Styrktarsjóður Þór Sigurþórsson hlaut styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar listmálara að þessu sinni.
Styrktarsjóður Þór Sigurþórsson hlaut styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar listmálara að þessu sinni. — Morgunblaðið/Golli
Myndlistarmaðurinn Þór Sigurþórsson hlaut í gær styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar listmálara og Ástu Eiríksdóttur, eiginkonu hans. Úthlutunin, sem var sú tíunda, fór fram við athöfn í Listasafni Íslands. Hlaut Þór 500.000 krónur.

Myndlistarmaðurinn Þór Sigurþórsson hlaut í gær styrk úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar listmálara og Ástu Eiríksdóttur, eiginkonu hans. Úthlutunin, sem var sú tíunda, fór fram við athöfn í Listasafni Íslands. Hlaut Þór 500.000 krónur.

Stofnað var til sjóðsins árið 1993 og fyrsta úthlutun var 1995. Úthlutun hefur alltaf verið annað hvert ár, hinn 18. nóvember á afmælisdegi Svavars, nema einu sinni þegar hún var á afmælisdegi Ástu. Tilgangur sjóðsins er að styrkja unga og efnilega myndlistarmenn.

Þór, sem fæddist 1977, kláraði BA-próf í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2002, stundaði svo nám í Akademie der Bildenden Künste í Vín. Árið 2008 útskrifaðist hann með MFA í myndlist frá School of Visual Arts í New York. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga hér- og erlendis og haldið nokkrar einkasýningar.

„Já, þetta kom á óvart. Er það ekki alltaf svo?“ sagði Þór þegar leitað var viðbragða hjá honum. „Það felst ákveðin virðing í þessu,“ sagði Þór þegar hann var inntur eftir því hvaða þýðingu styrkveitingin hefði fyrir hann. Hann svaraði því neitandi hvort hann hefði leitt að því hugann hvernig hann hygðist verja styrknum.

Samkvæmt upplýsingum frá Hverfisgalleríi fæst Þór í verkum sínum „oft við greiningu á hlutum sem við höfum aðlagað líkamanum; sem verða hálfgerðar framlengingar af líkamanum og við notum til að skoða og fást við heiminn. Verk hans ögra skilningi okkar á hversdagslegum hlutum og storka klisjum okkar um fegurð og náttúru.

Skjáir og skjámenning hefur verið Þóri ofarlega í huga undanfarið. Verk hans samanstanda oftar en ekki af ljósmyndum sem hann hefur unnið með því að mála yfir með skafmálningu eða hulið með einu af mörgum lögum sem finna má í LED-skjám. Algengir fundnir hlutir sem fyrirfinnast í hversdagsleikanum hafa einnig verið uppistaða í verkum hans en með því að taka þá í sundur og algerlega úr samhengi verða þeir næstum ókunnugir“. Þór vinnur nú að næstu einkasýningu sem opnað verður í Hverfisgalleríi í apríl nk.

Í dómnefnd styrktarsjóðsins sitja Þuríður Sigurðardóttir, fyrir hönd Sambansds íslenskra myndlistarmanna, Hulda Stefánsdóttir frá Listaháskóla Íslands og formaður er Halldór Björn Runólfsson, safnstjóri Listasafns Íslands.