Björn Jónasson fæddist 30. mars 1948. Hann lést 24. október 2015.

Útför Björns fór fram 4. nóvember 2015.

Björn vinur minn Jónasson, síðari árin þekktur sem Björn í Kistufelli, lézt nýlega 67 ára gamall. Það var fyrir allnokkrum árum að ég kynntist Birni fyrst. Hann var hæglátur maður og geðgóður, afskaplega jafnlyndur. Hann var jarðfræðingur að mennt og vann sem slíkur um árabil. Foreldrar hans, Jóhanna Björnsdóttir, húsfreyja og skrifstofumaður, og Jónas Jónasson, kaupmaður frá Völlum í Kjós, stofnuðu varahlutaverslunina Kistufell við Brautarholt 1952 ásamt föðurbróður Björns. Björn tók við rekstrinum 1993 og vann þar til dauðadags. Kistufell var landsþekkt og virt fyrirtæki fyrir en Björn jók hróður þess og efldi á alla lund meðan hans naut við. Fór hann m.a. í gagngerar endurbætur á húsakosti fyrirtækisins við Brautarholt 16 í Reykjavík. Björn var skarpgreindur maður. Hann var fljótur að átta sig á hlutum og finna lausn á flóknustu viðfangsefnum. Hélzt það allt til hinztu stundar. Hann hafði yndi af ferðalögum og ferðuðumst við mikið ásamt vinafólki okkar bæði innan lands og utan. Er mér sérstaklega minnisstæð ferð okkar til Frankfurt í Þýzkalandi haustið 2008, en þangað fór Björn að jafnaði annað hvert ár á mikla bílakaupstefnu sem þar er haldin til að kynna sér stefnur og strauma bílaiðnaðarins og til að afla fanga fyrir verzlun sína. Honum fannst að ég yrði endilega að fara til Göttingen í Neðra-Saxlandi en faðir minn var þar við nám og móðir mín með honum þá ég fæddist. Fórnaði hann heilum degi af dýrmætum tíma sínum til að af því mætti verða. Leigðum við okkur bíl og skutumst þangað frá Frankfurt og áttum þar góðan dag. Hafði ég ekki þangað komið frá því ég var smástrákur. Get ég ekki lýst því hve dýrmætt þetta var mér.

Björn í Kistufelli hafði stórt hjarta. Það sýndi sig bezt þegar fólk leitaði til hans um styrk eða aðstoð og tók hann því yfirleitt vel og var þá ekki skorið við nögl. Veit ég því að Drottinn tekur vel á móti honum. Afkomendur hans og aðrir aðstandendur eiga alla samúð mína.

Hallgrímur Helgason.