Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Ísak Rúnarsson isak@mbl.is Niðurstöður frá öllum ráðuneytum úr könnun meirihluta fjárlaganefndar á útboðsmálum opinberra stofnana liggja nú fyrir.

Ísak Rúnarsson

isak@mbl.is

Niðurstöður frá öllum ráðuneytum úr könnun meirihluta fjárlaganefndar á útboðsmálum opinberra stofnana liggja nú fyrir. Samtals voru 160 stofnanir spurðar hvort útboð hefðu farið fram í sjö útboðsflokkum en í ljós kom að ekki er boðið út í 79% tilfella.

Hlutfall stofnana sem bjóða út í hverjum flokki er: Tölvu- og fjarskiptabúnaður 42,5%, fjarskiptaþjónusta og hýsing 45,6%, hugbúnaðargerð vegna heimasíðu eða gagnvirks kerfis 14,4%, raforka 7,5%, iðnaðarmenn 18,8%, hugbúnaðarleyfi 18,8% og almenn rekstrarráðgjöf 1,3%.

Niðurstöðurnar vonbrigði

Einnig var spurt hvort lagt hefði verið mat á hagkvæmni útboðanna en í aðeins 12,5% tilfella hafði slíkt verið gert. Hvað varðar einstök ráðuneyti var mest boðið út í stofnunum sem heyra undir innanríkisráðuneytið eða í rúmlega 33% tilfella en minnst hjá stofnunum utanríkisráðuneytisins þar sem ekkert var boðið út.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segir niðurstöðurnar vera mikil vonbrigði. Ekki sé verið að fylgja eftir stefnu stjórnvalda né lagaboðum um að bjóða út.

„Það virðist ekki skipta máli hvað margar skýrslur eða úttektir koma út. Við erum með heila stofnun sem er boðin og búin til þess að sinna þessum verkefnum en hún hefur svo sannarlega ekki verið notuð sem skyldi. Það er fullkomlega augljóst að það eru engar afsakanir því að ef þú ert með of margar stofnanir þá ættu þær eða viðkomandi ráðuneyti að hafa frumkvæði að því að þær bjóði út saman,“ segir Guðlaugur Þór og bætir við að hann styrkist alltaf í þeirri skoðun sinni að skera eigi niður til stofnana sem ekki bjóði út.

„Hvernig útskýrirðu það að einhver stofnun biðji um meiri fjármuni ef hún býður ekki út? Ég er ekki með aðra útskýringu á því en að þá hljóti að vera nóg af peningum til,“ segir hann. Þá segir hann ástandið óásættanlegt fyrir skattgreiðendur en tekur fram að hvatarnir í kerfinu séu rangir og að oft sé stofnunum refsað fyrir að bjóða út og umbunað fyrir að gera það ekki. Því þurfi að breyta og ekki eigi að refsa fyrir að standa sig vel.

Útboð
» Flestar stofnanir buðu út fjarskiptaþjónustu og hýsingu eða 73 af 160, sem eru 45,6%.
» Fæstar stofnanir buðu út almenna rekstrarráðgjöf eða 2 af 160, sem eru 1,3%.