Elías Pálsson fæddist í Fagurhlíð í Landbroti, V-Skaftafellssýslu, 14.6. 1921. Hann andaðist á Borgarspítalanum 25.9. 2015.

Foreldrar Elíasar voru hjónin Páll Guðbrandsson, f. að Hraunbóli, V-Skaft., 11.4. 1887, d. 4.10. 1964, og Gyðríður Einarsdóttir, f. að Kársstöðum, V-Skaft., 29.5. 1894, d. 27.9. 1962. Elías var næstelstur fjögurra systkina. Hin systkinin eru Guðlaug Pálsdóttir Hersir, f. 1920, d 2008, Þórey Pálsdóttir, f. 1926, d. 2002 og Þór Pálsson, f 1934.

Hinn 7. september 1946 kvæntist Elías eiginkonu sinni, Vilhelmínu Helgadóttur frá Fróðhúsum í Borgarhr., Mýrasýslu, f. 2.11. 1915, d. 10.8. 1976. Foreldrar Vilhelmínu voru hjónin Helgi Daníelsson og Guðbjörg Guðríður Gestsdóttir. Elías og Vilhelmína hófu búskap í Reykjavík og byggðu sér hús í Melgerði, þar sem þau bjuggu mestallan sinn búskap. Elías og Vilhelmína eignuðust fimm börn. 1. Gyða Björg Elíasdóttir, f. 21.3. 1947, maki Jóhannes L. Guðmundsson, f. 17.3. 1945. Börn þeirra eru: a) Elías, f. 1967, sambýliskona Ingigerður Guðmundsdóttir. Börn þeirra eru Gyða Björg, Eyþór og Ingvar. b) Sirrý, f. 1970, maki Björn Gunnar Hreinsson, dætur Sirrýjar eru Þóra Björg, sambýlismaður hennar er Ívar Smári Guðmundsson, og Ellen Sif. Börn Björns eru Einar Magnús, Kolbrún Edda og Lisbet Ása. c) Erna Björk, f. 1980, maki Bergur Hallgrímsson. Synir þeirra eru Steinar og Daníel. 2. Helga Pála Elíasdóttir, f. 27.5. 1948, maki Vilhjálmur Kvaran, f. 18.6. 1946. Börn þeirra eru: a) Vilhjálmur, f. 1971, sambýliskona Inga Þorvaldsdóttir. Dætur Vilhjálms eru Helga Lísa, Freyja og Valdís. Börn Ingu eru Kristinn, Steinunn og Sólveig. b) Elínborg Valdís, f. 1975, sambýlismaður Leifur Kristjánsson. Börn þeirra eru Kristján Orri og Emma. c) Guðrún, f. 1985, sambýlismaður hennar er Yuho Janhunen. 3. Guðbrandur Þ. Elíasson, f. 25.5. 1952, maki Auður Bárðardóttir, f. 4.8. 1952. Dætur þeirra eru: a) Hlín, f. 1978, maki Páll Daníelsson. Börn þeirra Daníel Þröstur og Sóley. b) Brynja, f. 1981, sambýlismaður Finnur Egilsson. Börn þeirra eru Eðvarð Egill, Brynja Von og Embla Nótt. Dóttir Finns er Lukka. c) Hildur Ýr, f. 1984. Sonur hennar er, Aron Freyr. 4. Guðlaug Elíasdóttir, f. 26.11. 1953, maki Páll Melsted, f. 16.12. 1954. Börn þeirra eru: a) Þormar, f. 1979. Unnusta hans er Margrét Valgarðsdóttir. b) Gunnhildur, f. 1986. c) Helgi Páll, f. 1991, unnusta Anna Friðrikka Tomson. 5. Sigurjón Elíasson, f. 12.4. 1957, maki Kristrún Ágústsdóttir, f. 12.2. 1960. Synir þeirra eru: a) Ágúst, f. 1984, sambýliskona Jóhanna Hauksdóttir. Sonur þeirra er Bjartur. b) Sölvi, f. 1988, sambýliskona Rebekka Brynhildur Guðjónsdóttir. c) Birkir, f. 1991.

Foreldrar Elíasar fluttust að Hæðargarði í sömu sveit þegar hann var ársgamall. Árið 1936 flutti hann ásamt fjölskyldu sinni að Ósgerði í Ölfusi. Sem unglingur var hann vetrarmaður að Árbæ í Ölfusi en átján ára fer hann á vertíðir í Grindavík og Sandgerði í nokkur ár, ásamt því að starfa í Bretavinnu að Kaldaðarnesi austan Ölfusár. Elías hóf störf 1946 hjá Skeljungi og vann þar uns hann hætti sökum aldurs. Sambýliskona Elíasar til 20 ára var Sigríður Jónsdóttir, f. 21.3. 1921, d. 23.8. 2014, frá Brúsastöðum í Þingvallasveit. Bjuggu þau lengst af í Stóragerði og síðan á Lindargötunni þar sem Elías bjó þar til yfir lauk.

Útför Elíasar fór fram í kyrrþey 20. október 2015.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem)

Elsku afi. Við þökkum þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með þér og geymum minninguna um þig í hjarta okkar um alla ævi. Þú tókst alltaf á móti okkur með hlýhug og gaman var að fylgjast með áhuga þínum á öllu því sem var að gerast í kringum þig, hvort sem um var að ræða fréttamál líðandi stundar eða það sem við í fjölskyldunni vorum að aðhafast.

Þá varst þú einnig ótæmandi sagnabrunnur varðandi land og þjóð og gast ávallt kennt okkur eitthvað í hverri heimsókn. Við minnumst þín sem mikils fjölskyldumanns, harðduglegs ljúfmennis sem bar ávallt hag okkar allra fyrir brjósti.

Við lát þitt situr eftir tómarúm sem enginn getur fyllt, vegna þess að enginn er eins og þú. Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við fengum að njóta með þér. Þín verður sárt saknað. Guð blessi þig.

Vilhjálmur, Elínborg,

Guðrún og makar.

Melgerði: Ritzkex, Korni-pappakex, stæður af vöfflum, ís í frystinum, hjólkoppar, fuglar á bílskúrsþakinu að næra sig, Skeljungsbíllinn, afi sitjandi á endanum á eldhúsbekknum, kartöfluupptaka í Kópavoginum, rifsber, ferðir á ruslahaugana í Gufunesi, pælingar um veðrið... Þetta eru þær ljúfu minningar sem fóru í gegnum huga mér, ásamt mörgum fleiri, þegar ég keyrði frá Siglufirði til Reykjavíkur til að kveðja Ella afa.

Dag í senn, eitt andartak í einu,

eilíf náð þín, faðir gefur mér.

Mun ég þurfa þá að kvíða neinu,

þegar Guð minn fyrir öllu sér?

Hann sem miðlar mér af gæsku sinni

minna daga skammt af sæld og þraut,

sér til þess að færa leið ég finni

fyrir skrefið hvert á lífs míns braut.

Hann, sem er mér allar stundir nærri,

á við hverjum vanda svar og ráð,

máttur hans er allri hugsun hærri,

heilög elska, viska, föðurnáð.

Morgundagsins þörf ég þekki eigi,

það er nóg, að Drottinn segir mér;

Náðin mín skal nægja hverjum degi,

nú í dag ég styð og hjálpa þér.

Guð, ég fæ af fyrirheitum þínum

frið og styrk, sem ekkert buga má.

Auk mér trú og haltu huga mínum

helgum lífsins vegi þínum á,

svo að ég af hjartaþeli hreinu,

hvað sem mætir, geti átt með þér

daginn hvern, eitt andartak í einu,

uns til þín í ljóssins heim ég fer.

(Sigurbjörn Einarsson)

Elsku afi minn, þakka þér fyrir allar góðu stundirnar. Ég efast ekki um að það hafa orðið fagnaðarfundir hjá ykkur ömmu.

Þín

Sirrý Laxdal Jóhannesdóttir.

Tengdaföður mínum, Elíasi Pálssyni, kynntist ég þegar ég tók að gera hosur mínar grænar fyrir dóttur hans og verður þá minnisstætt hversu vel hann tók óöruggu ungmenninu. Fyrir vikið verður Elías eftirminnilegur og varð með tímanum ágætur vinur minn.

Eftir að daður mitt við dóttur hans leiddi til hjónabands bjó ég um nokkurt skeið á heimili Elíasar en hann var þá orðinn ekkill og sá kona mín um heimilishaldið þar sem við bjuggum saman með Elíasi og bróður Guðlaugar, Sigurjóni. Þá kynntist ég Ella betur, vinnusemi og ríkri ábyrgðarkennd fyrir starfi sínu. Eins og gegndi um menn af hans kynslóð voru laun vinnunnar vinnan sjálf, að hafa kraft í sér til viðunandi afkasta og heilum vagni heim að aka, „klára dæmið“. Þar við bættist að Elías var gæddur stakri umhyggju fyrir sínum nánustu.

Utan vinnunnar var Elli að sýsla í garðinum eða við smíðar í bílskúrnum en ekki var óalgengt að hann ræsti fullhlaðinn Skeljungsbílinn í dagrenningu og fyrir lægi akstur norður í land en iðulega var hann kominn heim aftur seint um kvöldið eða um nóttina.

Þegar skeiði langaksturs lauk starfaði Elli í bænum og þá naut Þormar, sonur minn, ómældrar umhyggju afa síns í ferðalögum á milli bensínstöðva og gjafmildi, sem leiddi til þess að drengurinn kom heim hlaðinn sælgæti.

Að hafa eitthvað fyrir stafni mega teljast einkunnarorð Ella og hélt maður nú að nóg væri komið af slítandi vinnu fyrir Skeljung á daginn og á stundum fiskverkun á nóttunni en því var ekki að heilsa og á efri árum tók hann að sér dyravörslu á Hótel Borg og sinnti af áhuga og alúð sem einkenndi önnur störf hans, og þá tókst ánægjulegur vinskapur með honum og vinum okkar Guðlaugar.

Þá má nefna veiðiferðir í Ölfusinu þar sem hann síðar reisti sér sumarhús og á efri árum voru það ræktunarstundirnar sem veittu sístarfandi tengdaföður mínum mikla ánægju.

Hugtakið kynslóðabil var ekki til í hans hugarheimi við okkar fyrstu kynni og ekki frekar á efstu árum á Lindargötunni þegar hann átti ánægjulegar stundir hjá ungum verslunareigendum í hverfinu.

Elías naut þess að mikil samheldni var með börnum hans og hann gladdist með þeim á fjölmörgum samverustundum.

Með þessum litlu minningabrotum kveð ég tengdaföður minn.

Páll Melsteð.

Elli frændi, móðurbróðir minn, er fallinn frá, 94 ára gamall. Hann var ári yngri en Guðlaug móðir mín en þau ólust upp í Hæðargarði í Landbroti fram til 1936. Þá flutti fjölskyldan vestur að Ósgerði í Ölfusi, þar sem slægjan var meiri; engjar, fiskur og selur. Þá voru þau 15 og 16 ára. Þetta var engin jörð, sagði Elli mér um Hæðargarð – einhverra hluta vegna var hvorki silungurinn né fuglinn nýttur þó að nóg væri af hvoru tveggja – allt snerist um sauðkindina. Elli kvaðst vera viss um að ef útlendi áburðurinn hefði verið kominn, hefði aldrei verið flutt. Áburðurinn kom reyndar skömmu síðar. Hann sagði mér að hann hefði gengið tvisvar úr Landbroti vestur í Ölfus sumarið 1936. Fyrst þegar flutt var um vorið, þá gekk hann með föður sínum og kúnum þar til þær gáfust upp við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum eftir tæpa viku. Þangað voru þær svo sóttar á bíl. Um haustið var ekið austur í Landbrot og féð sótt. Fjárreksturinn tók þá feðga um sjö daga en eftir það var farið með sláturféð í Hafnarfjörð.

Elías var annálað hraustmenni eins og faðir hans og heyrði ég oft ótrúlegar sögur af hreystiverkum hans frá samverkamönnum í Dagsbrún. Hann var minnugur og góður. Hann var líka einn þessara manna sem voru aldir upp í sveit og virtust kunna og geta allt með höndunum. Hann hafði mikinn áhuga á stjórnmálum og gat verið orðhvass. Síðast þegar ég heimsótti hann vildi hann vita hvað mér þætti um ríkisstjórnina. Ég sagði sem var, að mér þætti nú heldur lítið til hennar verka koma. Hann kættist mjög, sagðist hafa vitað að ég væri sér sammála og bætti um betur með orðfæri sem ég treysti mér ekki til þess að hafa eftir á síðum þessa dagblaðs.

Hann og móðir mín voru afar samrýnd í æsku og raunar alla tíð enda nánast jafngömul; nokkur ár í Þóreyju og enn lengra í Þór, yngsta systkinið. Saman héldu þau tvö á vertíð suður með sjó fljótlega eftir að flutt var í Ölfusið; hann á sjóinn en hún gerðist ráðskona í verbúðinni – þau pössuðu upp á hvort annað. Elli var skýr í kollinum alla tíð sem ekki verður sagt um móður mína. Hraustmenninu frænda mínum þótti erfitt að dvelja lengi í einu hjá systur sinni síðustu æviár hennar.

Hún spurði gjarnan hvort hann hefði komið ríðandi og þá á hvað hesti! Hún ruglaði mér, syni sínum, yfirleitt saman við Ella og kvartaði sáran yfir að einkasonurinn kæmi sjaldan í heimsókn, það væri annað en elskulegur bróðir hennar.

Þótt Elli gæti verið hrjúfur í framkomu var hann yfirleitt ljúfur sem lamb – hann reyndist mér oft vel og var bóngóður. Ég þurfti stundum sem unglingur að leita til hans og fá hann með mér til þess að sækja föður minn, sjómanninn í misjöfnu ástandi við heimkomuna.

Hann mælti stillilega nokkur vel valin orð til föður míns og dröslaði honum inn í bíl, en lagði svo stóran hramminn á öxlina á mér og sagði hlýlega: Jæja, væni minn.

Þá er bara að þakka þessum ágæta, stundum hrjúfa en ljúfa frænda fyrir samfylgdina og óska fjölskyldu hans alls hins besta.

Gylfi Páll Hersir.