Jón F. Bjartmarz
Jón F. Bjartmarz
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is „Það vantar fólk og það vantar búnað svo lögreglan geti staðið undir öryggishlutverki sínu,“ segir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Það vantar fólk og það vantar búnað svo lögreglan geti staðið undir öryggishlutverki sínu,“ segir Jón Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra.

Hann segir að enn sé beðið viðbragða úr innanríkisráðuneytinu í kjölfar greinargerðar sem ríkislögreglustjóri sendi frá sér í apríl þar sem fram kemur að þörf er á mannafla, vopnum og búnaði í starfsemina. Í henni er lagt til að uppbyggingu á viðbúnaðargetu lögreglu verði hraðað og aukið fé veitt til þess að endurnýja og bæta sérbúnað. Meðal annars var allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis gerð grein fyrir stöðu þessara mála á fundi 6. október sl. þar sem lagt var fram minnisblað en Jón segir að menn innan embættisins telji stöðuna alvarlega.

Hann segir að tekist hafi að auka verulega aðgerðaþjálfun lögreglumanna síðustu tvö árin í framhaldi af sérstökum fjárveitingum sem til þess fengust. Ástand slíkrar þjálfunar verði því að teljast viðunandi eins og er. Vandamálin liggi í því að vopn, búnaður og mannafli er af skornum skammti.

Meðal annars kemur fram í greinargerðinni að þörf sé á 150 vélbyssum. Spurður segir Jón að þessar tölur nái einungis yfir þörf almennra lögreglumanna en ekki til sérsveitarmanna. Eins segir í skýrslunni að margvíslegur búnaður sérsveitar ríkislögreglustjóra sé úr sér genginn, sé jafnvel áratuga gamall og þarfnist endurnýjunar.

Aðgerðir í kjölfar árásanna

Spurður segir Jón að ekki hafi orðið breyting á hættumati vegna hryðjuverkaógnar hérlendis í kjölfar árása í Frakklandi. Hættumatið hafi verið hækkað í febrúar sl. skv. niðurstöðu greiningardeildar ríkislögreglustjóra. Hættustig í meðallagi er skilgreint svo: Almennt er talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum.

„Almennt hefur hættustig í Evrópu farið hækkandi síðustu ár og í raun eru atburðirnir í Frakklandi staðfesting á því mati. Niðurstaða greiningardeildar frá því í febrúar byggðist m.a. á því. Við höfum gripið til ýmissa aðgerða eftir árásirnar í París en hins vegar ekki hækkað viðbúnaðarstig lögreglu. Það er auk þess erfiðleikum háð vegna takmarkaðrar viðbúnaðargetu hennar,“ segir Jón

Engar fjárheimildir til eftirlits

Í frétt í breska blaðinu Telegraph kemur fram að í sumum löndum Schengen-landamæranna sé einungis einn af hverjum 100 mögulegum vígamönnum sem alist hafa upp í Evrópu (home grown jihadists) en dvalið hafa í Sýrlandi kannaður í kerfi sem heldur utan um grunaða hryðjuverkamenn (EU anti-terrorism watchlist) þegar þeir koma inn á Schengen-svæðið. Fyrir vikið geti viðkomandi ferðast á milli Sýrlands og Evrópu nánast að vild í krafti evrópsks vegabréfs.

Spurður hvort til standi að herða vegabréfaeftirlit segir Jón ekki hafa verið teknar ákvarðanir um að taka upp landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen hér á landi en til séu önnur úrræði. „Það er ekki landamæravarsla á milli Schengen-landanna en hins vegar hafa löndin heimildir til þess að sinna eftirliti innan landsins.“ Lögregla sé með aðgang að ýmsum eftirlitskerfum, m.a. varaðandi Schengen-samstarfið, Interpol-samvinnuna o.fl.

„Við getum flett upp í kerfunum ef við höfum afskipti af útlendingum inni í landinu og Schengen-samvinnan gerir beinlínis ráð fyrir því,“ segir Jón. Lögreglan hefur hins vegar aldrei fengið neinar sérstakar fjárveitingar til að sinna sérstöku eftirliti á því sviði. „Það mætti bæta,“ segir Jón.