Jói Fel & Dívurnar Bakarí Jóa Fel skilar af sér á bilinu 15 til 20.000 sörum fyrir hver jól og viðbúið er að töluvert bætist við af dívum fyrir þessi jól og héðan af. Eins og sjá má er framleiðslan þegar hafin og veitir ekki af því díva er ekki síður ljúffeng og gómsæt en sara. Þeir sem unna hvítu súkkulaði ættu sérstaklega að bera sig eftir fáeinum eða þá baka samkvæmt uppskrift sem fylgir hér.
Jói Fel & Dívurnar Bakarí Jóa Fel skilar af sér á bilinu 15 til 20.000 sörum fyrir hver jól og viðbúið er að töluvert bætist við af dívum fyrir þessi jól og héðan af. Eins og sjá má er framleiðslan þegar hafin og veitir ekki af því díva er ekki síður ljúffeng og gómsæt en sara. Þeir sem unna hvítu súkkulaði ættu sérstaklega að bera sig eftir fáeinum eða þá baka samkvæmt uppskrift sem fylgir hér. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sörukökugerð á sér fastan sess í jólahaldi margra landsmanna. Nú hefur Jóhannes Felixson – eða Jói Fel eins og við þekkjum hann flest – kynnt til sögunnar dívu, en hún er eiginleg „systurkaka“ sörunnar, og það sem meira er, hann gefur uppskriftina líka.

En hver er eiginlega díva og hver er sagan á bak við þessa girnilegu og gómsætu köku sem Jói hefur þróað?

Hann kann söguna af tilurð hennar.

„Ég hef verið að baka Söru Bernharðs-kökur alveg svakalega lengi og til að gefa einhverja hugmynd um umfangið þá búum við til á bilinu 15 til 20.000 sörur fyrir hver jól,“ segir Jói. „Fyrir um tveimur árum kom svo hugmyndin að gera kannski eitthvað nýtt.“

Leitin að nýrri söru

Jói og konan hans Unnur byrjuðu á bollaleggingum sínum og ákváðu að nýja kakan yrði að vera ljós eða jafnvel hvít, og að því leytinu til frábrugðin hinni góðkunnu söruköku. Í framhaldinu fæddust einar átta eða níu uppskriftir að „nýjum sörum“ á meðan Jói prófaði sig áfram. „Leitin endaði svo á þessari köku, en það tók mig alveg tvö ár að þróa uppskriftina og fullkomna hana uns ég var fyllilega sáttur við útkomuna.“ Unnur, sem vinnur með Jóa í bakaríinu, fann svo nafnið á kökuna. Dömurnar sem starfa í bakaríi Jóa Fel. í Holtagörðum settu svo punktinn yfir i-ið með því að smakka allar kökurnar þar til uppskriftin var fullkomnuð.

Díva er að því leytinu svipuð söru að botninn er sambærilegur makkarónubotn og Jói bendir á að rétt eins og í sörunum þurfi að vera franskt smjörkrem í dívunni, þar sem sjóða þarf saman sykur og vatn. „Það sem ég geri svo aftur öðruvísi er að í staðinn fyrir kakó bæti ég út í belgísku hvítu súkkulaði – það verður að vera alvörusúkkulaði – ásamt vanillusykri, vanilludropum og hjúpa að endingu með hvítu súkkulaði.“

Jói segir aðspurður að mesta áskorunin hafi verið að ná rétta þéttleikanum í kreminu. „Fyrst var það of stíft af því ég setti of mikið af hvítu súkkulaði. Svo prófaði ég rjómasúkkulaði en það var bara ekki nógu gott. Loks prófaði ég að blanda smá Grand Marnier-appelsínulíkjör út í kremið og það kom virkilega vel út en við ákváðum að hafa ekki áfengi í endanlegu uppskriftinni. Við erum ánægð með dívu eins og hún endaði enda er hún alveg svaðalega góð,“ bætir Jói við og hlær.

Það sem hafa ber í huga

Eins og þeir vita sem reynt hafa þarf að vanda sig svolítið við sörugerð ef vel á að takast til. Jói segir að því sé eins farið um dívurnar; allir geti búið þessar kökur til en það þurfi örlitla fyrirhöfn sem skili sér svo margfalt í hnossgætinu sem kökurnar eru. En hvað skyldi helst þurfa að hafa í huga við kökugerðina?

„Hvað kremið varðar þá er aðalatriðið rétt hitastig á súkkulaðinu,“ bendir Jói á. „Það þarf að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði og svo þarf að taka það af hitanum og leyfa því að standa í fjórar til fimm mínútur. Ef súkkulaðið er of heitt getur kremið einfaldlega fallið. Svo er málið að hræra kreminu rólega saman og best að gera það einfaldlega með höndunum. Í hrærivél getur kremið orðið óþarflega blautt og leiðinlegt.“

Svo er bara að bretta upp ermarnar og spreyta sig á því að búa til dívur fyrir jólin – og þaðan í frá. jonagnar@mbl.is

Dívan hans Jóa Fel

Botn

9 stk. eggjahvítur (um 285 g)

85 g sykur

430 g flórsykur

515 g möndluduft

Byrjið á því að þeyta eggjahvíturnar og setjið sykurinn saman við rólega og stífþeytið svo.

Notið heilar möndlur og maukið þær mjög smátt í matvinnsluvél. Blandið flórsykrinum saman við möndlurnar. Blandið svo öllu mjög varlega saman með sleikju. Sprautið á plötu með smjörpappír og bakið við 180°C í u.þ.b. 12 mín. Kælið.

Krem

240 g sykur

200 g vatn

8 stk (166 g) eggjarauður

180 g hvítir Nóa-súkkulaðidropar

500 g smjör

2 tsk. vanillusykur

1½-2 tsk vanilludropar

Hjúpur

Hvítir Nóa-súkkulaðidropar

Setjið sykur og vatn í pott og hitið upp í 116°C eða þar til sírópið fer aðeins að þykkna.

Þeytið eggjarauðurnar til hálfs og hellið svo sírópinu mjög varlega í mjórri bunu út í rauðurnar og hafið þeytinguna á miðlungshraða á meðan. Aukið svo hraðann og þeytið í 3-4 mín.

Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði, hafið smjörið við stofuhita og setjið saman við þeytinguna. Best er að blanda því saman með höndunum. Setjið þá súkkulaði saman við ásamt vanillu. Hrærið svo saman í gott og mjúkt smjörkrem. Best er að gera þetta með höndunum en kremið má setja í hrærivél með spaða og vinna rólega.

Frystið dívurnar. Bræðið svo hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði og dýfið kreminu í súkkulaðið. Best er að geyma dívurnar í frosti, þær eru bestar kaldar.