Landeyjahöfn Dýpkunarskipið Dísa hefur dýpkað innan og utan hafnar.
Landeyjahöfn Dýpkunarskipið Dísa hefur dýpkað innan og utan hafnar. — Morgunblaðið/GSH
Dýpkunarskipið Dísa vinnur nú að viðhaldsdýpkun í og við Landeyjahöfn. Menn eru langt komnir með að fjarlægja um 50 þúsund rúmmetra af sandi sem taka á í þessari umferð úr höfninni, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Dýpkunarskipið Dísa vinnur nú að viðhaldsdýpkun í og við Landeyjahöfn. Menn eru langt komnir með að fjarlægja um 50 þúsund rúmmetra af sandi sem taka á í þessari umferð úr höfninni, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Belgíska sanddæluskipið Toccola lauk fyrir nokkru við að dæla upp um 300 þúsund rúmmetrum fyrir utan hafnarmynnið. Aftur er von á belgísku dýpkunarskipi næsta vor.

Stöðugt berst sandur inn í höfnina og fyllir í þar sem dýpkað er. Miðað við aðstæður er talið að dýpið í hafnarmynninu verði ekki mikið meira en 5 metrar á stórstraumsfjöru í vetur. Það getur verið of lítið fyrir Herjólf þegar er lágsjávað, sérstaklega ef það er einhver ölduhreyfing.

Herjólfur hefur yfirleitt getað siglt í Landeyjahöfn fram í nóvemberlok eða byrjun desember. Það fer þó eftir veðri og aðstæðum hvenær tekur fyrir siglingar Herjólfs í höfnina. gudni@mbl.is