Skemmtileg handavinna Thelma og Helga Hillers segja sörubaksturinn vera skemmtilega samverustund þar sem þær njóti þess að hjálpast að og spjalla.
Skemmtileg handavinna Thelma og Helga Hillers segja sörubaksturinn vera skemmtilega samverustund þar sem þær njóti þess að hjálpast að og spjalla. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söru Bernharðs má vel kalla drottningu jólasmákakanna, enda eru sörur algjört sælgæti sem sómir sér vel á jólaborðinu.

Söru Bernharðs má vel kalla drottningu jólasmákakanna, enda eru sörur algjört sælgæti sem sómir sér vel á jólaborðinu. Baksturinn á þessu hnossgæti vex þó sumum í augum, en svo þarf ekki að vera, því þó að sörubakstur sé töluverð handavinna, þá er hann alls ekki flókinn, segja þær Thelma og Helga Hillers.

Dagstund eina í nóvember sl. 20 ár hefur hópur kvenna komið saman og hjálpast að við að gera sörur. Þetta eru systurnar Helga og Thelma Hillers, móðir þeirra, Anna Friðbjarnardóttir, og svo Jenný Björgvinsdóttir, Ingibjörg Jónsdóttir og Edda Guðmundsdóttir. Fyrir nokkru bættist svo tengdadóttir Helgu, Ólöf Karítas Þrastardóttir, í hóp bakaranna.

„Ég var nýlega að róta í skúffu heima og fann þar kvittanirnar fyrir hráefninu sem við keyptum í fyrsta sörubaksturinn. Það var 23. nóvember 1995 og reikningurinn hljóðaði upp á 8.000 krónur. Fyrir þá upphæð bökuðum við 2.000 sörur,“ segir Helga. Fyrstu tvö árin sáu þær Anna alfarið um að baka botnana, en hinar í hópnum hjálpuðust svo að við að setja á kremið. „Þetta var alveg heilsdagsvinna,“ viðurkennir Helga, „en nú orðið bakar hver okkar sína botna og við komum svo saman og hjálpumst að við að setja kremið á og hjúpa.“

Sörur með jólaklippingunni

Sörunum hefur fækkað eitthvað með tímanum og í dag láta þær flestar sér duga að baka ein- eða tvöfalda uppskrift. Ingibjörg, sem er hárgreiðslumeistarinn í hópnum, er þó ívið stórtækari og leyfir kúnnum sínum að njóta góðs af bakstrinum er þeir mæta í jólaklippinguna.

Sama uppskrift hefur verið notuð öll árin í sörubaksturinn. „Mamma fékk box með sörum að gjöf frá Ingibjörgu frænku ein jólin og með fylgdi uppskrift að kökunum, og það er uppskriftin sem við erum búnar að vera að nota síðan,“ segir Helga. Þó að uppskriftin sé og hafi verið sú sama verða kökurnar jafn ólíkar og bakararnir. „Það er alltaf voða gaman að sjá botnana hjá hinum þegar við hittumst,“ segir Thelma. „Kökurnar líta alltaf mjög ólíkt út þrátt fyrir að uppskriftin sé sú sama, því sumar vilja t.d. hafa kökurnar stærri en aðrar minni.

Síðan notum við ekki allar sama hjúpinn. Ein vill til dæmis nota appelsínuhjúp, önnur dökkan hjúp, sú þriðja kýs ljósan hjúp og loks vill sú fjórða kannski blanda saman dökku og ljósu súkkulaði. Þannig er það líka að þó að kökurnar bragðist kannski eins í grunninn, þá getur útfærslan verið misjöfn,“ bætir hún við. Ljóst Opal-hjúpsúkkulaði var sá hjúpur sem reyndist best að mati þeirra systra, „en hann fæst nú ekki lengur og þá notar maður bara annað ljóst hjúpsúkkulaði,“ segir Helga.

Stelpur, það klikkar alltaf eitthvað!

Kökubaksturinn hefur ekki alltaf gengið áfallalaust fyrir sig á þessum tuttugu árum og ýmis ráð hafa bæst í reynslubankann á þeim tíma.

„Eitt árið kom Jenný til okkar með tárin í augunum og sagði: „Stelpur, ég er búin að baka uppskriftina fjórum sinnum og það klikkar alltaf eitthvað!““ rifjar Helga upp. „Við spurðum náttúrlega: „Og hvað gerirðu?“ „Ég geri allt eins og segir í uppskriftinni,“ svaraði Jenný þá.“ „Hún sýndi okkur síðan kökurnar og þær voru bæði seigar og svampkenndar,“ bætir Thelma við. „Jenný var því spurð: „Seturðu ekki 3 og ¼ dl af sykri út í?“ „3 og einn fjórða – ég set bara ¾ dl,“ var svarið hjá Jennýju,“ segir Helga og það er hlegið að minningunni.

Ýmis ráð til hagræðingar og vinnusparnaðar hafa líka bæst í sarpinn. „Á hverju ári er maður að rifja ýmsa þætti bakstursins upp aftur. Var t.d. síðast bakað á tveimur hæðum eða þremur?“ segir Helga. „Annað gleymist ekki, við höfum t.d. komist að því að það hentar einkar vel að raða sörunum á álgrillbakka fyrir grænmeti á meðan verið er að kæla þær í ísskáp. Þær standa svo vel í bökkunum.“ Eins eru bestu boxin til að geyma sörurnar í frystinum plastbox, líkt og sjoppur nota, fyrir hlaup og annað nammi.

„Síðan hefur einnig lærst að það má vel nota venjulegt síróp í kremið í stað þess að vera að búa til sykursíróp og spara þannig tíma,“ bætir Thelma við. „Já, og svo er ég farin að setja smá flórsykur út í kremið, sem er í grunninn bara smjör, því þannig heldur það sér betur,“ útskýrir Helga. Ný aðferð við að bræða súkkulaðið lærðist svo á konfektnámskeiði í fyrra, en venjan var að bræða allt súkkulaðið í örbylgjuofni í einu. „En þarna lærðum við að bræða helming súkkulaðisins og setja það svo saman við hinn hlutann og hræra í þar til allt súkkulaðið hefur bráðnað. Með þessu móti fær maður rétt hitastig á súkkulaðið og nær að tempra það. Við þetta verður áferðin á kökunum líka miklu fallegri.“

Hættulega góðar kökur

„Það er ýmislegt svona sem maður lærir af reynslunni og raunar annað líka,“ segir Thelma. „Ég man til dæmis að fyrir mörgum árum kom mágur minn í heimsókn snemma í desember og ég ætlaði að vera flott á því og bjóða honum upp á sörur.“ Sörurnar eru algjörar sparikökur og að mestu geymdar til jóla. „Nema hvað, að þessu sinni urðu mér á þau mistök að setja kökuboxið á borðið í stað þess að bera kökurnar fram í skál eins og ég geri venjulega. Og heldurðu ekki að honum hafi fundist kökurnar líka svona ofsalega góðar að hann eiginlega lá á beit. Ég var farin að ókyrrast verulega yfir því hve hratt lækkaði í boxinu en kunni samt ekki við að segja neitt,“ segir hún hlæjandi og tekur fram að eftir þetta séu sörurnar bara bornar fram í skál!

Fleiri hafa átt erfitt með að standast þessa freistingu og rifja þær upp að eitt árið hafi ein frænka þeirra bakað sörur fyrir fermingu yngri dóttur sinnar. „Hún gerði þetta vel í tíma, en síðan þegar bera átti sörurnar fram á fermingardaginn reyndist boxið næstum tómt. Þá var dóttir hennar búin að vera að laumast í eina og eina köku í langan tíma,“ segir Thelma og hlær.

Handavinna í góðum félagsskap

Oft heyrist talað um að það sé flókið að baka sörur, en þær segja að svo sé ekki. „Þetta er eiginlega bara handavinna,“ segir Thelma og þess vegna sé gaman hjálpast að og njóta þess að sitja og spjalla við sörugerðina. „Við tökum venjulega einn eftirmiðdag eða kvöldstund í þetta og njótum þess að borða saman í leiðinni. Einu sinni fórum við meira að segja saman í bústað. Við hittumst ekki allar það oft núorðið og þess vegna er þetta kærkomið tækifæri til að hittast og hafa gaman af.“

aseinars@gmail.com

Söru Bernharðs-kökur

80-100 kökur

Botn:

200 g möndlur, fínt malaðar

3 ¼ dl flórsykur

3 eggjahvítur

Smjörkrem:

¾ dl sykur

¾ dl vatn

(eða notið 1 msk. síróp í stað þess að búa til sykursíróp)

3 eggjarauður

150 g smjör

1 msk. kakó

1 tsk. kaffiduft

u.þ.b. 250 g hjúpsúkkulaði

Ofnhiti 180°C

Stífþeytið eggjahvíturnar í 13 mínútur. Blandið saman fínt möluðum möndlunum og flórsykrinum og setjið varlega saman við eggjahvíturnar. Setjið deigið með teskeið á bökunarpappír og bakið í 15 mín. Látið kólna alveg.

Kremið: Vatn og sykur soðið saman í síróp, það tekur u.þ.b. 8-10 mínútur (eða notið 1 msk. af venjulegu sírópi í staðinn). Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru kremgular og þykkar og hellið sírópinu út í, í mjórri bunu og þeytið á meðan. Þetta er látið kólna og síðan er mjúkt smjörið þeytt saman við. Nú er kakó og kaffi sett út í og kremið tilbúið, en kremið þarf þó að kólna vel áður en það er sett á kökurnar.

Bræðið hjúpsúkkulaði í vatnsbaði (eða örbylgjuofni) og gætið þess vel að ekki komist vatn í súkkulaðið. Það er svo látið kólna niður í u.þ.b. 40°C áður en farið er að hjúpa með því. Setjið þykkt lag af kremi neðan á hverja köku og kælið kökuna áður en kremhlið hennar er dýft ofan í súkkulaðið.