— Teikning/Halldór Baldursson
Kristín Pálsdóttir eða Pála gamla eins og hún var kölluð, flakkaði víða um land. Miklar sögur eru til af áræði og hreysti Kristínar.
Kristín Pálsdóttir eða Pála gamla eins og hún var kölluð, flakkaði víða um land. Miklar sögur eru til af áræði og hreysti Kristínar. Einhverju sinni að vetrarlagi var Kristín stödd að Núpi í Miðfirði en ásamt henni voru staddir þar fimm menn sem voru á leið sinni suður á land, skólapiltur og fjórir vermenn. Kristín óskaði eftir því að vera samferða þeim yfir Tvídægru en vermennirnir þvertóku fyrir það, sögðu heiðina nógu erfiða yfirferðar fyrir karlmenn, hvað þá að kona kæmist yfir hana um hávetur. Skólapilturinn, sem hét Bjarni, þekkti aftur á móti Kristínu og sannfærði hann vermennina um að óhætt væri fyrir þá að taka hana með í ferðina. Strax og þau lögðu af stað bauðst Kristín til að taka farangur Bjarna en ástæða ferðalags hans var sú að hann var veikur og á leið suður til að leita sér lækninga. Fyrst um sinn sóttist Kristínu ferðin seint og var hún aftast í hópnum, en þegar sunnar kom á heiðina fór hún að greikka sporið svo mikið að vermennirnir fóru að kvarta yfir því að of greitt væri gengið. Kristín svaraði því til að nú væri ekki annað í boði fyrir þau en að drífa sig þar sem veðurútlitið hefði versnað til muna. Voru þau þá komin suður fyrir svokallaða Hraungarða, sem eru um það bil á miðri heiðinni, norðanmegin við miðja heiði. Var veðrið farið að versna verulega og fljótlega var komin norðanstórhríð með mikilli ofankomu. Rak Kristín á eftir mönnunum en fljótlega tóku tveir vermannanna að dragast aftur úr. Kristín sagði það ótækt því nú þyrftu þau að halda hópinn og drífa sig. Bauðst Kristín til að taka farangur þessara manna, sem þeir og þáðu. Hélt þessi sex manna hópur förinni áfram með Kristínu í fararbroddi, haldandi á farangri fjögurra einstaklinga. Veðrið hafði aðeins breyst, ofankoma minnkað en í stað þess var mikill skafrenningur og frostharka. Sást lítið það sem framundan var og vissu karlmennirnir ekkert hvar þeir voru staddir en Kristín hélt ótrauð áfram með hópinn. Svo fór að enn einn vermannanna tók að dragast aftur úr og tók þá Kristín farangur hans. Loks komust þau að Gilsbakka þar sem séra Hjörtur Jónsson og fjölskylda hans tóku á móti hópnum. Hafði Kristín unnið um skeið hjá Hirti sem ráðskona, þannig að fólkið á bænum þekkti hana vel. Fékk hópurinn góða aðhlynningu en karlmennirnir í hópnum voru orðnir mjög þrekaðir eftir þetta volk á meðan Kristín virtist að mestu óþreytt. Þökkuðu skólapilturinn og vermennirnir sínum sæla fyrir að hafa tekið Kristínu með í þessa ferð; án hennar hefðu þeir líkast til ekki komist klakklaust yfir Tvídægru. Séra Hjörtur fyrirskipaði að farangurinn sem Kristín hafði borið yfir heiðina væri vigtaður og reyndist hún hafa verið með 40 kíló á bakinu þegar mest var.