[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Baksvið

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Flestir telja að mikið og erfitt verk blasi við Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og hinu opinbera, að ná allsherjarsamkomulagi um að jafna lífeyrisréttindaávinnslu á vinnumarkaðnum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að hann liti þannig á að um væri að ræða sameiginlegt verkefni ríkisins, opinberra starfsmanna og almenna markaðarins sem tengdist stöðunni á vinnumarkaði á næstu árum.

„Það er órjúfanlegur hluti af þessu að atvinnurekendur á almenna markaðnum samþykki að hækka lífeyrisiðgjöld um 3,5%, þannig að hinn almenni launþegi fari úr 12% iðgjöldum í 15,5%, sem er hlutfallið hjá opinberum starfsmönnum,“ sagði Bjarni.

Menn eru hóflega bjartsýnir á að slíkt heildarsamkomulag takist sem að er stefnt og ýmsir telja að þótt BSRB hafi verið hluti af SALEK-hópnum, og fulltrúar þess undirritað samkomulagið, séu ákveðin öfl innan BSRB sem vilji koma í veg fyrir að ríkið afnemi bakábyrgð ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum.

Mögulega er það þó talið geta liðkað fyrir samningum að samkvæmt SALEK-samkomulaginu fá opinberir starfsmenn ekki að njóta launaskriðsákvæðisins, sem kveðið er á um í ASÍ-samningunum, nema þeir hafi gengið frá samningum um jöfnun lífeyrisréttinda.

Ljóst er að mikill halli er á lífeyrisskuldbindingum ríkisins, litið til framtíðar, og því hafa ákveðnir menn í stjórnkerfinu velt því fyrir sér til hvaða ráða verði hægt að grípa, hlaupist BSRB, eða hluti bandalagsins, undan merkjum.

Ríkið vill afnema bakábyrgð ríkissjóðs á lífeyrisskuldbindingum, að kerfið breytist úr jafnri réttindaávinnslu í aldurstengda réttindaávinnslu. Gera þurfi ráðstafanir til þess að allir sem eru inni í opinbera lífeyriskerfinu njóti jafnrar stöðu eftir slíkar kerfisbreytingar. Það mun ríkið vera tilbúið að tryggja. Loks er að því stefnt að hækka lífeyristökualdurinn.

Bent hefur verið á að annars vegar gæti komið til hækkunar iðgjalds ríkisins, sem yrði gríðarlega kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð og þar með skattgreiðendur þessa lands. Slíkur kostnaðarauki myndi valda enn frekari gliðnun milli opinberra og almennra launþega. Samkvæmt heimildum kemur ofangreind leið ekki til álita hjá stjórnvöldum.

Stjórnvöld hafa það spil á hendi, takist ekki samningar, að lögfesta hækkun lífeyristökualdurs opinberra starfsmanna. Það yrði, samkvæmt heimildum, neyðarúrræði, þegar og ef fullreynt verður að samningar takist ekki, en þeir fjórir hópar sem þurfa að klára samninga um jöfnun lífeyrisréttinda hafa jú allt til ársloka 2018 til þess að semja um nýtt kerfi.

Stjórnvöld telja að það skipti verulegu máli að samningar takist og einnig það að Kennarasamband Íslands og Bandalag háskólamanna komi að slíkum samningum.

Stefnan þingfest

Í gær var stefna Verkalýðsfélags Akraness vegna rammasamkomulags sem SALEK-hópurinn gerði þingfest í félagsdómi. Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins, stefndi.

Þetta kom fram á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness í gær, en félagið telur að rammasamkomulagið skerði umtalsvert samningsrétt frjálsra stéttarfélaga og sé því brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Þar kom jafnframt fram að VA á eftir að ganga frá einum samningi í þessari samningslotu en það er kjarasamningur félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga vegna Akraneskaupstaðar.