[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðrún fæddist á Laugavegi 2 í Reykjavík 19.11. 1935 og ólst þar upp: „Ég var þriggja ára þegar mamma dó og við Páll bróðir fengum frjálst uppeldi hjá pabba.

Guðrún fæddist á Laugavegi 2 í Reykjavík 19.11. 1935 og ólst þar upp: „Ég var þriggja ára þegar mamma dó og við Páll bróðir fengum frjálst uppeldi hjá pabba. Páll fékk að breyta eldhúsinu og búri í efnafræðirannsóknarstofu og ég breytti dagstofunni í leikhús. Þá birtist ég með blóm í hári og flutti ljóðið Helga Jarlsdóttir eftir Davíð Stefánsson. Þegar pabbi var orðinn leiður á Jarlsdótturinni brá leikkonan sér út á Laugaveg og sótti áhorfendur sem fengu ókeypis ljóðaupplestur. Þetta var upphafið að leiklistarferlinum.“

Guðrún stundaði nám við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar 1950-53, lauk leikaraprófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1956 og frá The Central School of Speach Training and Dramatic Art í London 1958.

Guðrún hóf leikferilinn í Þjóðleikhúsinu, var leikari við Leikfélag Reykjavíkur frá 1959 en hún hefur leikið yfir 130 hlutverk. Hún var leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur, við Leikfélag Akureyrar, Leikfélag Kópavogs, Leikfélag Akraness og hjá Ríkisútvarpi og sjónvarpi.

Leikverk eftir Guðrúnu og í hennar leikstjórn eru m.a. Kaj Munk, sem var leikið í Hallgrímskirkju, í Vartov-kirkju í Kaupmannahöfn og í Veddersö þar sem Kaj Munk var prestur í 20 ár. Fyrir verkið var hún sæmd Kaj Munk-verðlaununum. Hún samdi leikritið Heilagir syndarar, sem var leikið í Grafarvogskirkju, og leikritið Ólafíu, um Ólafíu Jóhannsdóttur, frumsýnt í Mosfellskirkju og einnig leikið í Skálholti, Fríkirkjunni í Reykjavík og í norskri þýðingu í Jakobskirken í Oslo. Iðnó sýndi svo verk hennar Upp með teppið Sólmundur, sem fjallaði um sögu LR.

Guðrún skrifaði barnabókina Lómu og óperuna Skáldið og biskupsdótturina, skrifað í samvinnu við Rúnar Kristjánsson skáld, en tónlistina samdi Alexandra Chernyshova. Guðrún hefur auk þess samið, uppfært og sýnt víða um land dagskrárnar Fjársjóð minninganna, Og þá kom stríðið og Jól í Kallafjöllum.

Guðrún hélt upp á 50 ára leikafmæli sitt með einleiknum Ævintýri í Iðnó, 2005, en þar sá Ragnar, sonur hennar, um leikmyndina og Sigrún Edda, dóttir hennar, var leikstjóri

Guðrún var borgarfulltrúi 2006-2010 og sat í ferða- og menningarmálanefnd. Ævisaga hennar, Ég og lífið, skráð af Ingu Huld Hákonardóttur, kom út 1989.

Sunnudagana 6.12. og 13.12. kl. 15 verður Guðrún með jóladagskrá í Hannesarholti ásamt Alexöndru Chernyshovu og Moniku Abendroth. Besta afmælisgjöfin yrði sú að vinir og vandamenn vildu skemmta sér þar með þeim.

Fjölskylda

Eiginmaður Guðrúnar er Birgir Matthíasson, f. 10.10. 1937, trjáræktarb. Foreldrar: Steinunn Guðjónsdóttir og Matthías Þórólfsson.

Fyrri makar Guðrúnar: Björn Björnsson, f. 9.3. 1933, d. 29.11. 2008, flugvélstjóri, flugvirki og síðar deildarstjóri Flugmálastjónar, og Kjartan Ragnarsson, f. 18.9. 1945, leikari, leikstjóri og leikritahöfundur með Landnámssetur Íslands.

Börn Guðrúnar eru Sigrún Edda Björnsdóttir, f. 30.8. 1958, leikkona, leikstjóri og rithöfundur í Reykjavík, en maður hennar er Axel Hallkell Jóhannsson, leikmyndateiknari, tónlistarmaður og myndlistarmaður; Leifur Björn Björnsson, f. 28.10. 1966, tölvufræðingur og frumkvöðull með fyrirtækið Locatify sem hann rekur ásamt konu sinni Steinunni Önnu Gunnlaugsdóttur; Ragnar Kjartansson, f. 3.2. 1976, myndlistarmaður í Reykjavík, en unnusta hans er Ingibjörg Sigurjónsdóttir myndlistarkona.

Barnabörnin eru Guðrún Birna Jóhannsdóttir, f. 1978, mannfræðingur; Kormákur Örn Axelsson, f. 1990, stjórnmálafræðingur; Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, f. 1988, sviðslistakona og leikritaskáld; Rakel Mjöll Leifsdóttir, f. 1989, myndlistarkona og söngkona; Viktor Már Leifsson, f. 1991, listdansari; Íris María Leifsdóttir, f. 1993, nemi í félagsfræði við HÍ, og Sólveig Katrín Ragnarsdóttir, f. 2010.

Albróðir Guðrúnar er Páll Ásmundsson, f. 23.2. 1933, læknir í Reykjavík.

Hálfsystkini Guðrúnar, samfeðra: Selma Ásmundsdóttir, f. 24.2. 1915, d. 12.11. 1997, húsfreyja í Reykjavík; Halldór Magnús Ásmundsson, f. 21.8. 1916, d. 26.1. 1984, bifvélavirki í Reykjavík; Alma Ásmundsdóttir, f. 6.9. 1921, d. 29.9. 2003, saumakona í Reykjavík; Andrés Ásmundsson, f. 11.8. 1924, d. 4.6. 2002, verkamaður í Reykjavík

Uppeldissystir Guðrúnar var Guðrún Ásmundsdóttir, f. 21.5. 1927, d. 2.9. 1980, húsfreyja í Reykjavík.

Foreldrar Guðrúnar voru Ásmundur Gestsson, f. 17.6. 1873, d. 11.2. 1954, skólastjóri í Lýðskólanum á Bergstaðastræti í Reykjavík, og Sigurlaug Pálsdóttir f. 9.4. 1896, d. 2.9. 1939, húsfreyja.