Jólasagan Jesú, María og Jósef í fjárhúsinu, listilega skorið í tré. Vitringarnir þrír bíða átekta.
Jólasagan Jesú, María og Jósef í fjárhúsinu, listilega skorið í tré. Vitringarnir þrír bíða átekta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það kennir ýmissa grasa í jólaskrauti Eddu Kjartansdóttur, starfsþróunarstjóra á Menntavísindasviði HÍ, en vænst þykir henni þó um handgerða skrautið sem gert hefur verið af fjölskyldumeðlimum.

Edda Kjartansdóttir segist hafa verið meira fyrir jólaskraut svona almennt þegar hún var yngri. Framan af hafði hún það fyrir vana að kaupa nýtt jólaskraut um hver jól en eftir því sem árin liðu mettast heimilið af skrauti og hún hætti að bæta í safnið. „Með árunum hefur mér líka þótt vænna og vænna um það sem einhver gefur mér og hefur helst búið til sjálfur,“ segir Edda. Það skraut sem henni þykir mest til koma er ekki endilega það skraut sem er með tilkomumesta handverkinu heldur frekar eitthvað sem viðkomandi hefur búið til sjálfur og hefur persónulega merkingu. Sem dæmi um það er pappírsskór sem sonur hennar bjó til í leikskóla fyrir mörgum árum og setti út í glugga fyrir jólasveininn á sínum tíma. Enn í dag hefur þessi skór fastan sess í jólaskreytingunum þó að komum sveinka hafi fækkað. Núna er hann alltaf settur út í eldhúsglugga þegar eldhúsið er skreytt.

Allt sem tengist ömmu

Eddu þykir þó ekki verra þegar það fer saman fallegt handverk og persónuleg gjöf. Jóladúkar og jólamyndir sem amma hennar gerði og gaf henni meðan hún var á lífi eru henni til dæmis mjög dýrmæt og algjörlega ómissandi á jólunum til að ná fram hátíðlegri stemningu. Amma Eddu, Magnea Þorkelsdóttir, var rómuð hannyrðakona sem skildi eftir sig mikinn fjölda fallegra muna. Skrautið þjónar því ekki eingöngu þeim tilgangi að gera jólalegt á heimilinu. Það sér einnig um að mynda tengingu við minningar um ættingja, vini og fjölskyldumeðlimi, ekki síst ömmu Eddu. Hún veit líka að aðrir í fjölskyldunni eiga svipaða hluti og því taka þau saman þátt í að halda minningu hennar á lofti.

Hannyrðakonan Magnea Þorkelsdóttir

Magnea Þorkelsdóttir biskupsfrú, amma Eddu, var fædd árið 1911 en hún lést árið 2006, 95 ára að aldri. Á hundrað ára afmæli Magneu tóku Edda og nokkrar frænkur saman bók um hana sem kom út árið 2012. Í bókinni eru myndir af glæsilegu handverki Magneu auk þess sem sagt er frá lífshlaupi hennar og Sigurbjörns Einarssonar biskups, manns hennar. Magnea var mikil hannyrðakona og eftir hana liggja fjölmörg listaverk. Í kynningu Bókatíðinda 2012 segir að þó að hún væri jafnvíg á bóknám og verknám hafi hannyrðir átt hug hennar allan og sinnti hún þeim af ástríðu alla ævi. Edda segir það hafa verið mjög ánægjulegt að heiðra minningu ömmu sinnar með því að taka þátt í að taka saman bókina.

Ekkert app til að applíkera

Það fetar eflaust enginn í fót- og saumaspor Magneu Þorkelsdóttur. Sjálf er Edda þó að sauma sams konar matardúk með jólamynstri og amma hennar gerði og setti alltaf upp á jólaborðið hjá sér. Henni finnst að saumaskapurinn sækist hægt hjá sér og henni finnst hún hafa verið lengi að. Þetta er heldur ekki krosssaumur eða venjulegur saumaskapur heldur handbragð sem kallað er að applíkera. Hvorki Edda né greinarhöfundur þekkja íslenskt nafn yfir handbragðið og það fyrsta sem kemur upp í hugann er að þetta sé eitthvert sauma-app eða smáforrit í snjallsíma en það er nú nær. Þetta er talsvert flókið ferli. „Maður þarf að klippa út pappír, svo brjóta efnið í pappírinn og svo saumar maður í höndunum niður á efni,“ segir Edda. Greinarhöfundur er í raun litlu nær og gerir sér enga grein fyrir allri þeirri vinnu sem í þessu felst. Dúkurinn sem Edda er að sauma byggist á sálminum Í Betlehem er barn oss fætt en texti sálmsins kemur þar einnig fyrir og hann þarf að sauma líka og þetta eru fjölmörg handtök. Edda veit ekki til þess að neitt íslenskt orð sé notað yfir þetta handbragð en samkvæmt lýsingunni mætti einna helst kalla þetta myndsaum. Best finnst Eddu þó að kalla þetta bara að applíkera, það hefur alltaf verið notað í hennar eyru. Edda er um það bil hálfnuð með dúkinn. Á honum verða sex myndir, hún er búin með tvær en er byrjuð á þeirri þriðju.

Jólaguðspjallið á harmonikubók

En það er fleira jólaskraut sem Edda heldur upp á. Aftur er það hlutur með persónulega merkingu en er kannski ekki merkilegur fyrir neinn annan. Þegar synir hennar tveir voru komnir á skólaaldur bjuggu þeir til harmonikkubók með myndum úr jólaguðspjallinu. Þessa harmonikubók hefur Edda alltaf uppi við á jólunum. Það bætir svo við merkinguna og tengir við starf Eddu sem kennara að hún lét nemendur sína gera sams konar harmonikubók í skólanum sem verkefni fyrir jólin. Þannig ber Edda eflaust ábyrgð á því að einhverjir foreldrar hafi fengið handgert jólaguðspjall í harmonikkubók í jólagjöf frá börnunum sínum.

Handgerðar tréfígúrur

Þó að það sé ekki gert af neinum sem hún þekkir heldur Edda talsvert upp á jólahús sem hún keypti í Danmörku fyrir mörgum árum. Húsið er handgert í Póllandi og því fylgja fallegar handgerðar tréfígúrur. Húsið og fígúrurnar eru alltaf teknar upp á aðventunni hjá Eddu en þar eru María, Jósef, Jesúbarnið, fjárhirðarnir, jatan og allt það og svo má ekki gleyma jólastjörnunni sem fest er með kennaratyggjói sem sérstaklega var látið fylgja með húsinu.

Jólakötturinn geymir vanilluhringi

Edda á mjög óvenjulegan jólakött sem þjónar sérstöku hlutverki í undirbúningi jólanna. Þessi jólaköttur tengist Magneu, ömmu Eddu, eins og margt af jólaskrauti Eddu. Magnea átti forláta jólakött úr smíðajárni en frænka Eddu lét gera eftirmyndir af kettinum og þannig eignaðist Edda sams konar kött. Í stað þess að hremma og hrella börnin sem ekki fá nýja flík geymir þessi jólaköttur vanilluhringi í verulegu magni en þeir eru þræddir upp á skott hans. Vanilluhringir eru einmitt í miklu uppáhaldi hjá Eddu og fjölskyldu.

Englaspilið hringir inn jólin

Þegar jólin ganga loks í garð þykir Eddu einstaklega hátíðlegt að kveikja á englaspili en það er kertaórói með englum sem snúast og slá í leiðinni í litlar bjöllur. Þegar hún heyrir hvellt og fínlegt hljóðið í englaspilinu finnst Eddu jólin vera komin.