Listamaðurinn Bertel Thorvaldsen gerði þetta líkneski af sjálfum sér. Það var gefið Íslendingum í tilefni af þjóðhátíðinni 1874.
Listamaðurinn Bertel Thorvaldsen gerði þetta líkneski af sjálfum sér. Það var gefið Íslendingum í tilefni af þjóðhátíðinni 1874.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FRÉTTASKÝRING Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Thorvaldsen-safnið í Kaupmannahöfn hefur að undanförnu unnið að því að setja öll bréf til og frá listamanninum Bertel Thorvaldsen (1770-1844) á vef sinn. Einnig öll einkaskjöl hans.
FRÉTTASKÝRING

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Thorvaldsen-safnið í Kaupmannahöfn hefur að undanförnu unnið að því að setja öll bréf til og frá listamanninum Bertel Thorvaldsen (1770-1844) á vef sinn. Einnig öll einkaskjöl hans. Hefur texti skjalanna allra verið skrifaður upp, en auk þess má sjá myndir af frumritunum. Hægt er að leita í bréfunum eftir nöfnum og efnisorðum. Þarna er gífurlegur fróðleikur fyrir alla þá sem áhuga hafa á ævi og verkum þessa merkilega listamanns.

Hálf-íslenskur

Bertel Thorvaldsen átti íslenskan föður, Gottskálk Þorvaldsson, og danska móður, Karen Degnes. Var faðir hans ættaður frá Reynistað í Skagafirði. Thorvaldsen fæddist í Danmörku og kom aldrei til Íslands. En uppruna sínum hélt hann þó á lofti og var í sambandi við marga Íslendinga. Hann gerði skírnarfontinn sem er í Dómkirkjunni í Reykjavík og þykir merkasti gripur kirkjunnar. Kom fonturinn hingað til lands árið 1839 og hafði Thorvaldsen frumkvæði að því.

Í tengslum við þjóðhátíðina 1874 gáfu dönsk stjórnvöld hingað líkneski af Thorvaldsen sem hann hafði gert sjálfur. Fólst í því viðurkenning á því að hann tilheyrði ekki síður Íslandi en Danmörku. Styttan var á Austurvelli frá 1875 þar til hún vék fyrir minnisvarða Jóns Sigurðssonar forseta árið 1931.

Rúmlega 9 þúsund skjöl

Í gegnum tíðina hafa ýmsir Danir vefengt faðerni Thorvaldsens. Thorvaldsen-safnið hefur hins vegar ávallt verið ótruflað af þeirri vanmetakennd og viðurkennt íslenskan uppruna hans. Skjölin sem nú eru aðgengileg á vef safnsins staðfesta þetta enn frekar. Þar eru meðal annars nokkur bréf sem fóru á milli feðganna, Gottskálks og Thorvaldsens. Samtímamenn Thorvaldsen meðal skálda og listamanna vissu líka um faðerni hans. „Flød op fra Islands Klint paa Danmarks Kyst,“ orti Grundtvig og „O Kunstnat! Glimt fra Island brød/ Din tykke Sky,“ orti Oehlenschläger.

Skjölin sem eru á vef Thorvaldsens-safnsins eru rúmlega 9 þúsund. Hin elstu eru frá 1771 til 1772. Bréf sem Thorvaldsen ritaði eigin hendi eru 739 og bréf til hans um 5.800. Flest bréfin eru á dönsku, en einnig er mikill fjöldi bréfa á ítölsku, enda dvaldi listamaðurinn um langt árabil í Róm og skapaði þar mörg helstu verk sín.

Íslenskir bréfritarar

Auk Gottskálks eru meðal íslenskra bréfritara Gunnlaugur Briem sýslumaður og Finnur Magnússon prófessor. Þá er minnst á ýmsa Íslendinga í bréfunum. Gunnlaugur fór ungur til Kaupmannahafnar til að nema við listaskólann og komst þá í vinfengi við Thorvaldsen. Sýna bréfin að listamaðurinn fól honum að fullvinna listaverk sem hann hafði teiknað af rómverska goðinu Neptúnusi. Ekki er vitað hvað varð um verkið eða hvort því var lokið. Gunnlaugur sá fljótt að lítið yrði upp úr listinni að hafa á heimaslóðum á Íslandi og hætti listnáminu og lauk í staðinn laganámi. Kristjana, dóttir Gunnlaugs, hitti Thorvaldsen í ferð sem hún fór til Rómar. Frásögn hennar af ferðinni, elsta ferðsaga íslenskrar konu, var seinna birt sem „bréf frá íslenskum qvenmanni“ en nafn hennar ekki nefnt.

Dýrgripur í Dómkirkjunni

Skírnarfontur Alberts Thorvaldsen í Dómkirkjunni í Reykjavík er talinn meðal helstu dýrgripa þjóðarinnar. Hann ber ártalið 1827. Á framhlið fontsins er mynd af því er Jóhannes skírari skírir Jesú, á norðurhlið eru sömu persónur á barnsaldri með Maríu Guðsmóður og á suðurhlið er Jesús að blessa börnin. Á bakhlið skírnarfontsins er letrað á latínu: Reisti smíð þessa í Róm suður Albert Thorvaldsen ættjörðu sinni, Ísalandi, gefandi hana af góðum hug.

Fonturinn á sér þrjá fyrirrennara í listasögu Thorvaldsens. Einn er í Hallarkirkjunni í Brahe-Trolleborg á Fjóni, annar í þýsku mótmælendakirkjunni í Róm og sá þriðji í Heilagsandakirkjunni á Strikinu í Kaupmannahöfn.