Bannað Björk Eiðsdóttir: „Eitt jólalag hefur sérstöðu, það er svo vont; Nei, nei ekki um jólin. Afsakið HLH en orðin „klár og kúl“ ættu ekki að vera leyfð í jólalagi.“
Bannað Björk Eiðsdóttir: „Eitt jólalag hefur sérstöðu, það er svo vont; Nei, nei ekki um jólin. Afsakið HLH en orðin „klár og kúl“ ættu ekki að vera leyfð í jólalagi.“ — Morgunblaðið/Eva Björk
KK og Ellen eru æðislegur dúett.

Jólin og aðventan eru alltaf tími tilhlökkunar og þau eru langbest á Íslandi en þessi árstími gerir jafnvel hörðustu nagla svolítið meyra og nostalgíska. Tónlistin sem kemur mér í jólaskap er tvímælalaust Ef ég nenni með Helga Björns, mér er alveg sama hvað hver segir um textann. Svo er það Þú komst með jólin til mín, sem gerir það einmitt, kemur með jólin til mín.“

Hefðir á jólum, sækirðu jólatónleika?

„Undanfarin ár hafa Baggalútstónleikar verið ófrávíkjanleg hefð. Í ár er planið þó að breyta til og sjá Sigurð Guðmundsson og Sigríði Thorlacius. Ég hef hlustað á Sigurð syngja eitt af mínum uppáhaldsjólalögum sem gestur Baggalúts og hlakka mikið til að sjá þann flutning aftur.“

Hátíðlegasta tónlistin?

„Kirkjuklukkurnar klukkan 18:00 á aðfangadag, þær eru tónlist í mínum eyrum.“

María furðuhress

Góðar minningar frá jólum, tengdar tónlist?

„Sagan af Jesúsi með Baggalút er eitt þeirra fjölmörgu jólalaga sem vekja góðar minningar. Það var á skólakórstónleikum frumburðarins sem ég heyrði lagið í fyrsta sinn, en við vorum þá nýkomin heim frá námi í Bandaríkjunum þar sem Baggalútur fékk litla spilun á ljósvakamiðlum. Ég verð að viðurkenna að þegar börnin sungu af innlifun: Jósep sendi sms og María var bara furðuhress... og þar fram eftir götunum hélt ég að þjóðin væri á glapstigum, en lærði svo auðvitað að meta lagið eins og flest önnur með þessari ágætu sveit.“

Texti sem höfðar sérstaklega til þín?

„White Wine in the Sun með Tim Minchin. Þetta er hinn fullkomni texti trúleysingjans, sem elskar þó jólahátíðina. Lagið fangar stemninguna svo vel og snertir hjarta mitt við hverja hlustun. Það eina sem er aðeins úr takti við íslenskan veruleika er hvítvínið í sólinni á jólum, enda er sungið um aðstæður hinum megin á hnettinum.“

Tregafullt lag

Eftirlætisjólaplatan?

„Nú stendur mikið til með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni. Og svo má ekki gleyma Verkstæði jólasveinanna sem ég spilaði upp til agna í æsku.“

Besta lagið?

„Það snjóar með Sigurði Guðmundssyni, fagurt og tregafullt, eins og jólin geta verið.“

Jóladúettinn sem stendur upp úr?

„KK og Ellen eru auðvitað æðislegur dúett á þessum árstíma sem og öðrum.“

Jólatónlistin sem hitti ekki í mark?

„Versta jólaplatan er án nokkurs vafa Merry Christmas með Mariah Carey, af augljósum ástæðum. Eitt jólalag hefur sérstöðu, það er svo vont; Nei, nei ekki um jólin. Afsakið HLH en orðin „klár og kúl“ ættu ekki að vera leyfð í jólalagi.“

Legið í myrkri

Jólalög sem eldast vel?

„White Christmas, Little Drummerboy, Do they know it's Christmas – tímalausir klassíkerar.“

Ofmetnasta jólalagið?

„Heims um ból. Það veit enginn hvað er að vera meinvillur liggjandi í myrkri og ég er alltof hás til að syngja með.“

Jólalagið sem heyrist of oft?

„Flest jólalög heyrast of oft. Um miðjan desember eru öll þessi uppáhaldslög mín líka orðin þreytt, því miður.“

beggo@mbl.is