[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Víðir Sigurðsson vs@mbl.is „Ég mun fara vel yfir málin eftir tímabilið og skoða stöðuna en það hefur verið skemmtileg reynsla að búa hér og spila,“ sagði knattspyrnumaðurinn Kristinn Steindórsson við Morgunblaðið.

Fótbolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

„Ég mun fara vel yfir málin eftir tímabilið og skoða stöðuna en það hefur verið skemmtileg reynsla að búa hér og spila,“ sagði knattspyrnumaðurinn Kristinn Steindórsson við Morgunblaðið. Lið hans, Columbus Crew, er komið í fjögurra liða úrslitin um bandaríska meistaratitilinn eftir gott gengi í MLS-deildinni á tímabilinu.

Columbus mætir New York Red Bulls í fyrri undanúrslitaleiknum á sunnudagskvöldið kemur en þessi tvö lið urðu efst í Austurdeild MLS í ár. Kristinn verður ekki með, hann er að jafna sig eftir aðgerð á hné, og á ekki von á að koma við sögu í seinni leiknum sem fer fram í New York viku síðar.

Æfi með liðinu á föstudaginn

„Ég var búinn að finna fyrir eymslum í öðru hnénu í tvo til þrjá mánuði og lét svo kíkja á það. Þá kom í ljós að það var smá rifa í liðþófanum og þetta var lagað með lítilli aðgerð fyrir fjórum vikum. Ég hef verið á fullu að vinna í því að koma mér til baka og planið er að ég mæti á mína fyrstu æfingu með liðinu eftir aðgerðina á föstudaginn. Þó ekki til að vera með á fullu, heldur bara vissan hluta. Í næstu viku á ég svo að æfa af 100 prósent krafti,“ sagði Kristinn.

Hann er ekki sáttur við sinn hlut hjá liðinu, enda fékk Kristinn aðeins tækifæri í byrjunarliðinu í fjórum af 34 leikjum þess í deildinni, en kom sautján sinnum inná sem varamaður. Meiðslin komu síðan í veg fyrir að hann spilaði síðustu vikur tímabilsins. Kristinn kvaðst ekki búast sérstaklega við að fá tækifæri hjá þjálfara liðsins, Gregg Berhalter, í seinni leik undanúrslitanna.

Verð til taks ef vel gengur

„Nei, mér finnst mjög ólíklegt að hann velji mig í hópinn þegar ég verð búinn að æfa svona stutt með liðinu eftir þessa fjarveru. En ef allt gengur vel á æfingunum verð ég auðvitað til taks þótt ég búist ekki við því að vera með,“ sagði Kristinn sem er 25 ára gamall og lék með Breiðabliki til 2011 en síðan með sænska liðinu Halmstad í þrjú ár. Kristinn lék sinn fyrsta og eina A-landsleik til þessa gegn Kanada í janúar og skoraði þá fyrra mark Íslands í 2:1-sigri.

Skemmtileg reynsla en mjög ólíkt Evrópu

Ef Columbus nær að slá New York út í undanúrslitum lengist tímabilið enn því þá spilar liðið til úrslita um bandaríska meistaratitilinn við annaðhvort Portland Timbers eða Dallas sem eru í hinu undanúrslitaeinvíginu.

Framhaldið er óráðið þegar keppnistímabilinu lýkur, að sögn Kristins. „Ég er með samning út næsta ár en er að skoða málin almennt. Þegar maður fær lítið að spila og aldrei fengið almennilegt tækifæri með liðinu þá er sjálfsagt að fara yfir málin og skoða stöðuna. Þetta hefur hinsvegar verið skemmtileg reynsla og MLS-deildin er áhugaverð en mjög ólík því sem er í Evrópu, enda skipt upp í Austurdeild og Vesturdeild. Hérna geta ferðalögin verið mjög löng og með alls konar millilendingum. Tímamismunurinn frá austurströnd til vesturstrandar er þrír tímar og svo er loftslagið mismunandi. Við spilum í meira en kílómetra hæð yfir sjávarmáli í Colorado og Salt Lake City en förum svo niður til Orlando og Houston við ströndina þar sem er mjög heitt og rakt. Þetta gerir deildina erfiða og krefjandi.

En það er leiðinlegt að hafa ekki fengið tiltrú þjálfarans því ég veit að ég hefði getað gert fína hluti með liðinu,“ sagði Kristinn Steindórsson.