Stress Jólahefðir nútíma-Íslendingsins eru skemmtilegt myndefni.
Stress Jólahefðir nútíma-Íslendingsins eru skemmtilegt myndefni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í myndskreytingunni við jóladagatal Norræna hússins leitar Lóa Hlín fanga í eigin jólaupplifunum í Breiðholtsblokk. Hún skreytir kjallararými hússins svo að mætti halda að þar hefði einhver farið yfir um í jólaundirbúningnum.

Í Norræna húsinu er hefð fyrir því að bjóða upp á lifandi jóladagatal í desember. Rétt eins og börnin vita ekki hvaða óvænta góðgæti leynist bak við gluggana í súkkulaðidagatölunum vita gestir á hádegisviðburðum Norræna hússins ekki hvað er í boði fyrr en glugginn er opnaður á dagatalinu. Dagskráin er fjölbreytt og aðgengileg og má t.d. eiga von á upplestri, dansi og alls kyns skemmtiatriðum.

„Dagskrárliðirnir liggja fyrir en enginn veit hvað verður hvaða dag,“ segir Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, sem í ár teiknar sjálft dagatalið og á einnig heiðurinn af sýningunni í kjallararými Norræna hússins í desember.

Meðal atriða á dagskrá í ár eru bollywood-dansar og stuttir tónleikar með bandinu Úlfi Úlfi. „Ævar vísindamaður mætir líka, sem og Hið íslenska gítartríó, hljómsveitin Milkywhale og Ragnar Helgi Ólafsson, sem hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir skemmstu. Dagskrárliðirnir eru mjög áhugaverðir og af blönduðum toga,“ útskýrir Lóa.

Samkvæmt venju hefst dagskráin kl. 12:34 með því að viðeigandi gluggi á dagatalinu er opnaður með pomp og prakt. Þar til gerðri bjöllu er hringt og upplýst hvaða atriði er í vændum áður en gestum er hleypt inn í sal. Er jóladagatal Norræna hússins ókeypis og aðgangur öllum heimill svo lengi sem húsrúm leyfir.

Sjálf kveðst Lóa nú munu upplifa þennan viðburð í fyrsta skipti. „Mig hefur langað til að sjá jóladagatal Norræna hússins í mörg ár, en alltaf ratast þannig á að mér hefur tekist að missa af dagskránni. Þá dauðlangaði mig líka að gera sjálft dagatalið fyrir þessa skemmtilegu dagskrá og varð mjög spennt þegar kynningar- og verkefnastjóri Norræna hússins bað mig óvænt að taka verkefnið að mér.“

Lesendur ættu að þekkja Lóu fyrir mörg skemmtileg listræn verkefni. Hún er meðlimur hljómsveitarinnar FM Belfast og hefur vakið athygli fyrir áhugaverðar myndasögur og mjög sérstakan stíl í teikningum sínum. Þessi jólin sendir hún frá sér myndasögubókina Lóaboratoríum – Nýjar rannsóknir.

Barn í Breiðholtinu

Dagatalið sem Lóa hefur teiknað sækir innblástur í hennar eigin misgóðu jólaminningar. „Manstu eftur persónulega trúbadornum úr Fóstbræðrum? Þetta jóladagatal er dálítið þannig,“ segir hún. „Þetta er sjálfsævisögulegt dagatal sem er í takt við allar sjálfsævisögurnar sem verið er að kynna um þessar mundir.“

Í aðalhlutverki í jóladagatalsteikningu Lóu er Breiðholtsblokkin þar sem hún ólst upp, skreytt stórum „Breiðholtsljósaperum“, og hver gluggi er tengdur jólaminningu sem Lóa hefur teiknað og hengt upp um veggi umhverfis dagatalið.

Spurð út í ferlið segir Lóa Hlín að það hafi verið gaman að heimsækja gömlu minningarnar, og sumar hafi hún séð í nýju ljósi. „Ég er með rosalega gott minni, og man jólin í senum með alls kyns smáatriðum. Ég var líka mjög hrifnæmur krakki og man að ég mátti ekki hugsa of mikið um það sem ég var að gera yfir jólin eða mér hætti til að ofhugsa hlutina. Fjallar ein minningin um það þegar ég lenti ein jólin í hálfgerðri tilvistarkreppu þar sem ég var að hengja jólaskraut á tréð. Allt í einu rann það upp fyrir mér að þarna var ég að hengja eyrnalokka á dautt tré inni í stofu.“

Gjafir sem kalla á sjálfskoðun

Aðrar minningar endurspegla streituna. „Í kringum jólin þarf hrifnæmt fólk að reyna að tóna sig niður. Þannig fólk getur orðið rústirnar einar ef ekkert má út af bregða og boginn er spenntur of hátt.“

Jólin gátu líka haft áhrif á samskiptin innan fjölskyldunnar og fjallar ein minningin í jóladagatalinu um veglega gjöf sem Lóa fékk, átta eða níu ára gömul. „Þá gaf frænka mín mér svo fallega jólagjöf að ég fór hreinlega að endurskoða öll samskipti okkar yfir árið. Ég fékk samviskubit yfir því að hafa fengið svona fína gjöf hjá frænku minni sem ég hafði verið svo leiðinleg við.“

Ein teikningin sýnir hálfklárað jólaföndur og vísar til jólaminningar sem Lóa tók að sjá í nýju ljósi þegar hún vann jóladagatalið. „Þegar maður fer að skoða minningarnar sínar breytast þær stundum. Það var venjan að hún mamma kæmi með okkur systrum í skólann í desember í jólaskrautsgerð. Hún hefur aldrei verið mikið fyrir hannyrðir og einhvern veginn gleymdist alltaf að klára hálfföndrað skrautið í pokanum sem við tókum með okkur heim frá þessum jólaskrautskvöldum. Þegar ég var yngri fannst mér þessi poki vera til marks um að eitthvað væri misheppnað í heimilishaldinu. Svo sá ég loksins eftirá að ókláraða skrautið var mun frekar til marks um hvað mamma mín hafði margt áhugaverðara við tímann að gera en að reyna að halda einhver fullkomin jól með heimagerðu jólaskrauti.“ ai@mbl.is

Eins og evangelisti hefði misst sig

Í sýningarrýminu í kjallara Norræna hússins hefur Lóa Hlín hannað jólaþorp, eða öllu heldur uppstillingu. Meðal þess sem ber fyrir augu eru jólafígúrur: María mey og Jesúbarnið, gerð úr dúskum, og á víð og dreif er ofgnótt af jólapökkum. „Þetta er svolítið eins og ef amerísk kona hefði fengið að skreyta kjallarann í evangelistakirkjunni sinni og farið yfir um í öllu ferlinu,“ segir Lóa. „Ég er að skoða hvað gerist þegar skraut hættir að vera skraut og verður að rusli, og öfugt, og hvað rýmið getur orðið hræðilegt, fallegt, fyndið og allt þar á milli þegar það er ofskreytt.“