Fótbolti Útsendingar frá íþróttum skaprauna mörgum.
Fótbolti Útsendingar frá íþróttum skaprauna mörgum. — Morgunblaðið/Golli
Mikið óskaplega var það vel til fundið hjá RÚV að nýta aukarásina til þess að senda beint út frá vináttulandsleikjum knattspyrnulandsliðs karla gegn landsliðum Pólverja og Slóvaka.

Mikið óskaplega var það vel til fundið hjá RÚV að nýta aukarásina til þess að senda beint út frá vináttulandsleikjum knattspyrnulandsliðs karla gegn landsliðum Pólverja og Slóvaka. Eins var rásin nýtt til að sýna frá nokkrum landsleikjum í Gullmótinu í handknattleik fyrir nærri hálfum mánuði.

Hliðarrásina, kölluð RÚV2, má nota miklu meira til þess að sýna frá ýmsum viðburðum, s.s. íþróttum, ekki síst þegar viðburðirnir fara fram á þeim tíma sem flestir setjast fyrir framan viðtækin.

Þannig er nú einu sinni svo að útsendingar frá íþróttaviðburðum á „besta tíma“ eru mörgun til mikillar skapraunar. Meðal þeirra eru nokkur skyldmenni mín. Þau sjá hreinlega rautt þegar íþróttakappleikir birtast á skjánum. Þessu fólki hefur öllu liðið miklu betur síðustu daga þegar fréttir, veðurfregnir, kastljós, Landinn og fleiri þættir hafa verið á réttum tíma. Blóðþrýstingurinn hefur örugglega lækkað um leið.

Það er örugglega mesta heilsubót að því að flytja meira íþróttaefni yfir á hliðarrásina þótt útsendingar hennar nái ekki inn á öll heimili landsins enn sem komið er.

Ívar Benediktsson