Akstur Verktakar sinna alfarið ferðaþjónustu fatlaðra fyrir Strætó.
Akstur Verktakar sinna alfarið ferðaþjónustu fatlaðra fyrir Strætó. — Morgunblaðið/Kristinn
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Mér sýnist að ráðuneytið komi aðeins til móts við sveitarfélögin að hálfu leyti.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Mér sýnist að ráðuneytið komi aðeins til móts við sveitarfélögin að hálfu leyti. Við erum með þetta til skoðunar en þetta gæti haft nokkurn kostnað í för með sér fyrir sveitarfélög og fyrirtæki þeirra,“ segir Guðjón Bragason hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en fjármálaráðuneytið hefur skilað umsögn við frumvarp fjármálaráðherra um breytingar á forsendum fjárlaga fyrir árið 2016, eða bandorminn svonefnda.

Þar er ráðuneytið að bregðast við ýmsum athugasemdum við frumvarpið, m.a. frá sveitarfélögum vegna lagningu virðisaukaskatts á fólksflutninga. Almenningssamgöngur og flutningur með skólabörn, fatlaða og aldraða verður undanþeginn vsk. en sveitarfélögin hafa í töluverðu mæli leitað til verktaka með þennan akstur. Skv. frumvarpinu verður þessum verktökum heimilt að færa innskatt vegna kaupa á aðföngum á móti útskatti við uppgjör vsk.

Samband ísl. sveitarfélaga gerði athugasemd við þessar lagabreytingar og lagði mikla áherslu á að ekki yrði gerður greinarmunur á því hvort sveitarfélög eða fyrirtæki í þeirra eigu önnuðust akstursþjónustu sjálf eða keyptu þjónustu verktaka. Dæmi væru um að mjög stór hluti af þessari þjónustu væri aðkeyptur. Þannig eru um 45% aksturs Strætó bs. í verktöku. Sveitarfélögin benda á að um mikla fjármuni sé að tefla, þar sem þau kaupa á hverju ári akstursþjónustu af verktökum fyrir um 5 milljarða króna.

Bráðabirgðaákvæði bætt við

Í umsögn ráðuneytisins er reynt að koma til móts við þessa gagnrýni. Gerð er tillaga um bráðabirgðaákvæði til tveggja ára, um að endurgreiða sveitarfélögum og stofnunum þeirra helming virðisaukaskatts sem þau greiða vegna kaupa á fólksflutningum árin 2016 og 2017. Með þessu telur ráðuneytið að verktaka í akstursþjónustu verði ekki fyrir áhrifum af breytingum á skattheimtunni um áramót. Staða sveitarfélaga muni heldur ekki raskast við þetta.

Guðjón Bragason er ósammála þessu, sem og Jóhannes Rúnarsson, forstjóri Strætó bs. Jóhannes telur að þrátt fyrir að helmingur vsk. fáist endurgreiddur þá geti kostnaðarauki Strætó orðið um 200 milljónir króna á ári, eða um 10% af veltu fyrirtækisins.

Jóhannes bendir á að Strætó og landshlutasamtök sveitarfélaga séu með langtímasamninga við verktaka sem gilda allt til loka árs 2019. Óvissa sé nú uppi um hvort þeir séu reiðubúnir að ræða nýtt verð fyrir sína þjónustu. Hætt sé við að á endanum þurfi að hækka gjaldskrá Strætó. „Við munum gera athugasemdir við þetta hjá ráðuneytinu,“ segir Jóhannes.

1.943 víntegundir lækka

Um áramót verður áfengi fært í neðra þrep virðisaukaskatts, 11%, en áfengisgjald hækkað á móti. Samkvæmt umsögn fjármálaráðuneytisins hefur verið ákveðið að verða við ábendingum hagsmunaaðila um að samræma gjaldfrest áfengisgjalds og vsk., tímabundið fyrir fyrstu tvö gjaldtímabil 2016, til að þeir aðlagist betur breytingunum.

Eftir áramót munu 1.943 áfengistegundir lækka í verði en 725 tegundir hækka. Mest verðhækkun er tæp 8% en mesta lækkunin rúm 13%.