[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Vísbendingar eru um að breyting hafi orðið á viðhorfi flóttamanna til framtíðarbúsetu á Íslandi.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Vísbendingar eru um að breyting hafi orðið á viðhorfi flóttamanna til framtíðarbúsetu á Íslandi. Þannig kom fram í skýrslunni Flóttabörn á Íslandi: rannsókn á viðhorfum og reynslu flóttabarna , sem náði til áranna 2001-08, að meirihluti þátttakenda sá ekki fyrir sér framtíð á Íslandi.

Sagði þar orðrétt: „Þótt viðmælendum liði almennt vel á Íslandi og fyndist gott að búa hér á landi sáu þau ekki fyrir sér að búa á Íslandi í framtíðinni. Mörg barnanna sáu fyrir sér að vilja búa í öðru landi í framtíðinni þar sem móðurmálið er talað eða í landi þar sem menning er svipuð og í heimalandi eða þar sem möguleiki er á að tala önnur tungumál en íslensku, t.d. ensku.

Sum sáu fyrir sér að vilja búa í landi þar sem ættingjar og vinir þeirra höfðu flust til. Sum vildu einnig búa í landi þar sem væri heitara loftslag. Nokkur barnanna sáu þó fyrir sér líf á Íslandi í framtíðinni,“ sagði m.a. í rannsókninni en tekin voru viðtöl við fjórtán flóttabörn á aldrinum 10 til 18 ára.

Ísland nú ákvörðunarstaður

Áshildur Linnet, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi, segir aðspurð að þetta hafi breyst.

„Á þessum tíma, frá 2001-2008, voru nánast allir hælisleitendur á leið vestur um haf, annaðhvort til Kanada eða Bandaríkjanna, og voru teknir í vegabréfaeftirliti í þeim löndum. Það hefur orðið heilmikil breyting á þessu. Mun stærri hópur er nú með Ísland sem ákvörðunarstað. Við heyrum það í samtölum við fólk og merkjum greinilega breytingu ... Maki og börn eiga skýran rétt til að koma hingað. Þá er það velferðarráðuneytið sem tekur við af innanríkisráðuneytinu. Þessi sameiningarmál eru unnin í samstarfi Félagsþjónustunnar, Rauða krossins og velferðarráðuneytisins.“

Áshildur segir aðspurð að útlit sé fyrir frekari straum hælisleitenda og flóttamanna til Íslands.

„Ef álagið í öðrum Evrópuríkjum er mikið er alltaf líklegra að fólk haldi lengra áfram. Þar sem Ísland er landfræðilega langt í burtu er ekki óvarlegt að ætla að við fáum frekari straum. Nú koma 200 flóttamenn til Svíþjóðar á dag. Þannig að álagið á kerfin á hinum Norðurlöndunum er orðið mikið.

Það er ekkert ólíklegt að fólk haldi áfram þangað þar sem það telur að það fái meðferð sinna mála og þar sem álagið er hugsanlega ekki eins mikið. Menn meta það þegar þeir eru lagðir af stað. Þá getur ýmislegt orðið til þess að fólk heldur áfram ferðinni.“

Áshildur segir að í desember í fyrra hafi 27 hælisleitendur komið til Íslands. Alls 55 kvótaflóttamenn muni koma til Íslands í desember og stjórnvöld boðað að annar eins fjöldi, ef ekki fleiri, muni koma á næsta ári.

Geta kært til nefndarinnar

Fram kom í Morgunblaðinu í gær að 290 manns hafi sótt um hæli á Íslandi í ár til og með 17. nóvember. Ef Útlendingastofnun synjar umsókn um hæli er hægt að kæra þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála.

Hjörtur Bragi Sverrisson er formaður kærunefndarinnar. Nefndin hóf störf í febrúar í ár. Á níu mánaða tímabili fram að lokum október voru 65 efnisúrskurðir kveðnir upp í hælismálum, þar af 28 í Dyflinnarmálum. Skipting þessara mála eftir flokkum er sýnd á grafinu hér til hliðar. Má þar sjá að það hefur gerst í samtals 23 málum (16 mál önnur en Dyflinnarmál og 7 Dyflinnarmál) að kærunefndin hefur ekki verið sammála Útlendingastofnun.

Til upprifjunar er Dyflinnarsamstarfið hluti af Schengen-samstarfinu og varðar málsmeðferð í málefnum hælisleitenda. Markmiðið er að koma í veg fyrir að ríkisborgari þriðja ríkis ferðist milli Schengen-landa og sæki um hæli í hverju ríki.

Aðstæður geta breyst

Hjörtur Bragi segir að ekki megi lesa of mikið úr þessari tölfræði.

„Úr þessum tölum má ekki lesa að við höfum verið ósammála Útlendingastofnun í 23 málum. Oft er um það að ræða að aðstæður hafa breyst eða ný gögn hafa komið fram sem hafa kallað á aðra niðurstöðu. Ég hugsa að ný gögn eða breyttar aðstæður hafi verið ástæðan í um það bil helmingi tilfella þegar við felldum úr gildi eða breyttum ákvörðun Útlendingastofnunar.

Til viðbótar þessum 65 efnisúrskurðum hefur nefndin kveðið upp um 22 úrskurði í málum þar sem óskað hefur verið eftir frestun á réttaráhrifum efnisúrskurða nefndarinnar í hælismálum á meðan mál er til meðferðar hjá dómstólum. Nefndin hefur tvisvar fallist á slíka frestun réttaráhrifa,“ segir hann.

Samtals 166 mál á árinu

Hjörtur Bragi bendir á að nefndin sinni einnig kærum vegna höfnunar á umsókn um dvalarleyfi, búsetuleyfi, útgáfu vegabréfsáritunar og kærum vegna brottvísana.

„Heildarfjöldi úrskurða frá okkur á þessu tímabili er 166 og 18 málum hefur verið lokið án úrskurðar, vegna afturkallana eða sameiningar við önnur mál.“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir brýnt að meta hvaða þjónustu þarf að veita börnum foreldra með stöðu flóttafólks og hælisleitenda. Til dæmis varðandi sálfræðimeðferð, sértæka aðstoð og túlkaþjónustu.