[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Heimilum sem fá greidda fjárhagsaðstoð sveitarfélaga fækkaði í fyrra í fyrsta skipti frá árinu 2007.
Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Heimilum sem fá greidda fjárhagsaðstoð sveitarfélaga fækkaði í fyrra í fyrsta skipti frá árinu 2007. Meginástæðan er sú að atvinnuástand hefur batnað en breytingar á fjölda þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð hafa haldist í hendur við þróun atvinnuleysis. Eftir sem áður eru atvinnulausir einstaklingar í hópi þeirra sem fá fjárhagsaðstoð ríflega þrefalt fleiri nú en þeir voru á árinu 2007 eða rúmlega 3.300 í fyrra.

Af tölum Hagstofunnar, sem birtar voru í gær, má ráða að auk þess sem fækkað hefur milli ára í hópi atvinnulausra sem fá fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefur námsmönnum sem þáðu fjárhagsaðstoð einnig fækkað á milli ára og voru þeir um 600 talsins í fyrra. Hins vegar hefur sjúklingum sem fá fjárhagsaðstoð fjölgað ár frá ári og voru 1.683 talsins í fyrra. Hafði þeim þá fjölgað um 680 frá árinu 2010 eða um 67.9% á fjögurra ára tímabili. Voru sjúklingar í fyrra 22,1% þeirra sem fengu fjárhagsaðstoð en til samanburðar var hlutfall þeirra 15,5% á árinu 2010.

Reikna með áframhaldandi fækkun á þessu ári

Fram kemur í upplýsingum Hagstofunnar í gær að í fyrra fengu alls 7.749 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fækkað um 293 (3,6%) frá árinu áður og er það í fyrsta skipti í mörg ár sem ekki fjölgar á milli ára í þessum hópi. Árið 2013 fjölgaði heimilum um 306 (4,0%) milli ára og árið 2012 um 21 (0,3%), en hafði fjölgað að jafnaði um 860 árin á undan allt frá árinu 2007.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að talið sé að áfram muni fækka í hópi þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð, á yfirstandandi ári. Atvinnuástandið hafi batnað mikið en mjög margir sem voru á atvinnuleysisbótum þegar atvinnuleysið var sem mest komu síðar til sveitarfélaganna og fengu fjárhagsaðstoð. „Þó ekki hafi allir átt rétt á fjárhagsaðstoð þá var það töluverður hluti og það kvað svo rammt að því að við höfum kallað eftir því, og gerum reyndar enn, að fá hlutdeild í almenna tryggingagjaldinu til þess að standa undir þessum aukna kostnaði,“ segir Halldór.

Taki vinnu ef hún er í boði

Ýmis verkefni sem ráðist var í til að auka virkni atvinnulausra hafa skilað árangri. Sveitarfélögin lögðu mikla áherslu á að þau fengju skýra heimild til að grípa til virkniúrræða og að hægt væri að krefjast þess að einstaklingar sem fá fjárhagsaðstoð tækju vinnu ef hún væri í boði og viðkomandi væri fær um það, að sögn Halldórs. ,,Hafnarfjörður hefur farið með glæsibrag á undan í því máli á meðan til dæmis höfuðborgin hefur dregið lappirnar í því,“ segir hann.

Halldór bendir einnig á að líta megi á þessi mál í tengslum við umræðuna sem nú er komin upp um að flytja þurfi inn fólk til starfa hér á landi. Þó ljóst sé að ekki séu allir sem fá fjárhagsaðstoð færir um að ráða sig í slík störf, þá eigi það örugglega við um töluvert stóran hluta þeirra sem fá fjárhagsaðstoð í dag.

Á fimmta þúsund börn

Hagstofan birtir einnig upplýsingar um fjölda heimilismanna á þeim heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð í fyrra. Alls bjuggu 12.625 einstaklingar eða 3,8% þjóðarinnar á heimilum sem fengu greidda fjárhagsaðstoð. Þar af voru 4.203 börn á aldrinum 17 ára og yngri eða 5,3% barna á þeim aldri á öllu landinu.

Árið 2013 bjuggu 13.130 einstaklingar eða 4,0% þjóðarinnar á heimilum sem þurftu á fjárhagsaðstoð að halda og þar af var 4.421 barn. Af þeim heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð í fyrra voru fjölmennustu hóparnir einstæðir, barnlausir karlar eða 44,8% heimila, og einstæðar konur með börn sem voru 24,9% af öllum sem fengu fjárhagsaðstoð.