Skódi ljóti spýtir grjóti, heyrði Víkverji sagt í gamla daga um þessa ágætu bíltegund. Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan.
Skódi ljóti spýtir grjóti, heyrði Víkverji sagt í gamla daga um þessa ágætu bíltegund. Mikið vatn hefur til sjávar runnið síðan. Skódinn er í dag eitt vinsælasta ökutæki í hinum vestræna heimi, og jafnvel víðar, og á Volkswagen-vélum mikið að þakka í því efni. Þess vegna var það rothögg fyrir marga Skoda-eigendur að heyra að þeirra bílar væru búnir svindlbúnaði í útblástursprófi líkt og fjölmargir bílar VW. Skódi ljóti skítur sóti, væri nær að orða þetta í dag, þó að það hljómi illa.

Víkverji er einn þeirra ökumanna sem aka um á bíl með þessum búnaði. Bíllinn gengur eins og klukka, það er ekki vandamálið. En þetta mun hafa í för með sér ómælt óhagræði, jafnt á heimsvísu sem á heimilisbókhaldið. Ekkert er að marka tölur um losun gróðurhúsalofttegunda og hlýnun jarðar heldur áfram sem aldrei fyrr, söluvirði þessara svindlbíla hrynur og opinberar álögur á þá aukast.

Víkverji ætlar rétt að vona að Volkswagen, Skoda og aðrir bílaframleiðendur, sem uppvísir hafa orðið að svindli, muni gyrða sig í brók og bæta bíleigendum það tjón sem þeir hafa orðið fyrir. Bílaumboðin hér á landi hafa beðist afsökunar á þessu megaklúðri og boðað bréf til bíleigenda þegar komið er að því að innkalla ökutækin og lagfæra búnaðinn. Víkverji telur ekki nóg að gert. Hann vill helst fá nýjan bíl í staðinn en gerir sér grein fyrir að líklega sé það óraunhæf krafa. Frí smurning og þjónustuskoðun til æviloka bíls og bílstjóra er eitthvað sem teldist sanngjarnt. Einnig hefði Víkverji ekkert á móti boðsmiða í leikhús, bensínkortum eða vænum afslætti á nýjum bíl.

Eitt er nefnilega alveg á hreinu. Bílaframleiðendur hafa gert upp á bak og saklausir eigendur svindlbílanna eiga heimtingu á einhverju öðru og meira en innköllun og ókeypis viðgerð á búnaðinum.