Auknar lífslíkur munu hafa áhrif á skuldbindingar flestra lífeyrissjóðanna.
Auknar lífslíkur munu hafa áhrif á skuldbindingar flestra lífeyrissjóðanna. — Morgunblaðið/Kristinn
Margrét Kr. Sigurðardóttir margret@mbl.is Skuldbindingar lífeyrissjóða hækka um 281 milljarð króna vegna nýrra útreikninga á lífaldri.

Flestir lífeyrissjóðir þurfa að grípa til aðgerða vegna breytinga sem verða á tryggingafræðilegri stöðu þeirra, þegar tillit verður tekið til nýrra líftaflna sem byggjast á spám sem gera ráð fyrir lengri meðalævi. Jón Ævar Pálmason, sérfræðingur í áhættugreiningu hjá Fjármálaeftirlitinu, segir að breytingarnar sem verða á áföllnum skuldbindingum lífeyrissjóðanna hækki þær um 281 milljarð króna eða 9% miðað við stöðu þeirra um síðustu áramót, samkvæmt bráðabirgðaútreikningum tryggingastærðfræðinga. Jón Ævar ritar grein um efnið í nýjasta tímariti FME, Fjármálum. Hann segir að áhrifin ráðist af aldurs- og kynjasamsetningu og komi því með ólíkum hætti niður á lífeyrissjóðunum.

„Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga hefur nýlega gefið út nýjar lífaldurstöflur sem gera ráð fyrir lækkun dánartíðni við mat á lífeyrisskuldbindingum. Í nágrannalöndunum eins og Hollandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur þessum aðferðum verið beitt þar sem spáð er fyrir um lengri lífaldur fólks, en dánartíðnin hefur farið lækkandi, sér í lagi eftir 1950. Fram til þessa hafa lífaldurstöflurnar byggt á meðaltali 5 undanfarinna ára, hversu margir hafa dáið í hverjum aldurshóp.“

Spá um lengri lífaldur hefur meiri áhrif eftir því sem taka ellilífeyris hefst síðar á lífsleiðinni en Jón Ævar segir að það séu mismunandi reglur í lífeyrissjóðunum um hvenær heimilt er að hefja töku úr sjóðum. „Tryggingafræðileg staða lífeyrissjóða versnar þegar lífslíkur aukast og lífeyrissjóðir munu þurfa að jafna muninn á milli eigna og skuldbindinga.“

Jón Ævar segir að til að ná jafnvægi hjá lífeyrissjóðunum þurfi eitt af þrennu að koma til; hækka eftirlaunaaldur, lækka réttindi eða hækka iðgjald. „Réttindanefnd Landssamtaka lífeyrissjóða hefur lagt til að farin verði blönduð leið með hækkun eftirlaunaaldurs og lækkun á réttindum sjóðsfélaga,“ segir hann.