Rýming Skömmu eftir að tilkynnt var um aukinn viðbúnað í Danmörku rýmdi lögregla flugstöðvarbyggingu á Kastrup.
Rýming Skömmu eftir að tilkynnt var um aukinn viðbúnað í Danmörku rýmdi lögregla flugstöðvarbyggingu á Kastrup. — AFP
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Íslendingar virðast ekki láta hryðjuverkaógn í París stoppa sig að ferðast til borgarinnar. Mun færri afbókanir hafa verið hjá flugfélögunum WOW air og Icelandair en fyrirtækin reiknuðu með.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Íslendingar virðast ekki láta hryðjuverkaógn í París stoppa sig að ferðast til borgarinnar. Mun færri afbókanir hafa verið hjá flugfélögunum WOW air og Icelandair en fyrirtækin reiknuðu með. Helst eru það Bandaríkjamenn sem hafa hætt við að halda áfram frá Íslandi og ákveða að eyða fríinu sínu hér á landi frekar en í Frakklandi.

„Það hefur eitthvað verið um afbókanir en ekki mikið,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air. „Aðallega eru það farþegar frá Bandaríkjunum sem hafa hætt við. Þeir sem hafa verið að afbóka frá Bandaríkjunum hafa ákveðið að vera hér á landi og fara ekki áfram. Fara í fríið en ákveða að eyða því hér á Íslandi frekar en í Frakklandi,“ segir Svanhvít en flugfélagið flýgur frá Boston og Washington í Bandaríkjunum.

Fjölmörgum viðburðum hefur verið aflýst í París vegna ógnarinnar, meðal annars frumsýningu Hrúta á mánudag og U2 hætti einnig við stóra tónleika.

Icelandair bauð farþegum sínum að breyta miðum eða fresta ferð sem þeir áttu bókaða til Parísar án gjaldtöku.

„Við buðum upp á að fólk gerði breytingar á sínum ferðaáætlunum varðandi Frakkland en urðum ekki varir við að það væri mikið gert. Við sjáum ekki annað en að allt gangi sinn vanagang á flugvöllum þar sem við fylgjumst með,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Viðbúnaðarstig hækkað

Stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð ákváðu í gær að hækka viðbúnaðarstig í næsthæsta stig. Í tilkynningu frá lögreglu var vísað til „óvissuástandsins“ sem nú ríkir í nokkrum Evrópuríkjum. Að mati PET, dönsku leyniþjónustunnar, er Danmörku talin standa veruleg ógn af hryðjuverkastarfsemi.

Skömmu eftir að tilkynnt var um aukinn viðbúnað í Danmörku rýmdi lögregla flugstöðvarbyggingu á Kastrup-flugvelli. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar þess að það heyrðist til tveggja manna tala um sprengju í tösku annars þeirra. Mennirnir tjáðu lögreglu að þeir hefðu verið að fíflast og byggingin var opnuð aftur nokkrum klukkustundum síðar.

Í Svíþjóð var ákvörðunin um aukinn viðbúnað tekin á grundvelli upplýsinga frá NCT, stofnun sem hefur það hlutverk að meta hryðjuverkaógnir sem kunna að steðja að Svíþjóð og sænskum hagsmunum erlendis.

„Árásirnar í París 13. nóvember sýndu að Ríki íslams kann að hafa aukna getu til að framkvæma tiltölulega flóknar árásir í Evrópu,“ segir í tilkynningu frá SÄPO, sænsku leyniþjónustunni.