áður greinir mældist það um 16% í könnun MMR í október. Samkvæmt þessum gögnum hefur fylgi flokksins meðal yngstu kjósenda verið á hægri niðurleið í hálfan annan áratug. Má rifja upp að í byrjun þessa tímabils urðu Samfylkingin og Vinstri græn til og eftir kosningarnar 2009 klofnaði Borgarahreyfingin í Hreyfinguna og óháðan þingmann. Síðan vann Besti flokkurinn stórsigur í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjavík 2010 og árið 2013 buðu Píratar í fyrsta sinn fram í þingkosningum. Mörg smærri framboð hafa komið og farið. Á þessu tímabili hefur vígstaða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hans gamla vígi, veikst mikið.

Ólafur Þór bendir á að samkvæmt íslensku kosningarannsókninni hafi 27% kjósenda Sjálfstæðisflokksins verið yngri en 30 ára árið 1999, 23% árið 2003, 19% árið 2007 og 22% árið 2009. Til samanburðar hafi 19% kjósenda flokksins verið undir þrítugu samkvæmt könnun MMR í október sl., en fylgið í heild var þá um leið komið undir 22%.

Þessi þróun hefur ekki farið fram hjá öðrum stjórnmálahreyfingum og má nefna að í júníbyrjun kom fram á fundi Viðreisnar að hreyfingin ætlaði að sækja fylgi til ungs fólks.

Hægri sveiflan tók enda

Samkvæmt Hagstofunni voru 57.379 Íslendingar á aldrinum 18-29 ára í byrjun þessa árs og voru þeir 17,4% íbúafjöldans. Þetta er því fjölmennur og auðvitað ekki einsleitur hópur sem alhæfa má um.

Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, rifjar upp að á níunda áratug síðustu aldar hafi byrjað hægrisveifla meðal ungs fólks sem haldist hafi alveg fram að hruninu.

Stefanía segir aðspurð að erfitt sé að meta hvaða áhrif landsfundir Sjálfstæðisflokksins og VG muni hafa á fylgi flokkanna, þar með talið hjá yngstu kjósendunum.

Hún bendir á að fjölmiðlun hafi breyst mikið. Dagskrárvald sé ekki lengur í höndum fárra fjölmiðla. Vegna breyttrar notkunar á fjölmiðlum nái umfjöllun í sjónvarpi og dagblöðum um landsfundina ekki endilega til yngstu kjósendanna.

„Þetta er áskorun sem allir stjórnmálaflokkar sem vilja ná til ungs fólks eiga við. Umhverfið hefur breyst svo mikið. Það er erfitt að stjórna fjölmiðlunum. Þeir hafa færst á fleiri hendur,“ segir hún.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir alls ekki gefið að flokkar auki við fylgi sitt eftir landsfundi eins og dæmi séu um frá fyrri árum. Með því að hleypa yngra fólki í sviðsljósið á landsfundinum hafi Sjálfstæðisflokkinn reynt að höfða til yngri kjósenda. „Þetta er nálgun við yngri kjósendur. Hvort það dugar er annað mál,“ segir Grétar Þór.