Borið hefur á því að fyrirsvarsmenn fyrirtækja átti sig ekki á því að ráðstafanir sem gerðar voru í viðskiptalegum tilgangi, undir erfiðum kringumstæðum, kunna að koma til skoðunar síðar meir sem sakamál.

Á árunum eftir hrun fjölgaði gjaldþrotum fyrirtækja mikið þótt þeim hafi sem betur fer farið fækkandi undanfarin misseri. Þegar fyrirtæki er tekið til gjaldþrotaskipta af héraðsdómi er tiltekinn lögmaður skipaður skiptastjóri í búinu og starfar hann sem opinber sýslunarmaður skv. 77. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Skiptastjóri hefur það meginhlutverk að taka saman eignir og skuldir þrotabúsins, koma eignum í verð og ráðstafa fénu til kröfuhafa, eftir nánar tilteknum reglum gjaldþrotaskiptalaga. Við þetta kannast flestir.

Við rannsókn skiptastjóra á bókhaldi þrotabús koma oft í ljós ráðstafanir sem þarfnast frekari skýringa við. Oftar en ekki er um að ræða millifærslur af bankareikningum þrotabús eða sölu lausafjármuna eða fasteigna til aðila sem tengjast með einhverjum hætti fyrirsvarsmanni þrotabúsins. Slíkar ráðstafanir vekja oft grun hjá skiptastjóra. Ef skiptastjóri fær ekki viðunandi skýringar á ráðstöfun eigna hefur hann tvo kosti, kjósi hann að bregðast frekar við. Annar er að höfða riftunarmál gegn þeim aðila sem tók við ráðstöfuninni, ýmist kaupanda eða gjafþega. Hinn er að tilkynna málið til lögreglunnar sem hugsanlegt refsibrot. Lengi vel létu skiptastjórar sér nægja að krefjast riftunar á ráðstöfunum og ef viðtakandinn samþykkti ekki riftun höfðaði skiptastjóri dómsmál gegn honum og krafðist endurgreiðslu eða skaðabóta skv. XX. kafla gjaldþrotaskiptalaga. Undirritaður þykist hins vegar hafa orðið var við það, án þess þó að hafa gert á því sérstaka rannsókn, að þeim tilvikum hafi fjölgað mikið þar sem skiptastjórar tilkynna hugsanleg brot til lögreglunnar, samhliða því að höfða riftunarmál. Það tíðkast jafnvel að skiptastjórar tilkynni slíkar ráðstafanir til lögreglu þrátt fyrir að riftunarmál þrotabúsins hafi verið til lykta leidd og þrotabúið fengið tjón sitt bætt.

Fái lögregla slíka ábendingu frá skiptastjóra er háttsemin yfirleitt rannsökuð sem svokölluð skilasvik. Um skilasvik er fjallað í 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en þar segir, með nokkurri einföldun, að refsivert sé að ráðstafa eignum fyrirtækis þannig að þær standi kröfuhöfum ekki til boða þegar fyrirtæki hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Lengi vel tíðkaðist ekki að ákæra vegna slíkra brota nema eignirnar sem ráðstafað var hafi verið veðsettar öðrum aðila. Það er skiljanlegt að ákært sé í slíkum málum þar sem betri réttur veðhafa átti að standa í vegi fyrir sölu.

Rekstur fyrirtækja er flókinn og þegar halla fer undan fæti getur þurft að taka ákvarðanir með skjótum hætti. Ef ekki er brugðist hratt og rétt við geta eignir orðið lítils virði. Ákvarðanir um meiriháttar ráðstafanir, jafnvel sölu á rekstri fyrirtækis, geta verið snúnar, ekki eingöngu út frá viðskiptalegum sjónarmiðum heldur einnig lögfræðilegum. Þær varnir, að reynt hafi verið að koma í veg fyrir skaðlega rekstrarstöðvun, hafa hingað til ekki verið taldar duga til að forða fyrirsvarsmönnum fyrirtækja frá ákæru vegna skilasvika. Við mat ákæruvaldsins á því hvort gefa skuli út ákæru vegna skilasvika skiptir heldur ekki máli hvort riftun hafi gengið eftir og þrotabúið fengið tjón sitt bætt.

Til umhugsunar er að þessi mál sæta tvöfaldri dómsmeðferð. Annars vegar sem einkamál um riftun og hins vegar sem sakamál um skilasvik. Þannig eru sömu viðskiptin til skoðunar í tveimur ólíkum málum, þar sem ólíkar málsmeðferðarreglur gilda. Borið hefur á því að fyrirsvarsmenn fyrirtækja átti sig ekki á því að ráðstafanir sem gerðar voru í viðskiptalegum tilgangi, undir erfiðum kringumstæðum, kunna að koma til skoðunar síðar meir sem sakamál. Það viðhorf að í versta falli verði ráðstöfuninni einfaldlega rift og málinu þar með lokið er ekki raunhæft. Forsvarsmenn fyrirtækja þurfa að hafa þetta í huga.