Lágstemmt Sigríður Arnardóttir: „Eftir því sem árin líða finnst mér flóknar jólaskreytingar skipta æ minna máli, vil frekar hafa þær látlausar og náttúrulegar. Ég hef líka dregið úr smákökubakstri og myndi satt að segja leggja þann sið af með öllu, ef unga kynslóðin væri því ekki mótfallin.“
Lágstemmt Sigríður Arnardóttir: „Eftir því sem árin líða finnst mér flóknar jólaskreytingar skipta æ minna máli, vil frekar hafa þær látlausar og náttúrulegar. Ég hef líka dregið úr smákökubakstri og myndi satt að segja leggja þann sið af með öllu, ef unga kynslóðin væri því ekki mótfallin.“ — Morgunblaðið/Eggert
Samvera og vinátta er aðalmálið á aðventunni.

Ég get ekki beint sagt að ég sé mikið jólabarn, ég er meira sólarmegin í tilverunni og í essinu mínu á sumrin. Jólaundirbúningurinn styttir þó veturinn og það er auðvitað notalegt á aðventu og jólum að lýsa upp skammdegið og um um leið tilveruna svo um munar. Það besta við aðventuna og jólin er að þrátt fyrir allt kaupæðið og auglýsingaflóðið þá notum við þennan tíma til að sýna öðrum kærleika.

Samvera og vinátta finnst mér vera aðalmálið á aðventunni hjá flestum. Jólin eru vissulega hátíð barnanna og mestu máli skiptir að gleðja þau. En við erum líka dugleg að huga að öðrum í kringum okkur á þessum tíma. Fólk kíkir gjarnan inn til ættingja með jólakveðju, þótt samskiptin séu ekki mikil á öðrum árstímum. Þetta skiptir máli.“

Skærasta stjarnan

Jól bernsku þinnar?

„Ég á margar fallegar og góðar minningar frá bernskujólunum. Ég man öll fiðrildin í maganum af spennu og eftirvæntingu. Og tíminn ætlaði aldrei að líða. Barnaefnið í sjónvarpinu var hátíðarstund á aðfangadag, enda ekki jafnmikið barnaefni í boði þá og nú. Og litlir hlutir eins og bjallan sem við hengdum upp til að hringja inn jólin klukkan sex, hún var töfrum líkust. Jólastjarnan í glugganum hjá afa og ömmu á Hjaltabakka er líka ógleymanleg, í minningunni skein hún skærar en allar jólaseríur nútímans samanlagt.

Að baka með Sirrý ömmu var mjög skemmtilegt, ég man eftir mér kornungri með henni í eldhúsinu. Hún taldi mér trú um að ég hefði veigamiklu hlutverki að gegna, ég byggi yfir ómetanlegri reynslu af því að leira á leikskólanum og væri því ómissandi aðstoðarkona í jólabakstrinum. Svo verður maður fullorðinn og þá snúast jólin um að gleðja börn. Og lesa. Bækur og góður matur eru aðalmálið á jólum fullorðinsáranna; eitt það mikilvægasta í mínu jólafríi er lestur nýrra bóka.“

Nýtt servíettubrot

Óvænt uppákoma á jólum?

„Við Kristján Franklín, maðurinn minn, vinnum saman í því að halda veislu um jól og áramót. Ég sé um matinn, en hann sér um fjölmargt annað. Eftirminnilegt er þegar hann hvarf eitt sinn í miðjum undirbúningnum á aðfangadag, við vorum þá nýbyrjuð að búa. Ekkert heyrðist í honum lengi, lengi. Mig fór að lengja eftir honum, tíminn flaug áfram og von var á mörgum í jólamatinn.

Í ljós kom að hann hafði farið ofan í kjallara og á google að læra servíettubrot af youtube og gleymdi sér alveg. Mér fannst þetta frekar fáránleg tímasetning og tímafrekt smáatriði, en engu að síður mjög fyndið. Allt hafðist þetta auðvitað, borðið var fallega skreytt og við áttum gleðileg jól. Og í dag vinnum við mjög vel saman.“

Fleiri ljósaseríur

Hefðir jólanna?

„Ég held í hefðir og er til dæmis alltaf með kalkún á aðfangadagskvöld. Mamma og Júlli maðurinn hennar sjá um humar í forrétt og ég útbý ris a la mande í eftirrétt. Kalkúnninn er góður og hátíðlegur en ekki þungur í maga. Og svo skreyti ég húsið hátt og lágt með ljósum, það eykst með árunum ef eitthvað er. Eftir því sem árin líða finnst mér flóknar jólaskreytingar aftur á móti skipta æ minna máli, vil frekar hafa þær látlausar og náttúrulegar. Ég hef líka dregið úr smákökubakstri og myndi satt að segja leggja þann sið af með öllu, ef unga kynslóðin væri því ekki mótfallin.

Aðalmálið um jólin er annars ekki skraut og gjafir, heldur boðskapur jólanna. Og við sem kristin þjóð ættum að huga betur að því að jafna hér kjörin og draga úr auðsöfnun fárra. Það eru allt of mörg börn á Íslandi með fjárhagsáhyggjur og desember reynist mörgu láglaunafólki erfiður tími. Gleymum því ekki.“

Gamlársdagur á þínu heimili?

„Á gamlárskvöld höfum við yfirleitt hamborgarhrygg í matinn, en svo prófa ég oft nýja forrétti og eftirrétti. Ég er ekki eins fastheldin á hefðir þá og á jólum, en þó er fastur liður hjá okkur að fara í ýmsa leiki yfir borðhaldinu á gamlárskvöld. Fyrir mörgum árum tók ég viðtal við Marentzu Poulsen, vinkonu mína, þar sem hún benti á ýmsa skemmtilega samkvæmisleiki sem þétta hópinn og lífga upp á samverustundina. Ég fór að hennar ráðum og nú þykir þetta ómissandi í minni fjölskyldu. Það eru til dæmis í gangi „leynisetningar“, þá fær hver og einn borðgestur miða með nafni á ennið og á svo að „geta manninn“, reyna að komast að því hver hann er. Stundum á fólk að sýna leynda hæfileika og ýmislegt fleira sem okkur finnst skemmtilegt.“

Hvenær hefst jólaundirbúningurinn?

„Þegar ég var yngri og nýbyrjuð að búa var ég uppteknari af því að sanna mig í eldhúsinu og útbjó meira jólagóðgæti en ég geri nú. Ég bakaði til dæmis jólaköku eitt árið sem ég vökvaði með rommi í heilan mánuð; ég man að ég vandaði mig mikið, en þrátt fyrir allt var kakan þurr og frekar óspennandi.

Mín reynsla er sú að þegar ég hef ætlað mér of mikið og byrja mjög snemma að undirbúa jólin verður oft minna úr framkvæmdum en þegar ég hef mikið að gera og byrja jólaundirbúninginn frekar seint. Í ár verður desember rólegur því lítið er um fyrirlestra og námskeið hjá mér í jólamánuðinum og vinnan við sjónvarpsþáttagerð á Hringbraut er alveg hæfilega mikil. Því leggst aðventan vel í mig og ég stefni að því að láta sykur og myrkur ekki draga mig niður, heldur ætla ég að njóta þess að fara í sund og kíkja með vinkonum í kaffi.“ beggo@mbl.is