Kósíjól „Ég hef aldrei skilið menn sem geta borðað með girt ofan í og nenna að hanga í jakkafötum. Það verður möndlugrautur, hryggur og desert. Svo fá allir að opna einn pakka fyrir matinn. Þá tekur bara við þetta venjulega sem allir gera; feluleikur, Passenger 57 og andaglas,“ segir Steindi Jr. um jólin.
Kósíjól „Ég hef aldrei skilið menn sem geta borðað með girt ofan í og nenna að hanga í jakkafötum. Það verður möndlugrautur, hryggur og desert. Svo fá allir að opna einn pakka fyrir matinn. Þá tekur bara við þetta venjulega sem allir gera; feluleikur, Passenger 57 og andaglas,“ segir Steindi Jr. um jólin. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Hróar Steinþórsson þekkja landsmenn flestir sem skemmtikraftinn, sjónvarpsmanninn og gleðigjafann Steinda jr.

Steinþór Hróar Steinþórsson þekkja landsmenn flestir sem skemmtikraftinn, sjónvarpsmanninn og gleðigjafann Steinda jr. Hann hefur ekki síst getið sér gott orð fyrir býsna súrt skopskyn og blaðamaður mátti víst vita í hvað stefndi þegar kappinn var fenginn í viðtal fyrir Jólablaðið. Spjallið reyndist nefnilegt jafnsúrt og það varð skemmtilegt – rétt eins og Steindi er sjálfur.

Það var fyrir einhverja hugdettu sem undirrituðum flaug í hug hvort ekki væri ráð að fá þennan glaðlega unga mann í jólaspjall, líkast til af því hugboðið sagði að líkast til yrði ekki úr því hefðbundið jólaspjall um kerti og spil. Það reyndist heldur betur raunin, á minn sann. Meira að segja þótt varlega væri til jarðar stigið og spurt varfærnislega út í eftirminnileg jól úr æsku. Það getur varla klikkað?

„Eftirminnilegasta jólaminningin mín úr æsku tengist einmitt blaðinu Æskunni,“ svarar Steindi. „Ég var á forsíðu jólablaðsins árið 1991. Stelpan sem átti einnig að vera á myndinni mætti ekki svo ég var settur í hennar föt og látinn fá hárkollu. Ég sagði engum vinum mínum frá þessu.“ Það var og. Afrakstur þessarar eftirminnilegu myndatöku má sjá hér á síðunni. Ekki verður annað sagt en vel hafi tekist til, miðað við aðstæður og allt. En þetta mergjaða jólaleyndarmál er hér með opinbert.

Jólahefðir Steinda fyrr og nú

Talið berst að jólahefðum, sem tilheyra jú jólahaldinu víðast hvar og svo reynist líka hafa verið hjá okkar manni. „Já, það er ein hefð sem er mjög merkileg og mjög skrýtin,“ segir Steindi og verður leyndardómsfullur á svip. Ég veit ekki hvort aðrar fjölskyldur hafa gert þetta, ég held að þetta sé einsdæmi.“

Hann lítur á blaðamann.

„Þú átt eflaust ekki eftir að skilja þetta, en svona er hún: Pabbi sýður graut, hann er ekkert spes og hann er kaldur. Hann er það, alveg ískaldur. Svo er möndlu troðið á kaf í grautinn, en bara í eina skál. Já ég sagði möndlu. Svo felum við skálina innan um allar hinar skálarnar og mandlan týnist. Svo sá sem fær hana vinnur. Fær verðlaun. Og allir klappa.“

Á minn sann. Og hvað með jólin nú til dags, þegar Steindi er orðinn húsbóndi á eigin heimili? Það lifnar yfir honum þegar í stað.

„Við fjölskyldan erum að fara að halda jólin í fyrsta skipti, tengdó og bróðir kærustunnar verða hjá okkur. Það vera ekki spariföt, heldur jólapeysur og joggarar.“ Steindi verður spekingslegur á svip og krossleggur hendur.

„Ég hef aldrei skilið menn sem geta borðað með gyrt ofan í og nenna að hanga í jakkafötum. Það verður möndlugrautur, hryggur og desert. Svo fá allir að opna einn pakka fyrir matinn. Þá tekur bara við þetta venjulega sem allir gera; feluleikur, Passenger 57 og andaglas.“

Á nærbuxunum um jólin

Flestir eiga sér ýmislegt matarkyns sem þeir verða að fá að smakka á aðventunni ef jólin eiga á annað borð að koma. Hvað er það sem felur í sér hið sanna bragð jólanna fyrir Steinda jr.? Hvað er það sem hann verður bara að fá að smakka?

„Mandarínur, piparkökur, Mackintosh, sykurpúðar, sykursnúðar, sykruð lúða, sykruð rúða, og að úða á... Hver var aftur spurningin?“

Blaðamaður dæsir. Skiptir engu. Nógu mergjað er svarið!

Ég spyr hann heldur hvort hann sé jólabarn í hjarta sér enn í dag og hvernig pakkar fái helst hjartað til að slá svolítið örar á aðfangadag.

„Ég er mjög mikið jólabarn, ég byrja yfirleitt að skreyta í ágúst,“ svarar Steindi að bragði. „Þegar kemur að pökkunum finnst mér pappírinn mikilvægari en gjafirnar, ég þroskaðist eiginlega aldrei upp úr því tímabili.“

Er það svo, já?

„Það er hrikalega gaman að fá mjög vel pakkaðan pakka, best ef öll pappírsrúllan hefur verið notuð í gjöfina. Svo situr maður allt kvöldið að slíta þetta upp með tönnunum,“ útskýrir Steindi og ljómar við tilhugsunina. „Stundum er þetta bara vel innpökkuð sítróna eða eitthvað svoleiðis. Og þeir sem þekkja mig best gefa mér ekkert, bara pappír, vel límdan.“

Þá vita vinir og ættingjar það hvað hittir piltinn í hjartastað.

Steindi er loks inntur eftir því hvort hann hyggist taka því rólega um jólin eða verður hann ef til vill í vinnunni?

„Ég er í tökum fyrir áramótaskaupið og svo er ég að skrifa sjónvarpsseríu sem þarf að klárast í lok desember, svo það verður smástress. Dálítið eins og að vera 6-0 undir í ping pong.“ Ég kinka kolli; þetta skilja jú allir sem flókna stöðu að vera í.

„En ég mun skrifa á nærbuxunum með jólabjór... kaupi kannski smá jólapappír og geri vel við mig.“

Nema hvað – maður á jú að gera vel við sig á jólunum, ef einhvern tímann.

jonagnar@mbl.is