Sígild jól „Ég er bara mjög klassísk þegar að þessu kemur og vel helst grænan, rauðan, silfur og gull,“ segir Hlín Reykdal um sinn stíl um jólin. Inn á milli hefur hún misst sig að eigin sögn í ríkulega skreytta ameríska kransa.
Sígild jól „Ég er bara mjög klassísk þegar að þessu kemur og vel helst grænan, rauðan, silfur og gull,“ segir Hlín Reykdal um sinn stíl um jólin. Inn á milli hefur hún misst sig að eigin sögn í ríkulega skreytta ameríska kransa. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Grenigreinar eru ómissandi hluti af aðventukransinum hjá Hlín Reykdal, sem gerir jafnan tvo til þrjá kransa fyrir hver jól.

Mér finnst gaman að skreyta en geri þó ekki mikið af því,“ segir Hlín Reykdal. „Ég útbý oftast svona tvo til þrjá kransa fyrir hver jól. Einn aðventukrans með kertunum og svo bý ég líka til krans til að setja á útidyrahurðina og annan sem að ég hef úti við, til dæmis úti á palli. Ég nota alltaf lifandi greni því að þá verður kransinn aldrei eins, sem mér finnst mjög skemmtilegt.“ Fjölbreytileikinn fær svo að njóta sín í skrautinu, sem er mismunandi milli ára. „Ég á ekkert uppáhaldsskraut,“ segir Hlín. „Stundum nota ég skraut frá árinu áður eða þá að ég kaupi eitthvað nýtt.“

Hægt að missa sig í jólaskrautinu

Hlín og vinkona hennar Alma Sigurðardóttir hafa komið saman sl. 3-4 ár og búið til kransa og haft gaman af. „Við Alma vinkona byrjuðum að gera þetta, svo bættist Hadda systir í hópinn og svo hafa stundum einhverjar vinkonur okkar tekið þátt í þessu. Eldri dóttir mín Stella, sem er sex ára hefur líka verið liðtæk við kransagerðina.“ Kransagerðin hefur ýmist farið fram heima við, eða á vinnustofu Hlínar á Fiskislóð. „Þetta er voða skemmtilegt, við komum oft með einhverjar smá veitingar með okkur og svo náttúrulega hráefnið í kransagerðina. Stundum höfum við líka farið saman og keypt greni og annað til kransagerðarinnar.“

Hún hlær og segir jólaskrautið vel geta freistað. „Ég man að eitt árið þá ætluðum við rétt að skreppa inn í eina búð en enduðum á að vera þar í tvo tíma. Það er alveg hægt að missa sig í þessu.“ Fallegir könglar, sem rötuðu í innkaupakörfuna í þeirri verslunarferð hafa fengið að skreyta aðventukransinn hjá Hlín undanfarin ár.

Þó að vinkonurnar komi saman við kransagerðina, þá vinnur hver kransinn út frá sínum hugmyndum. „Auðvitað höfum við þó líka alveg áhrif hver á aðra, en mér finnst samt einkar skemmtilegt hve kransinn verður oft lýsandi fyrir heimili og karakter þess sem býr hann til.“

Góður ilmur skiptir máli

Hlín segir að hún kjósi almennt að hafa hlutina frekar einfalda í kringum sig. „Ég hef þó líka gert alveg brjálæðislega skreytta og ameríska kransa sem eru ótrúlega ólíkir því sem gengur og gerist hjá mér. Þá kemur einhver útrás þarna.“ Í annan tíma geti kransarnir líka verið mjög einfaldir og því eru þeir oft ólíkir frá einum jólum til þeirra næstu. Hefðbundnir jólalitir eru þó yfirleitt ráðandi. „Ég er bara mjög klassísk þegar að þessu kemur og vel helst grænan, rauðan, silfur og gull.

Ég skreyti ekki mjög mikið, en mér finnst kertaljós og góður ilmur skipta máli um jólin og það er gaman að kaupa falleg kerti, t.d. ilmkerti fyrir jólin. Stundum set ég líka greni í gluggakistuna inni í stofu og í fyrra keypti ég líka fallegar könglagreinar til að setja í vasa. Þá finnst mér fallegt að setja ferskt greni í stóran vasa með berjagreinum. Svo má kannski setja kerti og nokkra greniköngla á silfurbakka og þá þarf ekkert endilega meira til að skapa hátíðlega stemningu.“

Skapandi alla daga

Hlín er hönnuður og hefur m.a. getið sér gott orð fyrir hálsmen sín og er því skapandi alla daga. Spurð hvort hún eigi sköpunarkraft eftir fyrir jólaskrautið, þá segist hún ekki fá nóg. „Engan veginn, ég elska jólin og vildi óska þess að ég hefði meiri tíma til að baka og vera með dætrum mínum. En þetta er náttúrlega annasamasti tími ársins og því reynum við líka hafa jólastemningu og skemmtilegheit uppi á vinnustofu, en það verður að segjast að ég er oft mjög þreytt á jóladag,“ segir Hlín og hlær.

Óvenjumikið er að gera hjá Hlín fyrir þessi jólin, en fjölskyldan er nýflutt og til stendur að flytja vinnustofuna og stofna verslun úti á Granda á næstunni. „Það er bara allt að gerast. Við vorum að flytja heimili okkar og nokkrum dögum eftir að við vorum búin að því þá fengum við staðfest að við erum að fá annað rými úti á Granda.“ Nýja verslunin sem til stendur að opna í desember, verður á fyrstu hæð á Fiskislóð 75, í sama húsnæði og vinnustofa Hlínar er nú. „Við flytjum bara á milli hæða og þurfum þannig ekki einu sinni að breyta heimilisfanginu. En þetta er alveg geggjað rými og gerir okkur auðveldar hafa vinnustofuna opna fyrir almenning, þarna verður hægt að versla og fylgjast um leið með hvernig skartið verður til. Við handmálum allar kúlurnar þannig að ég tek bara á móti fólki með pensilinn í hönd.“

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort litríku tréperlurnar sem hún notar í skart sitt hafi einhvern tímann ratað á jólakransa. „Nei, það hefur aldrei gerst. Ég held þessu alveg aðskildu og fæ einhverja aðra útrás við kransagerðina,“ segir Hlín og kveðst spennt að setja kransinn á útidyrahurðina á nýja heimilinu.

aseinars@gmail.com

Fallegt að hafa kransinn svolítið villtan

Hlín bjó til grenikrans á útidyrahurðina fyrir Jólablað Morgunblaðsins. Hún leyfir greinunum þar að vera nokkuð frjálslegar og breiða úr sér. „Mér finnst gaman að hafa kransana svolítið villta og jafnvel út í það að vera ekki alveg reglulegir í forminu. Mér finnst svoleiðis kransar alveg ofboðslega fallegir og þannig fær grenið líka að njóta sín.“

Hlín notar basthring, sem fæst í öllum blómabúðum, sem grunn að kransinum. „Síðan byrja ég á því að horfa aðeins á grenigreinarnar og móta þær eftir kransinum. Stundum klippi ég þær aðeins í sundur og oft tek ég eina grein og klippi meira niður til að hægt sé að fylla á milli. Það fer vissulega meira greni í að hafa kransinn svona villtan, en mér finnst smart að njörva hann ekki alveg niður með vírnum.“

Hlín notar síðan grænan blómavír og vefur utan um grenið og mótar kransinn þannig meðfram basthringnum. „Svo reyni ég að fela vírinn með því að setja greinarnar aðeins yfir.“ Því næst er skrautið fest við kransinn og er því ýmist stungið inn á milli víranna eða í basthringinn. Að þessu sinni notar Hlín lifandi grænar greinar ásamt gerviberjum með greninu. „Ég nota oft berin aftur og aftur og t.d. voru brúnleitu berin, sem ég nota hér, í aðventukransinum mínum í fyrra en eru nú komin á útidyrahurðina. Það er alltaf hægt að nota skrautið aftur ef maður geymir það vel.“