Kristján Jónsson kjon@mbl.is Sigur pólska hægriflokksins sem nefnir sig Lög og réttlæti (LOR) í kosningunum um helgina var afgerandi, hann hreppti um 39% atkvæða og rösklega helming þingsæta.
Kristján Jónsson

kjon@mbl.is

Sigur pólska hægriflokksins sem nefnir sig Lög og réttlæti (LOR) í kosningunum um helgina var afgerandi, hann hreppti um 39% atkvæða og rösklega helming þingsæta.

Flokkurinn er þjóðernissinnaður, andvígur evru og mjög tortrygginn út í Evrópusambandið. Leiðtogi hans, hægri-pópúlistinn Jaroslaw Kaczynski, verður ekki nýr forsætisráðherra, við embættinu tekur Beata Szydlo.

Athyglisvert er að aðeins fimm flokkar munu fá sæti á þingi og enginn þeirra telst vera til vinstri. Mikill hagvöxtur hefur verið á seinni árum í Póllandi, atvinnuleysi er minna en að jafnaði í ESB-ríkjunum en mörgum finnst sem þeir hafi ekki notið þessa árangurs í bættum lífskjörum. Kaczynski sigraði einnig árið 2005. Persónulegar vinsældir hans eru þó vægast sagt litlar, hann þykir enginn mannasættir. Í nýlegri skoðanakönnun kom fram að aðeins örlítill hluti hans eigin flokksmanna vildi að hann yrði forsætisráðherra.

Árið 2005 lét Kaczynski annan flokksmann taka við embættinu til að byrja með en tók það seinna yfir sjálfur. Velta margir því fyrir sér hvort hann muni leika sama leikinn núna, að sögn heimildarmanna danska útvarpsins, DR. Sum kosningaloforð LOR geta orðið dýr og bent er á að Pólland hafi fengið mikla styrki frá ESB, þeir hafi átt stóran þátt í að efla fjárhag ríkisins.

Þúsundir Úkraínumanna hafa flust til Póllands á seinni árum. Úkraínumenn eru náskyld þjóð og þeim hefur verið tekið vel. En Pólverjar eru margir mjög andvígir því að hleypa inn í landið farand- og flóttafólki frá Mið-Austurlöndum. Þeir hafna því kröfum ESB um að hvert ESB-ríki taki við ákveðnum kvóta, deili byrðunum og Kaczynski hefur beitt sér hart gegn kvótanum.

Lofar kjarabótum
» Kaczynski segir stjórn Borgaravettvangsins, sem einnig er hægriflokkur, hafa gengið erinda stórfyrirtækja.
» Fallið verður frá áformum um að hækka lífeyrisaldur, skattar á stórfyrirtæki hækka, einnig barnabætur.