Raflínur Landsnet ráðgerir ýmsar framkvæmdir við flutningskerfi raforku á næstu árum. Áætlun um það liggur nú til afgreiðslu hjá Orkustofnun.
Raflínur Landsnet ráðgerir ýmsar framkvæmdir við flutningskerfi raforku á næstu árum. Áætlun um það liggur nú til afgreiðslu hjá Orkustofnun. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Landsnet hefur nú lokið vinnu við kerfisáætlun til ársins 2024, framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára og umhverfisskýrslu kerfisáætlunar.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Landsnet hefur nú lokið vinnu við kerfisáætlun til ársins 2024, framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára og umhverfisskýrslu kerfisáætlunar. Eftir kynningar- og samráðsferli við hagsmunaaðila og almenning hefur áætlunin verið send til Orkustofnunar til samþykktar, til samræmis við breytingar sem Alþingi gerði á raforkulögum sl. vor.

Fjöldi athugasemda barst eða þrefalt fleiri en við núgildandi kerfisáætlun. Alls bárust um 60 athugasemdir frá félagasamtökum, einstaklingum, fyrirtækjum og sveitarfélögum. Í athugasemdunum er komið víða við, eins og varðandi forsendur áætlunarinnar og framtíðarsviðsmyndir, mat á framkvæmdaþörf, útfærslu jarðstrengslausna og áhrif á ferðaþjónustu.

Sæstrengur til Evrópu ekki til grundvallar

Í tilkynningu segist Landsnet almennt hafa tekið tillit til margvíslegra ábendinga sem fela m.a. í sér leiðréttingar eða skýrari framsetningu niðurstaðna. Meðal annars hefur verið skýrt betur að hugsanleg lagning sæstrengs til Evrópu er ekki lögð til grundvallar í matinu, enda var það bara aukakafli í skýrslunni og ekki beinn hluti af kerfisáætluninni.

Ekki eru forsendur til staðar hérlendis fyrir lagningu svokallaðs jarðstraumsjarðstrengs yfir hálendið né uppbyggingar meginflutningskerfisins á 134 kV spennu. Þá segir Landsnet að samráðið hafi dregið fram ýmsar ábendingar til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, eða koma í veg fyrir þau, og litið verði til þeirra ábendinga á seinni stigum einstakra verkefna.

Þó að Landsnet segist hafa tekið tillit til margvíslegra athugasemda er meginniðurstaða kerfisáætlunarinnar sú sama, að hálendisleið er talinn besti valkosturinn, svonefnd A1-leið, yfir Sprengisand og eftir Norðurlandi frá Blönduvirkjun til Akureyrar (Blöndulína 3) og þaðan austur í Fljótsdalsstöð. Mögulega verður um 50 km kafli á hálendinu lagður í jörðu, til að draga úr sjónrænum áhrifum.

Landsnet telur að þessi leið, sem er nokkurs konar blanda af hálendis- og byggðaleið, tryggi mestan stöðugleika í orkuafhendingu til framtíðar litið. Jafnframt sé þetta fljótlegasta leiðin til uppbyggingar kerfisins og sú umhverfisvænsta. „Þannig megi draga úr orkusóun sem nú er í kerfinu vegna takmarkaðrar flutningsgetu, auka orkuöryggi og stöðugleika í rekstri og koma þannig til móts við almenna byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á mörgum stöðum á landinu með flutningi á umhverfisvænni orku,“ segir á vef Landsnets.

Meira lagt í jörðu en áður

Einar Snorri Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnunarsviðs Landsnets, segir vinnuferil vegna kerfisáætlunar vera að slípast til, enda sé þetta bara í annað skiptið sem svona áætlunin sé framkvæmd. Vinnan verði betri og samráðið skilað fjölda ábendinga og athugasemda. „Við vinnum í opnu og gegnsæu ferli sem krefst samráðs,“ segir Einar og á ekki von á að þessi fjölgun athugasemda eigi eftir að gera Landsneti erfitt fyrir í framkvæmdum.

Unnið verður eftir því hjá Landsneti að leggja sem mest af raflínum í jörð, enda hafa stjórnvöld samþykkt stefnu um að leggja beri strengi í jörð þar sem aðstæður kalli á það.

Einar segir verð á jarðstrengjum almennt hafa lækkað og tæknin batnað. „Það er bara náttúruleg þróun að meira fari í jörð en hefur verið.“

Kerfisáætlun til 2024
» Landsnet telur að árleg fjárfestingaþörf sé 7-10 milljarðar króna, eða 70-100 milljarðar á næstu tíu árum.
» Ráðast á í miklar framkvæmdir til að bæta flutningskerfið, einkum á Norðausturlandi á næsta ári vegna stóriðju á Húsavík.