Fallegt „Það snjóar með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni er lag sem ég gæti hlustað á allan ársins hring því það er svo sjúklega flott,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson.
Fallegt „Það snjóar með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni er lag sem ég gæti hlustað á allan ársins hring því það er svo sjúklega flott,“ segir Guðfinnur Sigurvinsson. — Morgunblaðið/Eggert
Ég verð aldrei leiður á Heims um ból.

Jólin eru minn eftirlætistími. Ég hugsa til jólanna á öllum tímum árs, hvernig ég vilji hafa hlutina næst, og hef nokkrum sinnum keypt jólaskraut í sumarfríinu. Mér finnst gaman að eignast skraut frá ólíkum löndum og á hverju ári vekur jólatréð á heimilinu góðar minningar um ánægjulega dvöl á fjarlægum slóðum.“

Hvenær finnst þér tímabært að byrja að leika jólalögin?

„Mér finnst skemmtilegast þegar Létt-Bylgjan og aðrar tónlistarstöðvar byrja fyrstar að spila jólalögin snemma í nóvember. Þá vil ég tryllingsjólalög frá 9. áratugnum, eins og Jól alla daga með Eiríki Hauks, Snjókorn falla með Ladda og Nei, nei ekki um jólin með Bjögga Halldórs. Svo hlusta ég í bílnum í tilhlökkunarrússi.“

Hin fyrstu jól

Jólalag í sérstöku uppáhaldi?

„Er líða fer að jólum með Ragga Bjarna er jólalagið mitt, það hefur verið svo frá barnæsku. Ég á óljósar bernskuminningar frá því þegar við vorum að keyra út pakka til stórfjölskyldunnar snemma á aðfangadag og vorum stödd fyrir utan heimili ömmu og afa á Hringbrautinni í Keflavík, þá hljómaði lagið í bílnum.

Nú þegar þau eru ekki lengur með okkur tengi ég þetta lag svo sterkt við þeirra minningu í sambandi við jól, en aðfangadagskvöld hjá afa og ömmu var miðpunktur jólahaldsins þegar ég var barn. Það er sérstök birta yfir þessum jólaminningum. Þótt ég sé farinn að nálgast miðjan aldur gerist alltaf eitthvað sérstakt innra með mér þegar ég heyri Ragga, sem er auðvitað söngvari í sérflokki, fyrst syngja lagið í útvarpinu um hver jól.“

Fleiri góð lög?

„Ég gæti talið upp ótalmörg önnur jólalög sem mér finnst best og á örugglega eftir að sjá eftir að hafa ekki nefnt fleiri. Það snjóar með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni er lag sem ég gæti hlustað á allan ársins hring því það er svo sjúklega flott. Gleði- og friðarjól með Pálma Gunnarssyni er dægurlag sem verður með tíð og tíma helgur sálmur, það snertir djúpan streng í mér. Hin fyrstu jól með Ingibjörgu Þorbergs er ekkert minna en himneskt lag. Svo má ekki gleyma jóladrottningunni Helgu Möller og laginu Í hátíðarskapi. Ég kæmist nú ekki í gegnum allt jólastússið án þess að hlusta á það aftur og aftur.“

Dolly og Kenny

Jólalagið sem þú verður aldrei leiður á?

„Heims um ból. Er einhver þreyttur á því?“

Bestu og verstu jólaplöturnar?

„Nú stendur mikið til með Sigurði Guðmundssyni og Memfismafíunni er besta jólaplatan að mínu mati. Við spilum á hana gat alla aðventuna og yfir jólin og hún kveikir á öllum tilfinningaskalanum sem tilheyrir árstímanum, instant klassík.

Hvað varðar vondu jólaplöturnar vil ég hvorki nefna einstaka listamenn né verk í því sambandi. Verst finnst mér samt svona misheppnað trúbadoragrín þar sem tilgangurinn er einhvern veginn að afhelga jólin og boðskap þeirra með því að snúa jólalögum upp í eitthvað klúrt og brenglað. Ég hef lítinn húmor fyrir því og finnst það á lágu plani.“

Besti jóladúettinn?

„Elly og Vilhjálmur á Íslandi og Dolly og Kenny á heimsvísu. Ég hef mikið dálæti á báðum þessum dúettum og spila þeirra plötur mikið á aðventunni og um jólin.“

Þrjú trompet

Ofmetnasta jólalagið?

„90% jólalaga eru auðvitað ofmetin í þeim skilningi að ef maður hlustaði á eitthvað í líkingu við þau á öðrum tímum árs ætti maður sárafáa vini.“

Jólalagið sem heyrist of oft?

„Ef ég nenni með Helga Björns og Ég hlakka svo til með Svölu Björgvins eru ekki endilega slæm lög, en þau þyldu klárlega minni spilun. Helgi og Svala eru hins vegar bæði æðisleg í The Voice Ísland sem ég sit límdur við öll föstudagskvöld og ég vil frekar sjá miklu meira af þeim þar.“

Jólatónleikar – árleg hefð?

„Já, heldur betur, við Símon eiginmaður minn förum nær alltaf í Langholtskirkju á árlega jólatónleika kórsins. Við erum hrifnari af kirkjutónleikum á aðventunni. Í fyrra breyttum við til og hlustuðum á Karlakór Reykjavíkur í Hallgrímskirkju og það var einnig dásamlegt.

Annar fastur punktur á jólum er Hátíðarhljómar við áramót sem Listvinafélag Hallgrímskirkju stendur fyrir klukkan fimm á gamlársdag; flutt er hátíðartónlist fyrir þrjú trompet, orgel og pákur. Tónleikarnir eru stórkostleg upplifun og í kirkjunni gefst mér tækifæri til að taka svolítið til í sálarlífinu við áramótin, kveðja gamla árið með virktum og þakklæti og fagna því nýja.“

beggo@mbl.is