Glöð Adda ásamt Memory Banda, Khalidi Mngulu og fyrrverandi varaforseta Taívans, Annette Lu Hsiu-lien.
Glöð Adda ásamt Memory Banda, Khalidi Mngulu og fyrrverandi varaforseta Taívans, Annette Lu Hsiu-lien. — Ljósmynd/Vala Smáradóttir
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Adda Þóreyjar- og Smáradóttir er komin aftur til Spánar þar sem hún er skiptinemi, eftir tíu daga ævintýraför til Taívans.
Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Adda Þóreyjar- og Smáradóttir er komin aftur til Spánar þar sem hún er skiptinemi, eftir tíu daga ævintýraför til Taívans. Þar tók hún við sérstökum verðlaunum fyrir baráttu sína í þágu jafnréttis og kvenréttinda, eins og Morgunblaðið greindi frá þann 9. október sl.

Adda er einungis sextán ára gömul, en vakti mikla athygli hér á landi sl. vetur þegar hún birti mynd af sér berbrjósta á samfélagsmiðlinum Twitter, til þess að benda á að geirvörtur hennar hefðu ekki sömu stöðu og geirvörtur skólabræðra hennar. Þetta var gert undir slagorðinu „Free the Nipple“.

„Þetta var ótrúlegt ævintýri og eins lærdómsrík för og hugsast getur, á svona fáum dögum,“ sagði Adda í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Mér fannst þessi ferð opna augu mín fyrir vandamálum alls staðar í heiminum og því hversu mikla löngun maður fær til þess að leggja sitt af mörkum við að takast á við vandamálin,“ sagði Adda.

„Ég vona svo sannarlega að ég muni halda sambandi við þessa krakka sem ég kynntist um ókomna tíð, því þau eru svo gefandi og hafa svo mismunandi sýn á lífið.

Ferðin var í einu orði sagt dásamleg og það var algjör heiður fyrir mig að fá þessi verðlaun. Þetta fær mig til að halda áfram því sem ég hef verið að gera. Þetta var eins og gott spark í rassinn!“ sagði Adda Þóreyjar- og Smáradóttir.