Júlía Ágústsdóttir heimilisfræðikennari
Júlía Ágústsdóttir heimilisfræðikennari — Morgunblaðið/Eggert
Jólin eru að koma, rétt eins og þau hafa alltaf gert. Þau eru tilhlökkunarefni, standa iðulega með sínum hætti undir væntingum og eru tími sem við njótum, ekki síst með samverustundum með fólkinu sem okkur þykir vænst um.

Jólin eru að koma, rétt eins og þau hafa alltaf gert. Þau eru tilhlökkunarefni, standa iðulega með sínum hætti undir væntingum og eru tími sem við njótum, ekki síst með samverustundum með fólkinu sem okkur þykir vænst um. Í áranna rás safnast jólaminningarnar fyrir í hugskotinu, hlaðast upp og verða að minningabunka. Eins og gengur stendur þá eitt og annað upp úr á meðan annað liggur í láginni. Og hvað skyldi standa upp úr?

Sé að gáð þá má reikna fastlega með því að ljúfustu og lífseigustu jólaminningarnar tengist samverustundum sem við og fólkið í kringum okkur gaf sér tíma til að njóta, mitt í hringiðu sjálfskaparvítisins sem jólastressið vill stundum verða er það fer úr böndunum. Snjóhús sem fjölskyldan hlóð úti í garði, jafnvel bara hlaðið snjóboltahús fyrir sprittkerti í tómri sultukrukku; lakkrístoppar bakaðir af eftirvæntingu í eldhúsinu, jafnvel þótt þeir hafi kolfallið og orðið að lakkrísklöttum í ofninum því líkast til slysaðist svolítil eggjarauðusletta með í hvíturnar fyrir þeytinguna; smáfólk sem fær loks þá vígslu að fá að taka þátt í því að búa til fyllinguna í kalkúninn, dýfa sörunum (eða dívunum – sjá uppskrift hér í blaðinu) í súkkulaði og jafnvel velta brúnuðu kartöflunum um í sykurbráðinni; að eyða dögum milli jóla og nýárs, helst á köflóttum náttbuxum, þar sem kaffisopi og konfekt blandast umræðum um nýjustu jólabækurnar og hlátur er ekki langt undan.

Horfum til baka og þá munu líkast til flestir komast að raun um að bestu jólaminningarnar tengjast þeim eldforna sannleik að maður er manns gaman, og aldrei á það jafnvel við og í svartasta skammdeginu. Engar gjafir, hversu níðþungan verðmiða sem þær kunna að bera, koma í staðinn fyrir vináttu, faðmlag og samveru þegar hátíð ljóss og friðar er annars vegar.

Svo væri auðvitað vel til fundið að kveikja á kerti og hugsa svo hlýtt sem hægt er til alls þess fólks sem eyðir köldum desembermánuði allslaust á flótta undan illsku og óhugnaði sem flæmt hefur það á vergang.

Notum jólin til að búa til góðar minningar.