[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Bergsvein Birgisson. Bjartur, 2015. Innbundin, 252 bls.

Ein athyglisverðasta bókin sem kemur á markað þennan veturinn er Geirmundar saga heljarskinns , sem hefur undirtitilinn Íslenzkt fornrit . Höfundurinn, Bergsveinn Birgisson, sem hefur sent frá sér þrjár aðrar skáldsögur, kennir miðaldarbókmenntir í Noregi og gaf út á norsku fyrir tveimur árum fræðiritið Svarta víkinginn um Geirmund heljarskinn, sem mun hafa numið land við norðanverðan Breiðafjörð, og vakti bókin athygli. Bergsveinn gefur þá bók ekki út á íslensku nú heldur hefur skrifað sína Íslendingasögu um þennan mikilfenglega karakter, sem víða er getið í fornum sögnum, þó saga hans hafi ekki varðveist – og þó.

Geirmundar saga heljarskinns er sett fram eins og ný útgáfa í hinni gamalgrónu ritröð Íslensk fornrit. Á titilsíðu segir að Bergsveinn Birgisson hafi búið verkið til prentunar og hann skrifar undir tæplega sjötíu síðna langan formálann, sem er settur upp með sama hætti og lesendur fornritanna þekkja; fjallað er um söguefnið, vöngum velt yfir skrifurum og heimildum, spáð í tímatal, list og lífsskoðanir sem birtast í verkinu, og loks fjallað um feril handrita og útgáfu. Þeir lesendur sem eru vanir að lesa fornritin munu ganga óhikað inn í heim textans, sem er afar sannfærandi í allri framsetningu með tilheyrandi neðanmálsgreinum og textatenginum við „önnur“ fornrit. Jafnframt byrjar lesandinn að spyrja hvað er satt og hvað skáldað, hvaða heimildir eru raunverulegar, hvaða persóna og aðstæðna hefur verið getið í hinum fornu textum og hverju á að trúa. Og þetta er afar vel gert – og trúverðugt, svo langt sem það nær; vel lukkað sambland sögulegrar fölsunar og bókmenntalegra ærsla.

Söguhöfundur segir sögu Geirmundar ekki hafa komið fyrir sjónir almennings sökum brotakenndrar varðveislu og vissrar andúðar sem henni hefur fylgt. Hér á að vera fylgt afritun sögunnar síðan snemma á 15. öld en hún sögð rituð af Brandi príor í Flatey á 12. öld. Allt er það rakið og fullyrt að uppskrift Magnúsar hafi nýlega enn verið til á bæ einum á Vesturlandi og þeir bændur hafi fengið endurskoðandann Svan Kjerúlf til að afrita handritið. Hann á ekki að hafa verið menntaður í norrænum fræðum, hefur lítið þekkt til handrita- og leturfræða „og ber uppskrift hans þess merki“. Og er „það huggun harmi gegn að Svanur sýnir mikið samræmi í sínu ósamræmi og er því að vissu marki óútreiknanlegur. Gildir það einnig þar sem hann tekur sig til og yrkir inn í söguna,“ skrifar útgefandi og segir slík skrif Svans látin standa á einhverjum stöðum en lesanda er gert viðvart neðanmáls. (VI)

Svanur er sagður hafa sent vélritaða útgáfu sína af handritinu til þáverandi útgáfustjóra Fornritafélagsins, Sigurðar Nordal, sem hafnaði verkinu til útgáfu. Þá hefst viss harmleikur, að sögn útgefandans; Svanur hyggst gefa verkið út sjálfur en tekst ekki og gefur það að lokum handritadeild Landsbókasafnsins. Svanur notar hins vegar tækifæri í neðanmálsgreinum til að ráðast að prófessornum og er það eitt af mörgu broslegu sem höfundur laumar inn í marglaga verkið.

Leikið með forn stílbrögð

Um söguna sjálfa segir útgefandinn, eða höfundurinn, í formálanum: „Bygging sögunnar er eins og stíllinn annars, þar fléttast saman gaman og alvara, kómík og tragedía. Þessi fagurfræði andstæðra afla er sýnileg lífskennd að baki sögunni. Þetta er gamalt norrænt lífsviðhorf sem greina má skýrt í elstu dróttkvæðum og minnir helst á fagurfræði súrrealistanna ef jafna skal við nokkuð frá seinni tímum. Höfuðpersónan sjálf verður skurðpunktur slíkra andstæðuafla. Hann er lægstur og hæstur, barinn þræll og æðstur manna, auðmýktur og dýrkaður. Hann er maður andstæðra menningarheima.“ (XLIX)

Þarna er sögu Geirmundar og manninum sjálfum vel lýst; leikið er með forn stílbrögð með snjöllum vísunum í samtímann, og lykill að sögu hans er að hann er frábrugðinn öðrum norrænum mönnum í útliti, dökkur á hörund eins og móðurættin, Bjarmar, og það litar afstöðu annarra gagnvart honum og um leið sýn hans á heiminn og fólkið í kring. Geirmundur þarf að sanna sig og gerir það svo um munar; vinnur lönd á Íslandi, heldur þræla, efnast – og örlög hans eru æði dramatísk.

Útgefandinn segir að við endurgerð textans sé miðað „við rithátt um aldamótin 1400“ og stafsetning gerð sem aðgengilegust. Hún er því sú sem menn þekkja í Fornritaútgáfunni og á ekki að vera nokkurt vandamál fólki sem læst er á íslensku; eftir fyrstu síðu venst fólk rithættinum og getur dáðst að fimi höfundar í leiknum með forn orð og önnur ný sem hann klæðir í þann búning.

Eins og þekkist í öðrum Íslendingasögum er hér byrjað í Noregi þar sem rakin er saga forfeðra Geirmundar og er það kostulegt samansafn persóna sem aðhafast sitthvað misgáfulegt. Þessi lesandi saknaði þess að höfundur birti ekki ættartré eða kort yfir þetta persónugallerí, það hefði styrkt framsetninguna. Fljótlega kemur í ljós að höfundur, eða meintur ritari, kýs að lýsa helstu persónum ekki aðeins utan frá, eins og tíðkast í sögunum, heldur „vill afklæða Geirmund og hvatir hans, sýna inn í hug hans“. Þessum lesanda finnst stundum fulllangt gengið þegar kristin og mærðarfull rödd ritarans túlkar atburði og persónur, þó oft skapi það líka áhugaverðan leik. Það getur þó virkað vel í samhengi sögunnar, eins og þegar hugarangri Geirmundar er lýst: „var hann maður einreikull í hjarta, ok svá stór var hans einsemð, at eigi varð mælt í álnum eðr vættum, röstum eðr vikum; einmani hans var eigi mælanligt í jarðneskum mælieiningum“. (89)

Og textinn er yfirleitt bráðskemmtilegur. Mannlýsingar eru oft knappar en litríkar, og stutt í blautlegt hjal og ofbeldi, eins og í upphafi sögu: „Drottning hans hét Ása, ok svá væn at raun þótti á at líta“ og hældist Hvítingur „um drottning sína, sagði at margir váru þeir er grafa vildi slátr í“. Neðanmáls er á þessu skýring: „Þessi setning er sumpart óskiljanleg, en hér virðist slátr notað í yfirfærðri merkingu, og vísa til kynfæra mannsins, og andlagið falið, þ.e. grafa vildu slátr í [hana].“ (7)

Og það er stutt í farsann í leiknum með hefðina: „Þá sendi Gunnvaldr ör sína og kom millim þjóhnappa konungs ok smó inn í þarmaraufina með hljóði svá sem þá smellt er í góm. Stóð örin hálf út úr munni honum með fleskbita þann á oddi...“ (9)

Undir hlægilegum lýsingum er þó laumað inn umfjöllun um eðli sagnanna, eins og hvaða gallagripir þóttu sagna verðir í fyrndinni: „Um Hjör þenna vitu vér færra en fátt, ok má eigi skilja annan veg en at hann hafi lítill stríðsmaðr verit og í meðallagi lostigr til gulls ok kvenna, ok sætir þó tíðendum, er kjömr at slíkri ætt. En hér opinberast grimmileikr sögunnar því þeir inir vandræðalausu renna hjá í tímans flaum án þess vér merkjum þá, en hinir, með brestina, breiða úr sér í minni manna...“ (11)

Þá er tengt við Íslendingasögur með ýmsum hætti, gegnum atburði og persónur og má vel sjá hvað höfundur er vel að sér á þessu sviði, hvort sem hann beitir bara stílbrögðum eins og í mannlýsingum eða vísað er beint í kunnar persónur: „Hálfr var mestr víkinga allra tíma. Snúit hefði hann niðr Egil Skallagrímsson sem hvern annan strák. Rotat hefði hann Gretti Ásmundarson sterka...“ (26) Og í atburðum enduróma lýsingar í öðrum sögum, hér hvar Skarphéðinn heggur Þráin Sigfússon í Njálu svo hrjóta niður jaxlar: „kom lagit við eyra svá at hrutu jaxlar úr Steinari á borðit. Fell hann dauðr fram“. (23) Svo er hér önnur dramatísk bardagalýsing sem gæti keppt um glæsilegustu morðtilþrifin: „Hann leysti nú höfuð Ásmundar af búknum með smell ok í því haussinn var enn á lofti hjó hann á ný leiftursnöggt svá at haussinn fell til jarðar. Í tvennu lagi. Hefir þat högg frægst orðit í fornsögum...“ (36)

Margvíslegar samtímavísanir

Gamansemi höfundar birtist með ýmsum hætti, eins og þegar tengsl manna eru rakin og eru ekki alltaf merkileg: „...hann var eitthvat tengdr Ásolfi reyknjóla, afa Ölvis þegjandi-más, óvíst er hvernig, sumir segja þeir afarnir Magnúss ok Ásólfr hafi starfat saman at heyskap eða átt hæns nökkverr í félagi“. (23) Og samtímavísanir eru með ýmsum hætti. Í einni neðanmálsgrein, þar sem lýst er útskeifri dóttur Geirmundar, sem bjó á Skarðsströnd, er sagt að hún eigi marga afkomendur og að „Steinólfur Lárusson í Fagradal beitti því athygli að sumir Skarðstrendingar voru afar útskeifir...“ (87)

Höfundi tekst oft vel upp með hlægilegar lýsingar sem eru í raun tragískar, eins og hvernig útrásarvíkingurinn Geirmundur gerði við þrælana; hann sendi saltaða geirfugla til Írlands en heitt var og úldnaði svo „varð eigi framgengt með vöruna í Dyflinn ok hafi Geirmundr með sér aftr sem þrælamat. Geirmundr hafði rausnarbú og mannmargt“. (89)

Hvað gróteskastar verða lýsingarnar þegar Geirmundur fer að Kvenhváli á Fellsströnd þar sem hann heldur kvenþræla sem rassskella hann og skaka brjóst til að vekja honum losta, og er því lýst í löngu máli. Síðar stefnir í viðlíka lýsingar en þá segir: „Hér er letrit alla síðu niðr uppskafit.“(148)

Þá laumar höfundurinn í galsafenginni senu nafna sínum, skáldi, inn í söguna en Geirmundur er fljótur að losa sig við hann, á afgerandi hátt.

Rétt er að taka fram að þessum rýni finnst í sjálfu sér ekkert merkilegra að sjá forvitnilegt verk byggt á hinum forna sagnaarfi en á hverju öðru; spurningin er bara hvernig til tekst. Geirmundar saga heljarskinns er bók sem unnendur Íslendingasagna hljóta að njóta að lesa og skemmta sér yfir, en ekki bara þeir, því hún ætti að höfða til allra þeirra sem hafa ánægju af metnaðarfullum skáldskap og geta dáðst hér að ferskum tökum höfundarins á máli, formi og stíl. Hann skemmtir okkur á sérlega kröftugan hátt í leik með bókmennta- og sagnahefðina, með frásögnum af fjölbreytilegum og breyskum persónum sem verða hér hluti af landnáms- og frumbýlingasögu Íslands – sem endalaust má deila um hvort sönn sé eða login.

Einar Falur Ingólfsson